Fulham vs. Everton (deildarbikar)

Mynd: Everton FC.

Á morgun leikur Everton útileik gegn Fulham í þriðju umferð ensku deildarbikarkeppninnar. Þessi leikur kemur á frábærum tíma, strax að loknum tveimur glæsilegum sigrum í deildinni í röð þannig að stuðningsmenn bíða örugglega spenntir eftir því að sjá meira. Því miður er leikurinn ekki sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 en það er kannski hægt að ná honum með gervihnetti einhvers staðar eða #hóst# einhversstaðarannarsstaðar #hóst#.

Það skrýtna við viðureignir Everton og Fulham gegnum tíðina — allavega fram til ársins 2008 — var að heimaliðið vann eiginlega alltaf (eins og komið hefur verið inn á áður). Ekki bara oftast, heldur nánast _alltaf_. Frá nóvember 2008 og aftur til ársins 1966 (um 20 leikir) vann heimaliðið alla leiki nema einn (sem var FA bikarleikur sem endaði með jafntefli og Fulham vann endurtekna leikinn á heimavelli). Árið 2009 breyttist eitthvað því Everton fór að síga fram úr og sigurhlutföllin breyttust í 7:2:1 (Everton í vil).

Sagan segir þó ósköp lítið þegar kemur að árangri á vellinum annað kvöld og getur brugðið til beggja vona. Sem betur fer er lítið um meiðsli í herbúðum okkar manna, Pienaar verður þó saknað en Alcaraz er enn meiddur þó benda verður á að hann kom á free transfer í upphafi tímabils, hefur lítið sem ekkert leikið og myndi hvort eð er verma bekkinn. Lukaku er heill, þrátt fyrir að hafa rotast í síðasta leik við að skora sigurmarkið en Martinez sagði í viðtali að hann myndi ekki taka sénsinn á Ossie, Pienaar og Arouna Kone. Mig grunar að Barkley verði einnig hvíldur þó hann vilji ólmur spila.

Ég held að uppstilling verði eftirfarandi: Robles, Oviedo, Heitinga, Jagielka, Stones. Miðjan: Gibson og Osman Barry, Naismith og Deulofeu á köntunum, Mirallas fyrir aftan Jelavic frammi. Eða kannski Deulofeu í holunni?

Það er erfitt að spá hversu alvarlega Fulham menn taka þessa keppni þar sem þeir eru í fallsæti í deildinni og Matthew Briggs og markvörðurinn Maarten Stekelenburg meiddir — auk þess sem Dimitar Berbatov, Aaron Hughes og Bryan Ruiz eru að jafna sig af meiðslum (en gætu spilað).

Hver er ykkar spá um liðsuppstillingu?

Og þá að öðrum fréttum:

Everton U21 liðið var greinilega að fylgjast með West Ham leik aðalliðsins um helgina því þeir lentu 0-2 undir gegn Chelsea U21 í kvöld en náðu að snúa því í 3-2 sigur með tveimur mörkum frá Hallam Hope og sigurmarki frá Chris Long á lokamínútunum.

Lukaku játaði að hann horfir á alla leiki andstæðinganna til að reyna að finna glufur á varnarleik þeirra. Þess má einnig geta að Lukaku er fyrsti leikmaður Everton sem skorar sigurmarkið í fyrsta leik sínum síðan Alan Ball gerði það árið 1966 — og Roberto Martinez er eini stjórinn í sögu Everton sem er ósigraður í fyrstu sex leikjum sínum við stjórnvölinn. Long may it continue!

Og svona í blálokin — ekki gleyma að kjósa um nýtt merki né því að það fer hver að verða síðastur að bóka ferð til Everton borgar að mæta með okkur að sjá Everton á Goodison Park en skráningu lýkur 6. október.Við erum komnir upp í tveggja stafa tölu og getum enn bætt við.

11 Athugasemdir

 1. Elvar Örn skrifar:

  Mér finnst alger skylda að leyfa Deulofeu að spreyta sig og geri ekki ráð fyrir að Ossie spili. Held að menn verði að læra t.d. af uppstillingunni fyrir Leeds leikinn í fyrra þar sem nánast nýtt lið fékk að spreyta sig með þeim afleiðingum að Everton tapaði.
  En þó er vert að benda á að breiddin í liðinu er ótrúlega mikil orðin svo ekki eins mikil áhætta og oft áður að leyfa mörgum nýjum að spreyta sig.

  Vinnum bara leikinn og málið er dautt. Vona þó að menn eins og Deulofeu og Oviedo spili og skori og geri tilkall til aðalliðsins.

 2. Elvar Örn skrifar:

  Svo er vert að minnast á það að ég (Elvar Örn) og Georg verðum í Reykjavík þegar Everton mætir Manchester City á Etihad á laugardeginum 5 október kl.11:45.
  Stefnum á að mæta eitilharðir á Ölver og hitta ykkur félagana.
  Sjáum vonandi sem flesta.

  • Halli skrifar:

   Það verður gaman að hitta á ykkur

  • Finnur skrifar:

   Frábært! Það verður gaman að sjá ykkur.

  • Finnur skrifar:

   Já, ég ætlaði líka að segja að ég setti Osman óvart í uppstillinguna hjá mér — það er nokkuð víst að hann verður ekki með. Breyti því.

 3. Orri skrifar:

  Sælir félagar.Ég geri bara kröfu um sigur gegn Fulham.

 4. Halli skrifar:

  —————- robels —————-

  Hibbert. Stones. Jagielka. Oviedo

  —— Gibson. Heitinga ———-

  —-Naismith. Vellios. Mirallas—

  ————- Jelavic———

  Ég ætla veðja á 2-0 sigur okkar manna og það verða Heitinga og Jelavic skora

 5. Gestur skrifar:

  sælir
  hér er mín spá
  Robles
  Hibbert-Jagielka -Heitinga-Oviedo
  Naismith-Barry-McCarthy-Deulofeu
  Jelavic-Vellios

  Þetta er skyldusigur enda með vanan þjálfara

 6. þorri skrifar:

  Þó að við séum á úti velli þá eigum við samt að vinna þá.Ég ælta að seigja að við vinnum leikin 1-3 fyrir everton.

 7. Finnur skrifar:

  Hægt er að sjá skemmtilegar svipmyndir úr comeback-leik U21 árs liðsins gegn Chelsea U21 hér:
  http://www.evertonfc.com/evertontv/home/9424

 8. Finnur skrifar:

  Uppstillingin komin:
  http://everton.is/?p=5629