Saga Everton

Skrifað af Einari Guðbergi Jónssyni og uppfært af Finni Breka Þórarinssyni.

Yfirlit:

Nafn Klúbbs: Everton Football Club.
Viðurnefni: The Toffees, The Blues, The People’s Club.
Stofnað: 1878 sem St. Domingo F.C.
Leikvöllur: Goodison Park.
Sæti: 40,569.
Stjórnar-formaður: Bill Kenwright.
Knattspyrnu-stjóri: Ronald Koeman.

Everton er enskur knattspyrnuklúbbur frá Liverpool borg. Liðið keppir í ensku úrvalsdeildinni og hefur verið lengur í efstu ensku deildinni en nokkur annar klúbbur. Everton er eitt af topp fimm félögum á Englandi þegar horft er til stórtitla en Everton hefur unnið efstu deildina níu sinnum, F.A. bikarkeppnina fimm sinnum og UEFA Cup Winners Cup einu sinni. Síðasti titill Everton var árið 1995 þegar liðið vann FA bikarinn. Fyrrverandi knattspyrnustjóri Everton, David Moyes, náði liðið miklum framförum eftir að hann tók við liðinu en það var í hættu á að falla. Hann náði að stýra því í efri hlutann og komast nokkrum sinnum í Evrópukeppnina sem hafði aðeins einu sinni gerst á 11 ára tímabili áður en hann tók við. Martinez (á meðan hann var við stjórnvölinn) breytti leikstíl Everton nokkuð en lögð var mikil áhersla á „possession football“, sem þá var í tísku, með Barcelona sem fyrirmynd.

Erkifjendur Everton eru grannarnir Liverpool F.C., en Liverpool var stofnað eftir deilur sem upp komu vegna leigu á gamla heimavelli Everton, Anfield, árið 1892. Síðan þá hefur Goodison Park verið heimavöllur Everton.

Everton var upprunalega stofnað sem St. Domingo F.C. árið 1878 svo að sóknarbörn St. Domingo kirkju gætu stundað íþróttir utandyra yfir sumarmánuðina. Ári seinna var nafninu breytt í Everton F.C. í höfuðið á hverfinu sem félagið var í þegar fólk utan sóknar St. Domingo óskaði eftir að fá að ganga í félagið. Everton tók þátt í að stofna ensku knattspyrnudeildina (The Football League) árið 1888 og vann Everton sinn fyrsta titil tímabilið 1890-91. Þeir unnu síðan FA bikarinn tímabilið 1905-06 og síðan deildarmeistaratitilinn aftur tímabilið 1914-15. Eftir það var gert hlé á fótbolta vegna fyrri heimsstyrjaldar og stöðvaðist þar með framganga Everton. Það var svo ekki fyrr en 1927 að fyrsta gullöld Everton gekk í garð.

Árið 1925 gekk Dixie Dean (William Ralph Dean) til liðs við Everton. Hann setti markamet á einu tímabili (1927-28) en þá skoraði hann 60 mörk í 39 leikjum. Þetta met stendur enn þann dag í dag og verður líklega aldrei slegið, þó Lionel nokkur Messi hafi gert harða atlögu að því fyrir ekki svo löngu. Þetta markamet Dixie átti jafnframt stóran þátt í því að Everton fagnaði sínum þriðja deildarmeistaratitli.

Everton féll í aðra deild tveimur árum eftir það, en unnu aðra deildina og komu strax upp aftur. Þeir sóuðu engum tíma tímabilið 1931-32 og unnu sinn fjórða deildartitil og svo sinn annan FA bikarmeistaratitil tímabilið 1932-33 (unnu Manchester City 3-0 í úrslitaleiknum). Gullaldarárunum lauk síðan tímabilið 1938-39 en þá vann Everton sinn fimmta deildarmeistaratitil. Þá var aftur var gert hlé á keppni í ensku deildinni (vegna seinni heimstyrjaldar) og byrjaði deildin ekki aftur fyrr en árið 1946. Eftir stríð var Everton liðið ekki svipur hjá sjón og fölnaði í samanburði við gullaldarliðið fyrir stríð. Everton féll í aðra deild tímabilið 1950-51 og kom ekki upp í efstu deild aftur fyrr en þremur tímabilum síðar (1953-54). Everton hefur verið í efstu deild ensku knattspyrnunnar allar götur síðan.

Annað gullaldar tímabil Everton rann upp þegar Harry Catterick varð knattspyrnustjóri árið 1961. Tímabilið 1962-63, annað tímabilið undir stjórn Harrys, vann Everton sinn sjötta deildarmeistaratitil og FA bikarinn 1966 (og komst í úrslit 1968 en tapaði fyrir WBA á Wembley). Ári seinna, 1969-70, vann Everton efstu deildina með níu stigum meira en liðið í öðru sæti. Ekki tókst þó að fylgja því eftir og á næstu árum kláraði liðið tímabilin í 14., 15., 17. og 7. sæti. Catterick settist í helgan stein en sá er á eftir honum kom náði ekki að vinna neina titla það sem eftir var af áttunda áratugnum. Liðið endaði reyndar í þriðja sæti tímabilið 1977-78 og í því fjórða tímabilið á eftir.

Howard Kendall tók við sem knattspyrnustjóri 1981 og stýrði Everton inn á þeirra þriðja og mesta gullaldartímabil. Heima á Englandi vann Everton FA bikarinn tímabilið 1983-84 og tvo deildarmeistaratitla (tímabilin 1984-85 og 1986-87). Everton urðu næstir á eftir fjendunum í Liverpool bæði í deildarbikar og deildarkeppni tímabilið 1985-86. Einnig töpuðu þeir fyrir Liverpool í úrslitaleik deildarbikarsins 1984 og í úrslitaleik FA bikarsins 1989. Í Evrópu vann Everton sinn fyrsta og eina Evrópubikar hingað til en það var árið 1985 í Evrópukepnni bikarhafa (European Cup Winner’s Cup) þegar þeir unnu Rapid Wien 3-1 í Rotterdam. Howard Kendall varð þar með síðasti enski stjórinn til að vinna Evrópubikar. Þetta ár komst Everton mjög nærri því að vinna þrefalt en töpuðu fyrir Manchester United í úrslitaleik FA bikarsins.

Heysel slysið átti sér stað í Belgíu 1985 og voru ensk knattspyrnulið sett í ótímabundið bann frá þátttöku í Evrópukeppnum. Banni þessu var aflétt fimm árum seinna. Þetta varð til þess að Everton fékk ekki tækifæri, sem enskur meistari, að etja kappi við bestu lið Evrópu. Kendall fór frá Everton til Athletic Bilbao eftir að Everton sigraði deildina 1987. Þá tók við liðinu aðstoðamaður Kendall, Colin Harvey. 1992 tók Everton þátt í að stofna ensku Úrvalsdeildina, en áttu í miklu basli með að finna rétta stjórann. Kendall kom reyndar aftur 1990 en náði ekki að endurvekja stemminguna frá fyrri stjóratíð sinni. Mike Walker tók svo við af Kendall en er sá knattspyrnustjóri Everton sem hefur náð einna slakasta árangri með Everton liðið.

Fyrrverandi leikmaður Everton, Joe Royle tók við liðinu árið 1994 og fór þá loks að ganga betur. Í fyrsta leik liðsins undir hans stjórn vann Everton Liverpool 2-0. Royle forðaði svo Everton frá falli 1994 og stjórnaði liðinu til sigurs í fimmta skipti í FA bikarkeppninni 1995, með því að vinna Manchester United 1-0 í úrslitaleiknum. Everton spilaði síðan við KR, sælla minninga, sama ár en Royle hélt áfram uppbyggingu sinni og náði að enda með Everton í sjötta sæti tímabilið 1995-96 í Úrvalsdeildinni.

Næsta tímabil, 1996-97, var ekki eins gott og endaði Everton í fimmtánda sæti og Royle hætti í mars 1997. Fyriliði Everton, Dave Watson, tók við liðinu tímabundið og bjargaði því frá falli. Howard Kendall varð svo knattspyrnustjóri í þriðja skiptið 1997, en hann náði ekki árangri með liðið og liðið rétt bjargaði sér frá falli tímabilið 1997-98 þar sem það eina sem skildi liðið frá falli var betra markahlutfall en Bolton.

Sumarið 1998 tók Walter Smith við stjórninni en liðið náði aldrei upp í efri helming deilar þrjú tímabil í röð. Stjórn Everton missti að lokum þolinmæðina og Walter Smith var rekinn í mars 2002 og var þá liðið í mikilli fallhættu.

David Moyes tók við liðinu af Walter Smith þann 14. mars árið 2004 en Everton var þá að berjast fyrir lífi sínu í Úrvalsdeildinni — í bullandi fallbaráttu. Moyes sagði á fréttamannafundi þegar hann var kynntur að meirihluti íbúa sem hann hitti á götum Liverpool borgar væru stuðningsmenn Everton og nefndi klúbbinn því The People’s Club eða Klúbbur fólksins. Það féll vel í kramið hjá stuðningsmönnum og ekki síður óskabyrjunin sem hann fékk í starfi, því Everton vann Fulham 2-1 á heimavelli í hans fyrsta leik. Árangurinn það sem eftir var tímabils var jafnframt nógu góður til að Everton héldi sæti sínu í Úrvalsdeildinni (endaði í 15. sæti) og Moyes kom svo liðinu aftur í baráttu efstu liða, þar sem það á heima.

Moyes erfði gamalt og úr sér gengið lið og hófst handa við að yngja það upp og tókst oft frábærlega upp með að finna öfluga leikmenn fyrir litla fjármuni en Tim Cahill er þar kannski besta dæmið (aðeins 1M punda). Með David Moyes fylgdi stöðugleiki, sem Everton þurfti sárlega á að halda og jafnframt stöðugar framfarir ár frá ári. Undir stjórn Moyes náði Everton flestum stigum sem liðið hafði fengið frá stofnun Úrvalsdeildar (65 stig tímabilið 07/08) og einnig hæsta sæti frá stofnun (4. sætið tímabilið 04/05). Viðsnúningur á gengi Everton við komu Moyes var ótrúlegur en nánast var hægt að ganga frá því sem vísu að Everton yrði í einu af 8 efstu sætunum og náði eða daðraði nánast alltaf við Evrópusæti og jafnvel við Champions League sæti (sem náðist einu sinni). Ekki slæmt þegar litið er til þess að liðið var í fallbaráttu þegar Moyes tók við og þess að Everton hafði síður en svo fjárhagslega burði til að keppa við liðin í kringum sig í leikmannakaupum.

Fjórum sinnum í stjórnartíð Moyes sló Everton þó klúbbmet í fjárfestingum á leikmönnum: fyrst þegar James Beattie var keyptur fyrir £6M árið 2005, svo Andy Johnson fyrir £8.6M árið 2006, Yakubu fyrir £11,25M árið 2007 og loks Marouane Fellaini fyrir £15M árið 2008. Wayne Rooney var seldur fyrir metfé (a.m.k. £23 milljónir) til Manchester United árið 2004, en tímabilið þar á eftir náði Everton 4. sæti í deildinni. Tímabilið 2006-07 endaði Everton í sjötta sæti í Úrvalsdeildinni og náði með því að tryggja sér sæti í UEFA bikarnum 2007-08 og aftur 2008-09. Árið 2009 náði David Moyes að komast með Everton í úrslit FA bikarkepninnar en tapaði 2-1 fyrir Chelsea. Moyes náði að koma Everton í meistaradeildina eftir tímabilið 2004-05 en duttu út í forkeppninni eftir að löglegt mark var dæmt af, með afar vafasömum hætti, eins og þekkt er. Moyes var valinn LMA stjóri ársins þrisvar (2002–03, 2004–05, 2008–09), stjóri mánaðar í Úrvalsdeild 10 sinnum og náði þeim áfanga árið 2012 að hafa verið 10 ár samfleytt við stjórnvölinn hjá sama Úrvalsdeildarliðinu (en aðeins Arsene Wenger og Alex Ferguson höfðu þá náð því).

Moyes tókst samt einhvern veginn aldrei að vinna titil með Everton og hann fór að lokum til Manchester United árið 2013 eftir 11 ára starf. Moyes var oft gagnrýndur fyrir að vera of varnarlega sinnaður og neikvæður í tali — að ekki sé minnst á afleitan árangur í Evrópukeppnum. Hann skilaði þó mjög góðu búi: liðið var það besta sem við höfðum séð í áratugi, unglingalið Everton (U18 og U21) á meðal þeirra fjögurra bestu á Englandi, Everton í topp 8 sæti ár eftir ár og margir leikmenn blómstrað undir hans stjórn, t.d. Fellaini, Jagielka, Baines og Osman (þeir þrír síðastnefndu komust allir í landsliðs Englands), og fleiri gæti maður talið.

Roberto MartinezRoberto Martinez tók við af David Moyes sumarið 2013 (frá og með 1. júlí) en hann hafði nýlega gert Wigan að FA bikarmeisturum (og fallið með þeim sama ár). Hann varð 14. fastráðni stjóri Everton frá upphafi og jafnframt fyrsti stjóri Everton sem ekki var frá Bretlandseyjum. Hann náði mjög góðum árangri á sínu fyrsta tímabili með Everton en liðið endaði hársbreidd frá Meistaradeildarsæti á afar minnistæðu tímabili þar sem Everton tók m.a. 6 stig af United og náði sætum sigri á Chelsea og afar sannfærandi sigri á Arsenal. Everton liðið setti á því tímabili stigamet í ensku Úrvalsdeildinni (72 stig) en Martinez náði aldrei að fylgja þessum árangri eftir og þrátt fyrir sannfærandi spilamennsku í Evrópudeildinni á tímabilinu sem fylgdi endaði liðið tvö tímabil í röð í neðri hluta ensku deildarinnar. Nýr eigandi Everton, Farhad Moshri, missti því þolinmæðina og lét hann fara rétt undir lok þriðja tímabils Martinez (2014/15) og gömlu kempurnar, Unsworth og Royle, voru fengnir til að stýra liðinu í lokaleik tímabilsins (3-0 sigurleik gegn Norwich).

Ronald KoemanÍ stað Roberto Martinez var Ronald Koeman ráðinn þann 14. júní, 2016, en hann var margverðlaunaður bæði sem leikmaður og stjóri og hafði náð mjög svo eftirtektarverðum árangri með lið Southampton á þeim tveimur árum sem hann eyddi með þeim. Þeir enduðu í 7. og 6. sæti þrátt fyrir að hafa orðið fyrir þó nokkurri blóðtöku við byrjun beggja tímabila. Það verður fróðlegt að sjá hvað hann gerir með liðið.

   

Titlar

Deildarmeistarar (í efstu deild): 9 sinnum  (1890–911914–151927–281931–321938–391962–631969–701984–851986–87).
FA bikarmeistarar: 5 sinnum (19061933196619841995)
Góðgerðarskjöldur: 9 sinnum (1928, 1932, 19631970, 1984, 1985, 1986 (deilt), 1987, 1995)
UEFA Cup Winners’ Cup: Einu sinni, árið 1985.

Besta lið Everton allra tíma

Everton fagnaði 125. afmæli liðsins tímabilið 2003-04. Að því tilefni útnefndu stuðningsmenn liðsins besta lið Everton allra tíma. Það var þannig skipað:

Neville Southall (1981–97) Markmaður
Gary Stevens (1982–89) Varnarmaður
Brian Labone (1958–71) Varnarmaður
Kevin Ratcliffe (1980–91) Varnarmaður
Ray Wilson (1964–69) Varnarmaður
Trevor Steven (1983–90) Miðjumaður
Alan Ball (1966–71) Miðjumaður
Peter Reid (1982–89) Miðjumaður
Kevin Sheedy (1982–92) Miðjumaður
Dixie Dean (1925–37) Sóknarmaður
Graeme Sharp (1980–91) Sóknarmaður

Íslendingar hjá Everton

Þrír íslenskir leikmenn hafa fengið að spreyta sig hjá Everton:

Bjarni Viðarsson var leikmaður Everton frá 2004-2008 (þangað til hann fór til Twente).
Hörður Björgvin Magnússon sem var þar á reynslusamningi árið 2009.
Þórður Ingason fór ungur á láni til Everton árið 2006.

Heimildir:

Corbett, James (2004). Everton: School of Science.
Tallentire, Becky (2004). The Little Book of Everton. Carlton Books Ltd.
Ball, D. & Buckland, G. (2001). Everton-The Ultimate Book og Stats & Facts.. The Bluecoat Press.