Leiðbeiningar fyrir Everton Customer Number

Mynd: Everton FC.

Mikilvægt:

Everton FC gerir nú kröfu um að allir kaupendur miða, sem ætla að mæta á keppnisleiki Everton, þurfi fyrst að skrá sig fyrir aðgangi á evertonfc.com og kaupa meðlimaáskrift (https://www.evertonfc.com/foreverblue/membership). Þegar þú hefur stofnað þennan aðgang getur þú flett upp þínu Everton Customer Number, en þetta númer þarf að fylgja með öllum miðapöntunum — einnig í formlegum ferðum á vegum Everton á Íslandi.

Sem sagt:
Þeir sem ætla að mæta á keppnisleik hjá Everton þurfa að:
a) vera með/skrá sig fyrir Everton Customer Number
b) borga áskrift á tímabilinu (til Everton FC).

Ef þú hefur einhvern tímann borgað meðlimagjald til Everton FC, ert þú örugglega nú þegar með Everton Customer Number á skrá. Everton hefur stundum sent meðlimakort eftir að meðlimagjöld hafa verið borguð, þar sem númerið er prentað á spjaldið. Einnig: ef þú hefur einhvern tímann keypt eitthvað á netinu í gegnum vefverslun Everton gætir þú líka verið með Everton Customer Number.

Athugið að hér er ekki verið að tala um árgjald til stuðningsmannaklúbbs Everton á Íslandi, heldur meðlimaáskrift hjá félaginu úti (Everton FC) en á tímabilinu 2025/26 hefur þessi meðlimaáskrift heitið Forever Blue eða Forever Blue+.

Hér að neðan eru algengar spurningar og leiðbeiningar, sem hjálpa þér að finna þitt númer eða stofna nýtt:

„Það er örugglega búið að úthluta mér Everton Customer Number. Hvernig finn ég það?“
Frábært! Eitt af hlutverkum stuðningsmannaklúbbsins hér heima er að halda utan um Everton Customer Number fyrir sína félagsmenn, þannig að ef þú ert meðlimur hér heima þá endilega spurðu okkur fyrst hvort við séum með þitt númer á skrá. Svo eru allavega tvær leiðir fyrir þig að fletta upp númerinu þínu:

Prófaðu fyrst að fara á https://www.evertonfc.com/home og velja Login uppi í hægra horni. Athugaðu að ef þú manst ekki lykilorðið er hægt að velja „Forgot password“ og gefa upp tölvupóstfangið þitt til að endurstilla lykilorðið.

Þegar þér tekst svo að skrá þig inn velur þú My Tickets og þá ættirðu að sjá:

Myndin sýnir hvaða Everton Customer númerið viðkomandi aðili er með. Hægt er að smella á Official Membership til að sjá hvort einhver áskrift sé virk.

Athugið að við höfum heyrt af því að númerið birtist ekki á þessari síðu alveg strax eftir að nýr reikningur er stofnaður, þannig að þið gætuð þurft að bíða í einhverja stund. Þið getið líka prófað að smella á Manage Tickets hnappinn (fjórði frá vinstri á mynd hér að ofan) og þá birtist…

Ef þið smellið á prófíl takkann (myndin af litla kallinum hér að ofan) ætti þetta að birtast uppi í hægra horni…

Þarna á þitt Everton Customer Number að birtast, sem og tegund áskriftar (ef einhver er). Ef tekið er fram „no active membership“ þá þarf að kaupa áskrift (meira um það hér að neðan).

Til vara (ef númerið birtist ekki) getur þú einnig prófað að leita í tölvupóstinum þínum að einhverju af þessu:

  • from:boxofficenoreply@evertonfc.com
  • subject:“Membership Confirmation“
  • „forever blue“
  • „customer number“ eða „customer number“ everton

Ef einhver af þessum leitum skilar Everton-tengdum niðurstöðum ættir þú að finna Everton Customer Number þar, sjö stafa númer sem byrjar líklega á tölunni 5, 6, eða 7. Láttu okkur einnig vita hvort eitthvað sé rætt um tegund áskriftar. Líklegir möguleikar eru:

  • Forever Blue
  • Forever Blue+
  • Forever Blue Supporters Club
  • Engin áskrift (no membership)

„Ég er viss um að ég sé ekki með neitt Everton Customer Number. Er hægt að stofna nýtt númer?“
Já, það er mjög einfalt. Þú ferð hingað https://www.evertonfc.com/home, smellir á Login uppi í hægra horni og finnur setninguna „Don’t have an account?“ og smellir þar á Register Now. Þessi beini linkur gæti virkað einnig.

Að því loknu fylgir þú leiðbeiningunum hér að ofan til að finna númerið þitt og sendir með beiðninni um miðakaup.

Athugið einnig að hver einstaklingur sem þarf miða þarf að skrá sig og fá Everton Customer Number (og hafa virka áskrift).

„Einn úr mínum hópi er undir lögaldri og er ekki með tölvupóstfang. Hvað geri ég þá?“

Þá þarftu ekki að búa til aðgang (fyrir barnið), en láttu okkur vita hversu marga krakka þetta á við um, sem og aldur þeirra og við getum látið miðasöluna stofna svokallað Junior númer fyrir þau, sem er þá ekki tengd við tölvupóstfang. Árgjaldið (til Everton FC) leggst þá ofan á miðaverðið, en árgjaldið er frá 10 til 40 pund og fer eftir aldri barnsins og tegund áskriftar.

„Þarf ég að kaupa meðlimaáskrift hjá Everton í leiðinni – og skiptir máli hvora áskriftina ég vel?“
Já, þú þarft virka meðlimaáskrift (e. membership) og gætir því þurft að kaupa meðlimaáskrift. Það skiptir ekki öllu máli hvora áskriftina þú velur (hvað miðakaupin varðar allavega) en þú getur valið um tvær áskriftarleiðir:

  1. Everton Forever Blue (35 pund fyrir 18 og eldri á tímabilinu 25/26)
  2. Everton Forever Blue+ (60 pund fyrir 18 og eldri á tímabilinu 25/26)

Við getum alltaf lagt inn miðapöntun fyrir þig, sama hvort af þessu þú velur, en áskriftarleið 1 (Forever Blue) veitir ekki aðgang að forsölu miða og því breytist hún sjálfkrafa í Everton Forever Blue Supporters Club áskrift (sem veitir aðgang að forsölu miða). Sú breyting kostar ekkert aukalega.

„Hver er annars munurinn á þessum Forever Blue áskriftarleiðum? Hvað á ég að velja?“
Þessi útlistun kom frá klúbbnum fyrir 2025/2026 tímabilið (stærri útgáfa hér):

Ath: Gildir fyrir tímabilið 2025/26.

Forever Blue+ áskriftin er fyrir þá sem vilja sýna Everton stuðning sinn í verki og hafa möguleika á að nýta allt það sem meðlimaáskriftin hefur upp á að bjóða. Til dæmis: forgang í miðasöluna, fá aðgang að upptökum af úrvalsdeildarleikjum Everton (allar 90+ mínúturnar, eftir að leik lýkur), fara á leiki með kvennaliði Everton og/eða leiki með U21 árs liðinu sem og fá aðgang að beinum útvarpslýsingum á meðan á leikjum Everton stendur (og ýmislegt fleira).

Forever Blue er áskriftarleið sem er hugsuð fyrir þá sem búa í nágrenni við völlinn og vilja ódýrari meðlimáskrift með litlum fríðindum — og ekki forgang í miðasöluna, sem er eiginlega orðin nauðsyn til að fá miða í dag. Henni er því breytt (af miðasölunni) yfir í Forever Blue Supporters Club áskrift, sem gefur aðgang í forsöluna.

„Ég er nú þegar með virka (gamla) áskrift að Forever Blue. Hvað þá?“
Þú gefur bara upp númerið og miðasalan breytir henni í Everton Forever Blue Supporters Club áskrift, þér að kostnaðarlausu.

„Ég er kominn með Everton Customer Number í hendurnar! Hvað geri ég næst?“
Við þurfum að fá ykkar Everton Customer Number og nafn á áskrifarleiðinni sem er virk til að geta keypt fyrir ykkur miða. Við höldum þessu númeri einnig til haga, fyrir meðlimi á félagsskrá stuðningsmannaklúbbsins hér heima, en annars þarftu að láta þetta númer fylgja með öllum þínum beiðnum til okkar um miðakaup í framtíðinni.

„Hvað gerist ef ég vil fara aftur á völlinn? Þarf ég að borga meðlimagjaldið aftur?“
Nei. Meðlimagjaldið veitir þér aðgang að forsölunni út allt tímabilið, þannig að fyrir næsta leik (á sama tímabili) borgar þú ekkert aukalega. Á nýju tímabili þarf hins vegar nýja meðlimaáskrift.