Kaup á miðum – skilmálar og algengar spurningar

Okkar ástsæli heimavöllur
Everton klúbburinn á Íslandi fær reglulega beiðnir um að útvega miða á Everton leiki og er það okkur ljúft að verða við því.
Það er þó mikilvægt að vekja athygli á strangari reglum sem tekið hafa gildi í ensku úrvalsdeildinni frá og með 1. október 2025, hvað varðar alla miðasölu á leiki Everton. Þessar reglur koma í kjölfar frétta í Bretlandi um hertar aðgerðir gagnvart þeim sem eru að kaupa upp miða í magni til að selja á uppsprengdu verði eftir að leikirnir seljast upp.
Allir miðar á nýja leikvangi Everton eru rafrænir og Everton gerir núna kröfu um að á bak við hvern miða sé Everton Customer Number sem tengir miðann við einstaklinginn sem mætir. Það er hins vegar mjög auðvelt að nálgast svona númer (sjá hér).
Hér eru annars helstu miðakaups-spurningar sem við höfum fengið og svörin við þeim:
„Ég er að skipuleggja ferð til Englands eftir 2+ mánuði, getið þið útvegað mér miða á völlinn?“
Þetta er mjög algeng spurning en svarið er alltaf „líklega, en við vitum það ekki fyrr en nær dregur“, einfaldlega vegna þess að leikdagar í ensku eru ekki skipulagðir lengra en einhverjar vikur fram í tímann. Miðasalan ytra opnar því aldrei á sölu leiks fyrr en rétt rúmum 4-5 vikum fyrir staðfestan leikdag. Engin frávik hafa verið frá þeirri reglu hingað til. Besti tíminn til að hafa samband við okkur vegna miðakaupa er því ca. 6 vikum fyrir staðfestan leikdag og þá hefst ferlið að athuga hvort við getum útvegað miða.
„Hvernig ber ég mig að við að panta miða?“
6 vikum fyrir staðfestan leikdag hefur þú samband og segir okkur hvað þú vilt marga miða og hvaða leik er um að ræða. Ef við getum reddað miðum er næsta skref hjá þér að borga staðfestingargjald (sem fæst endurgreitt ef ekki tekst að útvega miða). Einnig þarf að gefa upp Everton Customer Number (eitt per miða), sjá nánar hér. Þegar staðfesting á miðakaupum er komin til okkar, þarf að borga það sem upp á vantar fyrir miðaverðið og svo eru miðarnir sendir rafrænt til kaupanda í tölvupósti.
„Get ég haft áhrif á sætafyrirkomulagið?“
Við mælum ekki með því, nema kaupandi sjái fram á að neyðast til að hafna miðunum þar sem ekki sé hægt að nýta miðana nema sú krafa sé uppfyllt. Dæmi um slíkt er að krafa um hjólastólaaðgang var ekki uppfyllt. Slíkt þarf að koma skýrt fram með beiðninni um miðakaup. Sætisval er alltaf í höndum Everton FC og þar er alltaf reynt að halda hópnum saman, ef kostur er, en annars er notuð „best available seats currently“ og allar séróskir um sætafyrirkomulag leiða yfirleitt til verri miða og geta tafið afgreiðslu, sem gæti valdið því að miðar fáist ekki.
„Ég styð ekki Everton, get ég samt fengið miða?“
Þegar við kaupum miða fyrir Everton stuðningsmenn hér heima, erum við að sjálfsögðu einnig til í að redda miðum fyrir aðra fjölskyldumeðlimi og vini sem eru að fara með í ferðina, sé þess óskað (óháð leik og stuðningi við lið). Þegar hópurinn inniheldur hins vegar eingöngu (eða nær eingöngu) stuðningsmenn annarra liða en Everton, fer það svolítið eftir leikjum. Við myndum til dæmis aldrei selja nema hörðustu Everton stuðningsmönnum miða á leik Everton við Liverpool og erum heldur ekki að leitast eftir því að fylla bekkina af stuðningsmönnum liðs sem styður andstæðing Everton á t.d. leik í undanúrslitum/úrslitum bikarkeppni. Það er slegist um slíka miða og eingöngu meðlimir í stuðningsmannaklúbbnum hér heima fá þá. Rétt er að ítreka að allir kaupendur á miðum þurfa að gefa upp Everton Customer Number til okkar, líka þeir sem styðja önnur lið en Everton.
Skilmálar
- Með því að senda inn pöntun til Everton klúbbsins á Íslandi ertu að samþykkja neðangreinda skilmála:
- Mikilvægt: Everton klúbburinn á Íslandi veitir eingöngu milligöngu um kaup á miðum til hagræðis fyrir kaupendur en tekur enga ábyrgð á ferðalöngum né nokkurs konar fjárhagslega ábyrgð, t.d. ef leik/leikjum ferðarinnar skyldi vera frestað og/eða hann/þeir felldir niður. Ferðalöngum er þó að sjálfsögðu frjálst að leita réttar síns hjá viðeigandi aðilum ef svo ber undir, til dæmis ef ferðaskrifstofa, flugfélag, hótel og/eða Everton FC er til í að endurgreiða kostnað eða bæta tjón með öðrum hætti.
- Ef ekki reynist unnt að kaupa miða (td. ef leikurinn selst upp áður en pöntunin hefur verið afgreidd) mun Everton klúbburinn á Íslandi að sjálfsögðu endurgreiða þá upphæð sem lögð hefur verið inn á reikning félagsins vegna miðakaupanna.
- Ef kaupandi ákveður, af einhverjum ástæðum, að hætta við kaup á miðum — eftir að búið er að staðfesta miðana, dregst staðfestingargjaldið frá endurgreiðslunni. Þetta er til að koma til móts við þá vinnu sem búið er að leggja í við að kaupa og fá endurgreiðslu fyrir ósótta miða.
- Endurgreiðsla á miðum er þó háð því að Everton FC samþykki að endurgreiða miðana. Til dæmis er ekki hægt að endurgreiða miða í þeim tilvikum þegar miðahafa er vísað af leikvanginum vegna slæmrar hegðunar.
- Allir meðlimir hópsins þurfa að kynna sér og fylgja þeim reglum sem gilda á þeim leikvelli miðinn veitir aðgang að.
- Helsu upplýsingar um heimsókn á heimavöll Everton er að finna hér.
Ef eitthvað er ekki ljóst hafið þá endilega samband.