Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Everton – Real Betis 2-1 - Everton.is

Everton – Real Betis 2-1

Mynd: Everton FC.

Flautað var til leiks Everton og Real Betis kl. 14:00 í dag á Goodison Park á sólríkum degi. Howard Webb að dæma leikinn sem var síðasti vináttuleikur Everton fyrir átökin sem hefjast um næstu helgi en jafnframt fyrsti heimaleikur Everton undir stjórn Roberto Martinez. Leikurinn í beinni á Everton heimasíðunni (evertonfc.com/livematch).

Byrjunarliðið: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Coleman, Pienaar, Gibson, Osman, Barkley, Mirallas, Jelavic. Á bekknum: Joel, Heitinga, Oviedo, Kone, Deulofeu, Naismith, Stones, Anichebe.

Gott að sjá að Pienaar kemur inn á eftir fjarveru í síðustu tveimur leikjum og að Barkley fái tækifæri í byrjunarliðinu. Fellaini er hins vegar hvergi sjáanlegur.

Leikurinn fór rólega af stað og bæði lið greinilega með svipaða taktík, halda boltanum vel og byggja spil upp út frá markverði og varnarmönnum. Real Betis náttúrulega búnir að spila með þessu leikskipulagi árum saman en Everton enn að læra á kerfið. Real Betis pressuðu mjög framarlega jafnvel með fjóra-fimm menn í einu og náðu þannig að brjóta upp spil Everton.

Sérstaklega kom lítið út úr sampili Baines og Pienaar á vinstri kanti þannig að Everton sótti í byrjun mest upp hægri kantinn á Coleman/Mirallas en ekki náðist að koma boltanum fyrir á Jelavic. Sloppy sending frá Gibson skapaði hættu sem setti pressu á vörn Everton en framherji Real Betis reyndist rangstæður í dauðafæri. Vörnin virkaði annars shaky í byrjun og lenti ítrekað í vandræðum með Cedric sem í eitt skiptið tók sprettinn framhjá Jagielka, sem náði að hlaupa hann uppi en einhvern veginn tókst Everton mönnunum aldrei að koma boltanum úr leik og boltinn endaði alltaf hjá Real Betis manni þangað til þeir brenndu af. Cedric greinilega maður sem þarf að hafa augun á en hann virkaði allt í öllu þegar kom að sóknarleik Real Betis.

Ross Barkley átti líka arfaslaka sendingu beint á sóknarmann Real Betis sem náði skoti á mark sem Howard varði í horn. Þeir náðu skoti upp úr horninu en það fór hátt yfir mark Everton — engin hætta. Real Betis að byrja leikinn betur og virkuðu sterkari í fyrri hluta fyrri hálfleiks. Þeir áttu skot á 22. mínútu af löngu færi en beint á Howard sem varði auðveldlega.

Everton komst aðeins meira inn í leikinn þegar leið á. Gibson átti til dæmis langa háa sendingu fram á 32. mínútu á Jelavic sem komst einn á móti markverði en braut á miðverðinum í baráttunni um boltann þannig að ekkert kom úr því.

Everton náði svo að skora á 35. mínútu og var Jelavic á ferðinni, þriðja leikinn í röð. Pienaar sendi flottan bolta gegnum vörnina hægra megin og Mirallas tók sprettinn inn í teig upp að endalínu og sendi boltann fyrir á Jelavic. Jelavic tók vel á móti honum, steig skrefið með boltann til hægri til að losa sig við varnarmann sem kom aðvífandi og skaut í nánast opið markið þar sem markvörður var illa staðsettur. 1-0 fyrir Everton.

Cedric náði síðar að senda frá endalínu vinstra megin yfir á sóknarmaðnn Betis hægra megin sem átti skot á markið en vel varið hjá Howard. Þeir náðu svo að sprengja rangstöðugildrinu og komast einn á móti Howard, Distin seldi sig full ódýrt í tæklingu en það var nóg (þar sem sóknarmaðurinn stoppaði) til að kaupa tíma fyrir Baines sem náði landsliðstæklingu til að redda málunum í dauðafæri Real Betis. Baines var svo mínútu síðar felldur inni í teig Real Betis manna í sókn, en ólíklegt að það víti yrði gefið. Howard átti svo flotta markvörslu þegar sóknarmaður komst inn fyrir vörnina eftir stungusendingu frá Cedric, að mig minnir.

Everton komst í skyndisókn, Pienaar á sprettinum við miðju vallarins með einn varnarmann fyrir framan sig en varnarmaður fyrir aftan hann braut á Mirallas í aðdragandanum og Mirallas hefndi sín og sparkaði í hann til baka. Dómarinn stoppaði leikinn í bullandi skyndisókn Everton og gaf Mirallas gult (hefði verið rautt og þriggja leikja bann í deildarleik). Kannski ágætt að ná þessu úr kerfinu hjá honum á undirbúningstímabilinu. Gibson skipt út af í kjölfarið fyrir Heitinga. Vonandi ekkert alvarlegt. En staðan 1-0 í hálfleik.

Betis með eina skiptingu í seinni hálfleik (varnarmaður út af fyrir annan, að mér heyrðist). Óbreytt lið Everton.

Real Betis byrjuðu seinni hálfleikinn með nokkrum sóknum þar sem boltinn gekk vel manna á milli en alltaf komst leikmaður Everton inn í sendingu á réttum tíma eða Real Betis með slakt skot. Þeir náðu svolítilli pressu á mark Everton en afgreiðslan hjá þeim léleg.

Þeir áttu of auðvelt með að skapa sér færi og í einu slíku fengu þeir algjört dauðafæri, skalli einn á móti Howard alveg upp við markið en Howard varði glæsilega yfir markið og í horn.

Á 60. mínútu keyrði varnarmaður Jelavic niður að aftan frá eftir innkast og Jelavic alveg brjálaður – beint í manninn og smá handalögmál þangað til dómarinn stoppaði leikinn. Jelavic gaf til kynna að Real Betis maðurinn hefði hrækt á sig en dómarinn róaði menn og mér sýndist hann líka biðja um að Martinez færi að hugsa um að  skipta út Jelavic fyrir Kone (hann hefði fengið rautt í deildarleik) en það kom þó ekki til þess.

Barkley sendi Mirallas inn fyrir með frábærri stungusendingu en varnarmaður Betis náði að blokkera sendingu Mirallas á Jelavic sem hefði komist í dauðafæri.

Everton menn fengu horn á 60. mínútu, Mirallas tók stutta spyrnu á Baines sem sendi til baka á Mirallas. Mirallas með fyrirgjöf sem markvörður reyndi að  grípa en missir boltann inn fyrir marklínuna. 2-0 fyrir Everton.

Mirallas gerði svo frábærlega þegar hann náði að bruna upp inn í vítateig og koma Jelavic í dauðafæri en skot Jelavic einn á móti markverði nokkuð framhjá. Þar hefði þriðja mark Everton átt að líta dagsins ljós. Mirallas að lífga ansi vel upp á leikinn á þessum tímapunkti og Coleman búinn að halda Cedric niðri.

Tvöföld skipting hjá Betis á 75. mínútu.

Aukaspyrna Everton á 78. mínútu eftir að Jelavic var hindraður fyrir utan teig en Mirallas með spyrnuna hátt yfir markið. Kone inn fyrir Jelavic. Cedric og einhver annar tekinn út af fyrir Real Betis, sem virðast hafa gefist upp á því að reyna að komast aftur inn í leikinn og virka pirraðir.

Mirallas í dauðafæri einn á móti markverði eftir háa sendingu yfir vörnina frá Pienaar en varnarmenn náðu að stíga skrefið sem gerði Mirallas rangstæðan.

Naismith inn á fyrir Barkley. Deulofeu fyrir Mirallas.

Kone náði góðri pressu á markvörð Betis og var næstum búinn að stela boltanum af honum en markvörðurinn náði að sóla hann og losa boltann fram völlinn.

Tveimur mínútum bætt við og um það leiti sem leikurinn var að fjara út náðu Real Betis að minnka muninn eftir eitthvað sem átti frekar skylt við pinball en fótbolta (boltinn barst manna á milli þar sem skot voru blokkeruð og hreinsanir mistókust þangað til ) . 2-1 staðan og dómarinn leyfði eina miðju og flautaði svo af.

Þetta var kannski heldur ósanngjarn sigur, Real Betis betri í fyrri hálfleik en lentu marki undir og sigurmark Everton slysamark hjá Real Betis. Á móti kemur að Everton átti að bæta þriðja markinu við og áttu ágætan seinni hálfleik. Real Betis fóru auk þess mjög illa að ráði sínu í sókninni og verða að eiga það við sjálfa sig hvernig þeim tókst ekki að minnka muninn fyrr en á síðustu sekúndu leiksins.

Vörnin góð og Howard líka í markinu. Baines/Pienaar öxullinn ekki jafn virkur og oft áður en Coleman og Mirallas líflegir og Mirallas sýndi oft meistaratakta. Barkley var góður á köflum en líka mistækur, Gibson og Osman allt í lagi en Jelavic góður frammi — hann lofar góðu fyrir framhaldið.

5 Athugasemdir

  1. Eyþór Hjartarson skrifar:

    Frábært, vona að þetta sé það sem koma skal á komandi leiktíð.

  2. Ari S skrifar:

    Ég er ánægður með Jelavić og frammistöðu hans í þessum leik. Það sem mér fannst vanta í hann á síðasta tímabili er aðeins meiri ákveðni og grimmd og hann sýndi hana svo sannarlega í dag.

  3. Elvar Örn skrifar:

    Howard, Mirallas og Jelavic voru klárlega bestir hjá Everton.
    Vörnin átti í nokkru basli fannst mér en Howard bjargaði okkur hvað eftir annað.
    Fannst sem við söknuðum Fellaini svolítið en ágætis leikur hjá okkar mönnum í dag en þó fannst mér Everton ekki byrja nægilega vel en sótti á þegar líða tók á leikinn.
    Barkley á helling inni og maður sér alveg glitta í hæfileikapilt þarna en mér finnst sem að hann missi boltann allt of oft en hann er ungur og gaman að sjá hann spila í dag.
    Nú er bara 6 dagar í fyrsta leik og gríðarleg tilhlökkun í gangi.
    Það er ekki nokkur vafi að Jelavic mun standa sig í vetur og að mínu mati klárlega okkar besti framherji, bara mín skoðun.

  4. Elvar Örn skrifar:

    Barkley og Jones að brillera með U-21 liði Englendinga sem unnu Skota 6-0 og Barkley með mark.
    http://www.nsno.co.uk/everton-news/2013/08/barkley-on-target-for-england/?

  5. Ingi skrifar:

    Mèr fannst það alveg greinilegt ì þessum leik hvað Fellaini gefur þessu liði. Fjarvera hans ì dag gerði það að verkum að miðjan okkar var arfaslök, enda komu bæði mörkin ekki ì gegnum hana. Vonandi fàum við miðjumann fyrir lok gluggans, þó svo ekki væri nema að làni.