Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Everton – Chelsea 2-0 - Everton.is

Everton – Chelsea 2-0

Everton mætti Chelsea í dag á Goodison Park og uppstillingin vakti athygli en hvorki Anichebe né Jelavic í liðinu né á bekknum. Moyes sagði eftir leikinn að Jelavic væri með magapest en sagði ekkert um Anichebe sem skoraði jöfnunarmarkið gegn Wigan og maður átti von á að sjá hann allavega á bekknum þar sem hann hefur verið að skora undanfarið. Það sló svolítið á eftirvæntinguna að fá ekki að sjá Jelavic en sló ekki á bjartsýnina, enda við taplausir í 5 leikjum fyrir Chelsea-leikinn og aðeins slysamark hjá Wigan kom í veg fyrir þriðja sigurleikinn í röð (að því ógleymdu að Chelsea hefur gengið illa á Goodison undanfarið). Uppstillingin 4-2-3-1 með Howard, Baines, Heitinga, Distin og Neville í vörninni, Pienaar á vinstri kanti, Donovan á hægri, Gibson og Fellaini á miðjunni. Cahill fyrir aftan Stracqualursi. Bekkurinn: Mucha, Hibbert, Drenthe, Gueye, Barkley, Vellios og Duffy.

Það var ljóst frá upphafi að þetta yrði meira eins og leikurinn gegn City en ekki leikurinn gegn Wigan. Og það leið ekki á löngu áður en dró til tíðinda en strax á 5. mínútu á Chelsea innkast á eigin vallarhelmingi hægra megin (frá þeim séð). Lélegt innkast sem Pienaar kemst strax inn og skallar til Cahill sem fær Lampard í sig þegar hann reynir að senda og boltinn skoppar yfir vörn Chelsea þar sem Pienaar er mættur aftur, skyndilega kominn í dauðafæri (tók strax á rás), og fyrsta snertingin á brjóstkassann er góð með tvo varnarmenn í bakinu á sér og svo leggur hann boltann yfir Cech í markinu. 1-0 eftir 5 mínútna leik og við þar með búnir að skora — ekki bara í fyrri hálfleik heldur líka í fyrsta færi leiksins, aldrei þessu vant. Pienaar greinilega að reyna að sanna sig aftur fyrir áhorfendum á heimavelli og er það vel.

Þetta innkast Chelsea reyndist aðeins ein af mörgum mistökum Chelsea í leiknum en þeir voru duglegir að senda feilsendingar á okkur, til dæmis stuttu síðar þegar Cech átti sendingu út úr teig (án nokkurrar pressu) beint á Donovan sem var staðsettur miðja vegu milli teigs og miðjulínu, brunaði fram og reyndi skot af löngu færi sem Cech varði, sér til mikils léttis, enda mjög vandræðalegt hvernig hann gaf boltann frá sér.

Chelsea jók við þetta sóknarþungann og áttu góðan kafla, voru nokkuð meira með boltann (sem hélst út leikinn) og helst að færin kæmu upp hægri kantinn. Sturridge átti skot rétt yfir markið eftir sendingu — af hægri kanti — og Lampard nokkru síðar, einnig eftir sendingu að hægri kanti, en skotið fram hjá hægra megin við markið. Ágætis hlaup upp kantinn en á heildina litið þó lítið að gerast hjá Chelsea, helst skot eða skallar langt frá marki sem vörnin og Howard áttu ekki í neinum erfiðleikum með.

Torres átti einhverja skalla sem Howard greip, alltaf auðveldlega en Torres átti almennt séð slappan leik (er það eitthvað nýtt?) og það eina sem hann uppskar voru þrír slakir skallar sem Howard réði auðveldlega við, gult spjald (nú kominn með 5 gul spjöld en aðeins 2 mörk í deildinni) og almennt svekkelsi fyrir að fá ekki dæmt víti í hvert skipti sem hann lét sig detta.

Stracqualursi á hinum endanum var Chelsea þyrnir í síðu í fyrri hálfleik, alltaf í boltanum og að pressa, þó hann hefði ekki erindi sem erfiði í fyrri hálfleik. Hann gerði þó vel þegar hann var að atast í varnarmönnum Chelsea og uppskar færi upp úr engu eftir að hafa fengið sendingu rétt við endimörk teigsins frá varnarmanni Chelsea. Skotið þó ekki nógu gott hjá honum.

Á 70. mínútu gerist það hins vegar að Neville á stórgóða tæklingu á hægri kanti sem tekur boltann af Ashley Cole. Boltinn berst til Donovan sem hleypur upp kantinn með boltann og síðan inn að miðju og leggur boltann svo gegnum vörn Chelsea fyrir Stracqualursi og skapar þar með dauðafæri. Cech kemur hönd á skot Stracqualursi en skotið of fast og fer inn í markið. Staðan 2-0 og Stracqualursi (ókeypis lánsmaðurinn frá Argentínu) óðum að ná að jafna markafjölda Torres fyrir Chelsea (50 milljón pund). Cole var svo skipt út af stuttu síðar þar sem hann virtist meiðast við tæklinguna, þó hún hafi verið lögleg. Leiðinlegt þegar menn meiðast en lítið við því að gera, svo sem. Donovan aftur á móti með sjöttu stoðsendingu sína á stuttum tíma.

Chelsea reyndi að pressa í lokin en færin létu á sér standa enda vörn Everton þétt fyrir. Það má eiginlega segja að við höfum verið nær því að bæta við þriðja markinu en að Chelsea næði að minnka muninn, til dæmis þegar Stracqualursi splundraði vörn Chelsea með sendingu á Drenthe (sem hafði komið inn á fyrir Pienaar) og tók á sprettinn en aðeins Cech, sem var kominn ansi nálægt miðlínu, náði að koma í veg fyrir að Drenthe næði að komast í ákjósanlegt færi. Leikar fóru því 2-0 og fyllilega verðskuldaður sigur í höfn.

Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Baines 7, Distin 8, Heitinga 7, Neville 7, Pienaar 8, Fellaini 7, Gibson 6, Donovan 7, Cahill 6, Stracqualursi 9. Varamenn: Hibbert 6, Duffy 6, Drenthe 7. Chelsea menn voru með sexur á línuna nema Mereiles og Mata sem fengu 7 og Boswinga og Torres með 5.

Hissa á að Pienaar er ekki maður leiksins, enda stórkostlegur í leiknum. Leikmenn Everton voru þó vel að sigrinum komnir, enda mun betra liðið á vellinum og áttu mun hættulegri færi en Chelsea. Ég man reyndar bara eftir einu almennilegu færi þar sem Howard þurfti að taka á honum stóra sínum þegar Chelsea maður var kominn einn á móti markverði. Ekki bætti úr skák fyrir Chelsea þegar Villa-Boas ákvað að skipta fyrst Essien út af (sem var einn af betri mönnum Chelsea í fyrri hálfleik) og síðar Juan Mata (sem er yfirleitt sá sem skapar eitthvað fyrir Chelsea). Hvað um það, Villa-Boas getur fengið að útskýra þær skiptingar — Chelsea áhorfendur virtust ekki sáttir. Hann vildi reyndar meina að tapið væri sér að kenna, svipað og Roberto Manchini þegar Manchester City tapaði á Goodison Park á dögunum. Þeir skildu hvorugur í þessu því það átti að vera léttur leikur að mæta á Goodison og taka þrjú stig því það getur ekki verið að litla Everton með nánast enga peninga til að kaupa leikmenn geti lagt lið sem eyða fleiri hundruð milljónum punda í að byggja upp liðin sín. Ótrúlegt.

Við dveljum þó ekki lengi við þær hugleiðingar. Sjötti taplausi leikurinn staðreynd og Everton búnir að leggja liðið í fyrsta sæti (Man City) og liðið í fjórða sæti (Chelsea) í síðustu þremur leikjum. FA bikarinn næsti leikur á laugardaginn. Áfram veginn!

Comments are closed.