Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Sunderland – Everton 1-1 - Everton.is

Sunderland – Everton 1-1

Liðsuppstillingin var svolítið sérstök fyrir þær sakir að Fellaini var hvergi sjáanlegur (vegna tognunar) og þar sem Rodwell var einnig fjarverandi varð Moyes að spila með 6 varnarmenn inn á, því Heitinga og Neville tóku að sér miðjuna með Osman og Drenthe sér við hlið á köntunum. Að öðru leyti var þetta hefðbundin uppstilling með Cahill og Saha frammi og Distin í vörninni fyrir Heitinga.

Leikurinn þróaðist ágætlega framan af, við vorum þó nokkuð með boltann og fyrsta tæpa hálftímann vorum við eina liðið sem skapaði færi, þrátt fyrir að vera á útivelli. Hibbert komst meira að segja nálægt því að skora sitt fyrsta mark á ferlinum eftir langt innkast hans þegar markvörðurinn var næstum búinn að missa boltann af fingurgómunum og inn. Cahill komst svo einn á móti markverði nokkru síðar en skot hans úr nokkuð þröngu færi var varið. Skalli Cahill fór stuttu síðar rétt fram hjá og svo fengum við horn þar sem Drenthe sendi fyrir markið, beint á Saha sem var óvaldaður á fjærstönginni en skallaði framhjá. Illa farið með góð færi.

Við réðum á þessum kafla lögum og lofum og Sunderland virkuðu klunnalegir í sínu spili. En, eins og svo oft áður á tímabilinu, þá gerðist það að mótaðilinn fékk sitt fyrsta færi í leiknum (í þetta skipti á 26. mínútu) og skoruðu úr því gegn gangi leiksins. Boltinn barst til Sessegnon rétt fyrir utan miðjan teiginn, sem í stað þess að skjóta (þar sem tveir Everton leikmenn voru búnir að blokkera markið með skriðtæklingu) sendi hann til vinstri á Colback sem skaut (og aftur blokkeruðu tveir Everton leikmenn markið með skriðtæklingu) en svo óheppilega vildi til að boltinn fór í Distin og breytti um stefnu, yfir næsta varnarmann og einnig yfir Howard í markinu. Alltof kunnuleg staða: Í stað þess að vera búnir að gera út um leikinn eftir fína spilamennsku vorum við komnir í þá stöðu að vera 1-0 undir.

Við áttum einhver færi á að jafna fyrir hálfleik, til dæmis þegar Osman átti skot yfir slána og síðar átti Drenthe skot af löngu færi en rétt utan við stöngina hægra megin og við því 1-0 undir í hálfleik og Sunderland máttu telja sig heppna að vera yfir.

Í seinni hálfleik snerist lukkan við þegar Osman fékk boltann rétt utan teigs á 50. mínútu, vann sig nær markinu og fékk víti þegar leikmaður Sunderland virtist fella hann rétt þegar hann skýtur að marki. Endursýning sýndi hins vegar að við vorum stálheppnir að fá vítið því að það var ekki að sjá annað en að Osman einfaldlega sparkaði í jörðina í skotinu og félli við það og enginn leikmaður Sunderland væri brotlegur. Howard Webb var þó viss í sinni sök og Baines afgreiddi vítið sannfærandi. Staðan 1-1. Maður varð eiginlega hálf hvumsa við að fá víti, sérstaklega óverðskuldað víti, svona í ljósi þess að svo oft undanfarin tímabil höfum við ekki fengið verðskulduð víti (það var orðið svo pínlegt að þetta var orðið helsta match statistic hjá okkur fyrir leiki á síðasta tímabili). Við töldum okkur eiga að fá aðra vítaspyrnu stuttu síðar þegar varnarmaður Sunderland virtist slá Drenthe og báðir duttu inn í vítateig Sunderland, en brotið var fyrir utan teig og þar að auki dæmdi Webb á Drenthe, einhverra hluta vegna.

Eftir þetta var fátt um fína drætti í leiknum. Osman átti skalla að marki en framhjá en Sunderland komst meira og meira inn í leikinn. Distin reyndar fékk gullið tækifæri til að stela sigrinum í síðustu sókn leiksins þegar hann átti skot nálægt marki en boltinn fór rétt yfir. Bæði lið sennilega ósátt við 1 stig eftir leikinn en miðað við spilamennskuna okkar á heildina litið sem var nokkuð slök (fyrir utan kannski fyrsta hálftímann) og víti sem við áttum ekki að fá þá held ég að við megum vera sáttir við að ná 1 stigi úr þessum leik þrátt fyrir heppnisstimpil á marki Sunderland. 

Það er skarð fyrir skildi að bæði Fellaini og Rodwell séu meiddir en þeir hafa verið hjartað í miðjuspilinu okkar á tímabilinu. Eins fannst mér Drenthe vera slakur í leiknum miðað við undanfarið en oft eins og hann væri að reyna of mikið og missa boltann í stað þess að gefa á aðra og koma þeim í færi. Honum var líka skipt út af fyrir Gueye sem náði ekki að setja mark sitt á leikinn. Cahill var örlítið líflegri á köflum en undanfarið, en náði ekki að setja mark — þrátt fyrir að hafa haft það nánast fyrir vana á móti Sunderland undanfarin ár. Saha var slakur í leiknum en næst því sem hann komst að skora var þegar hann var einn algerlega óvaldaður fyrir framan mark okkar, en skallaði hárfínt yfir. Osman, aftur á móti, reyndist okkur afar drjúgur þrátt fyrir að eiga ekki neinn stórleik en hann er núna búinn að sjá til þess, einn síns liðs nánast, að við náðum að breyta tveimur tapleikjum í jafntefli og einum í sigur. Mér fannst þó Hibbo vera maður leiksins í annars fínni vörn þar sem Distin, Jags og Baines skiluðu allir sínu. 

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Hibbert 6, Distin 8, Jagielka 6, Baines 7, Osman 6, Heitinga 6, Neville 6, Drenthe 6, Cahill 5, Saha 5. Varamenn: Gueye, Vellios, McFadden (allir með 5). Fjórar sjöur hjá Sunderland (þmt. markvörður þeirra). Aðrir með lægra.

Comments are closed.