Næsti leikur er við Bolton á laugardaginn kl. 15:00. Bolton hefur gengið afleitlega það sem af er tímabils og eru nú í þriðja neðsta sæti með 9 stig eftir 12 leiki. Þeir unnu reyndar Stoke 5-0 heima á dögunum en hafa annars tapað fjórum af síðustu fimm leikjum í öllum keppnum og á heimavelli tapað 5 af 6 leikjum sínum, þar af tveimur með 4 mörkum eða meiru.
Liðin tvö hafa það sameiginlegt að hafa á stuttu tímabili farið í gegnum erfiða törn í deildinni og tapað gegn liðum í toppsætunum. Bolton gerði það í upphafi tímabils (töpuðu fyrir City, Liverpool, United, Arsenal tvisvar og einnig Chelsea) en það hafði slæm áhrif á sjálfstraustið og þeir náðu ekki að vinna þá leiki sem þeir hefðu átt að vinna í kjölfarið gegn minni liðum.
Þegar horft er á tölfræðina sést að okkur gengur yfirleitt mjög vel á útivelli gegn Bolton en við vinnum 41% leikja þar á móti 37% hjá Bolton (22% jafntefli). Í síðustu 9 á heimavelli Bolton hefur þessu verið bróðurlega skipt, hvort lið unnið 4 sinnum og einu sinni hafa leikar endað með jafntefli.
Ef horft er til þessa leiks á síðasta tímabili þá reyndist 2-0 sigur þeirra á okkur ákveðinn vendipunktur hjá okkur en eftir þann leik tókum við okkur saman í andlitinu og töpuðum ekki í átta næstu leikjum í deildinni sem lagði grunninn að góðu gengi okkar í deildinni allt fram til loka tímabilsins.
Líklegt er að svipað lið hefji leikinn og í sigurleiknum á móti Úlfunum um síðustu helgi: Howard, Baines, Heitinga, Jagielka, Hibbert, Drenthe*, Osman, Fellaini, Cahill, Coleman, Saha frammi. Það er spurning hvort Jack Rodwell sé búinn að jafna sig af meiðslum sem hann hlaut í landsleik gegn Svíum á dögunum (kæmi þá inn fyrir Osman að öllum líkindum) og hvort Distin sé orðinn góður í nára og taki stöðu Heitinga. Víst er þó að Cahill myndi spila höfuðkúpubrotinn og Jagielka þó vanti á hann tána. 🙂
* Spurning hvort Drenthe sé ekki örugglega heill en hann haltraði svolítið í fyrri hálfleik á móti Úlfunum og var skipt út af í þeim seinni… Líklega verður hann þó með.
Og þá að lánssamningum ungliðanna en Jake Bidwell (18 ára varnarmaður) var lánaður til Brentford fram yfir áramót og sömuleiðis Jose Baxter (19 ára sóknarmaður) sem framlengdi sitt lán hjá Tranmere til sama tíma. Luke Garbutt (vinstri bakvörður) framlengdi sinn samning við Cheltenham um mánuð og Wallace (miðjumaður) er enn, sem kunnugt er, í láni fram yfir áramót hjá Shrewsbury Town.
Comments are closed.