Mynd: Everton FC.
Flottur 4-1 sigurleikur á AEK að baki! Allt annað að sjá til leikmanna nú en í leiknum gegn Blackpool enda skapaði Everton sér mörg ákjósanlega færi og hefði getað skorað fleiri en 4 mörk. AEK þurfti glæsimark (þrumuskot af löngu færi) til að jafna leikinn eftir að Naismith skoraði á fyrstu mínútunum en ég man bara eftir einu-tveimur færum sem AEK fékk að öðru leyti.
Mér fannst klassamunur á liðunum og unun að horfa á samspil leikmanna á köflum. Sérstaklega var Pienaar með gott auga fyrir opnunum en Coleman átti góða spretti einnig. Naismith var seigur fyrir framan markið og nýtti færi sín vel.
Byrjunarliðið: Howard, Baines, Distin, Heitinga, Hibbert. Pienaar, Fellaini, Gibson, Osman. Naismith og Jelavic frammi. Varamenn: Mucha, Rodwell, Neville, Gueye, Barkley, Coleman, Anichebe, Vellios og Duffy. Hibbert var að sjálfsögðu fyrirliði Everton í tilefni dagsins en þetta var hans „testimonial leikur“ í þakkarskyni fyrir 10 ára dygga þjónustu við klúbbinn og yfir 300 leiki. Honum var vel fagnað þegar hann gekk inn völlinn og var heiðraður af leikmönnum beggja liða. Gegnum allan leikinn létu áhorfendur vel í sig heyra, sérstaklega var Hibbert hvattur af öllum áhorfendunum til að skjóta, jafnvel þó hann væri við hornfánann… á eigin vallarhelmingi.
Það tók Naismith aðeins 3 mínútur að skora fyrsta mark leiksins (og sitt fyrsta mark fyrir Everton) eftir frábæra sendingu Pienaar upp völlinn gegnum vörnina. Naismith vippaði boltanum yfir markvörð AEK sem kom hlaupandi á móti. 1-0 Everton.
AEK jafnaði þó aðeins nokkrum mínútum síðar með þrumuskoti nokkuð utan teigs sem mér sýndist fara í stöng og inn hægra megin. Glæsilegt mark!
Naismith var aftur á réttum stað eftir um 15 mínútna leik þegar Baines gaf á Pienaar sem sendi fyrir markið frá vinstri yfir á Naismith sem var á auðum sjó við fjærstöngina og skallaði í netið. 2-1 Everton.
Gibson lenti í samstuði stuttu síðar (ca. 18. mínútu), fékk smá högg og var skipt út af fyrir Neville. Eini neikvæði punturinn sem ég man eftir úr leiknum.
Hibbert var greinilega á þeim buxunum að reyna að skora í leiknum en hann átti frábært skot af löngu færi sem markvörður AEK varði mjög vel. Engir greiðar fyrir Hibbert greinilega og maður þakkaði fyrir í laumi, því fyrirfram var búið að lýsa því yfir að þegar Hibbert skorar loksins þá sjá Englendingar almennilegar óeirðir.
Upp úr horninu skapaðist aftur færi fyrir Naismith þegar Pienaar gaf á hann og hann setti boltann í netið (gæti hafa verið með viðkomu í Heitinga). Þrenna hjá Naismith og öll mörkin eftir stoðsendingar frá Pienaar. Lofar góðu.
Mucha kom inn á fyrir Howard í hálfleik, sömuleiðis Coleman fyrir Naismith og Gueye fyrir Fellaini.
Jelavic fékk síðar gott færi en skaut slökum bolta beint á markvörðinn. Ég hef pínulitlar áhyggjur af Jelavic eftir að hafa horft hann spila síðustu tvo leiki. Kannski situr Evrópukeppnin pínulítið í honum en mér finnst hann þurfa að taka sig svolítið á því hann virðist langt frá því að sýna formið sem hann var í undir lok síðasta tímabils. Kannski er hann bara einn af þessum leikmönnum sem stígur upp í stærri leikjum (en vináttuleikjum). Við skulum vona það.
Og svo var komið að atviki leiksins. Everton fær aukaspyrnu utan teigs og enginn annar en Tony Hibbert gerir sig kláran til að taka spyrnuna. Og hann skorar þetta líka glæsilega mark úr aukaspyrnunni og allt verður vitlaust inni á vellinum. Áhorfendur ryðjast inn á völlinn, leikmennirnir sjá sér hag vænstan að fara af velli, öryggisverðir úti um allt, Hibbert umkringdur af áhorfendum sem vilja komast í tæri við átrúnaðargoðið! Það tók dágóða stund (allavega 5 mínútur) að róa mannskapinn niður og koma fólkinu á sinn stað aftur svo leikurinn gæti hafist að nýju.
En leikurinn var eiginlega ekki samur á eftir enda skorar enginn mark þegar Tony Hibbert er búinn að skora. Öll mörk sem á eftir koma líta bara kjánalega út í samanburðinum. Dómarinn flautaði þó leikinn ekki af heldur leyfði Hibbert að njóta sviðsljóssins þangað til Moyes skipti Hibbo út af á síðustu mínútunum. Þegar stjarnan var farin af velli sá dómarinn ekki ástæðu til að spila fótbolta lengur og flautaði leikinn af.
Skemmtilegur vináttuleikur að baki. 5 mörk. Hibbo fór á kostum. Allt eins og best verður á kosið.
Við hjá Everton.is þökkum Hibbert kærlega fyrir allar góðu minningarnar gegnum árin og vonum að við fáum að njóta „nærveru“ hans í allavega nokkur ár í viðbót. Við ættum kannski að leyfa Hibbo að létta undir með Baines í aukaspyrnunum öðru hverju?
Á einhver eftir að muna eftir þetta að Naismith skoraði þrennu í leiknum? 🙂
Nokkuð ljóst að vinsældir hans aukast meðal þáttakenda í Fantasy, set hann í mitt lið ekki spurning:)
Hibbó er maðurinn beint úr auka afhverju er hann ekki búinn að vera að taka þessar spyrnur sl 10 ár
Nákvæmlega!
Ég held annars að þessi leikur sé bara einn af uppáhaldsleikjunum sem ég hef gerst svo heppinn að hafa náð að sjá. 🙂 Mörg yndisleg „moment“. 🙂
Hibbert var sposkur að vanda í viðtalinu eftir leikinn… 🙂
http://www.evertonfc.com/evertontv/home/7616
Flottur leikur og gamann að sjá þetta í beinni á netinu, þó ekki í neitt sérstökum gæðum. Við Georg horfðum á þetta í betri stofunni.
Já, ég skil ekkert í þeim að selja ekki aðgang að leiknum á netinu gegnum EvertonTV. Fyrir þennan leik hefði ég borgað jafn mikið og kostaði að kaupa miðann á völlinn. 🙂
Sá ekki leikinn,en er að vonum ánægður með úrslitin.