
Mynd: Everton FC.
Annar leikur Everton á undirbúningstímabilinu var gegn Blackburn í dag. Leikskýrslan kemur síðar — líklega þegar ritari er búinn að horfa á leikinn í endursýningu síðar í dag.
Uppstillingin: Travers, Mykolenko, Branthwaite, O’Brien, Patterson, Garner, Gana, Alcaraz, McNeil, Ndiaye, Beto.
Varamenn: Tyrer, Heath, Thomas, Metcalfe, Armstrong, Clarke, Onyango, Chermiti, Iroegbunam, Keane.
Fyrsta almennilega sóknin kom á 7. mínútu þegar Blackburn menn geystust fram í skyndisókn eftir flottan þríhyrning á hægri kanti sem gaf sóknarmanni þeirra færi á að komast inn í teig hægra megin. Hann sendi lágan bolta til vinstri fyrir mark, gegnum klofið á O’Brien, þar sem mættir voru tveir á móti Patterson og boltinn endaði hjá manninum sem var utar í teignum og hann skoraði auðveldlega. 1-0 fyrir Blackburn.
Gana átti tilraun á mark á 13. mínútu, skot utan teigs sem fór rétt framhjá vinstri stönginni. Alcaraz reyndi skot af löngu færi nokkrum mínútum síðar og það hitti á markið, en markvörður varði nokkuð auðveldlega.
Á 28. mínútu komst Everton í fína sókn, þar sem boltinn endaði hjá Patterson inni í teig Blackburn, eftir flottan undirbúning. Patterson miðaði á Beto sem var í dauðafæri fyrir framan mark, en markvörður Blackburn kom þeim til bjargar með því að slá boltann frá áður en Beto gat potað í netið.
Á 43. mínútu náðu Gana og Patterson vel saman í þríhyrningu sem gaf Gana færi á að bruna fram með boltann. Hann sendi lága sendingu á Beto sem var mættur upp við mark og var hársbreidd frá því að pota boltanum framhjá markverði Blackburn.
Alcaraz var óheppinn að skora ekki rétt fyrir lok fyrri hálfleiks þegar hann var á auðum sjó og náði skoti, utarlega í teig. Boltinn hrökk af varnarmanni Blackburn og þaðan í annan varnarmann. Hefði getað endað hvar sem er, en því miður ekki í netinu.
Staðan 1-0 fyrir Blackburn í hálfleik.
Beto fékk fyrsta færi seinni hálfleiks, þegar Ndiaye fann hann utarlega í teig Blackburn. Beto sneri af sér varnarmann og reyndi snöggt skot, úr ákjósanlegu skotfæri af löngu, en skotið slakt og auðveldlega varið.
McNeil fann Ndiaye rétt utan teigs með flottri sendingu fram á 55. mínútu og hann náði skoti í gegnum klof varnarmanns. Lágur fastur bolti á mark sem markvörður þurfti að kasta sér niður til að verja, sem hann og gerði.
Átta skiptingar hjá Blackburn strax í kjölfarið (!). Fjórföld skipting hjá Everton, Keane inn á fyrir Patterson, og O’Brien þar með settur í hægri bakvörð. Ndiaye út af fyrir Isaac Heath, Gana út af fyrir Harrison Armstrong. Branthwaite tók þar með við fyrirliðabandinu en uppleggið breyttist ekki. Fjórir í vörn, Armstrong djúpur miðjumaður. Heathe á vinstri kanti, eins og Ndiaye hafði verið.
Sóknarmaður Blackburn fór illa með O’Brien upp við endalínu marks Everton á 60. mínútu. Komst framhjá honum og náði lágri sendingu þvert fyrir mark sem þurfti bara einhvern framherja til að pota inn. Sem betur fer sigldi boltinn bara framhjá marki Everton.
O’Brien átti flott skot á 65. mínútu, þegar hann fékk boltann hægra megin í teig. Þrumaði á markið en í utanverða stöng og í hliðarnetið. Leit fyrst svolítið út eins og hann hefði skorað. Beto náði svo veikum skalla á mark á 68. mínútu, en auðveldlega varið.
Tvöföld skipting hjá Everton á 70. mínútu — Beto fyrir Chermiti, Alcaraz fyrir Justin Clarke. Þreföld skipting hjá Blackburn.
Blackburn fengu ósanngjarna aukaspyrnu á 75. mínútu (rétt eftir að brotið hafði verið á Isaak Heathe) og hún var á stórhættulegum stað. Rétt utan við D-ið. Þeir reyndu skot úr því og Mark Travers þurfti að hafa sig allan við til að verja það yfir slána og í horn.
Metcalfe inn á fyrir McNeil á 79. mínútu.
Blackburn áttu síðasta orðið þegar kantmaður þeirra náði föstu skoti utan teigs sem Travers, í marki Everton, þurfti að kasta sér niður til að verja.
1-0 sigur Blackburn staðreynd (ekki það að úrslitin skipti máli). Þetta er allt spurning um að koma hópnum í leikform.