Everton – Tottenham 3-2

Mynd: Everton FC.

Nú er komið að heimaleik Everton við Tottenham í 22. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Það vill svo til að bæði þessi lið eru í augnablikinu í einu af neðstu 6 sætunum, en það er örugglega mjög langt síðan það gerðist síðast í viðureign þessara liða.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski (fyrirliði), O’Brien, Lindström, Gana Managla, Ndiaye, Doucouré, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virginia, Begovic, Patterson, Young, Armstrong, Keane, Harrison, Sherif, Beto. 

Fyrsta færið kom í hlut Lindström á 6. mínútu, en hann átti fast skot rétt utan teigs sem stefndi í netið vinstra megin, en Kinsky, markvörður Tottenham, varði í horn. Það tók töluverðan tíma að taka hornið, því að dómarinn missti sambandið við aðstoðardómara en ekkert kom úr horninu þegar búið var að laga það.

Mark Everton kom hins vegar á 13. mínútu, eftir að Gana fann Calvert-Lewin inni í teig vinstra megin. Hann var með þrjá í kringum sig en sveigði með boltann — fyrst til hægri, svo vinstri og svo aftur til hægri, þannig að varnarmenn Tottenham vissu varla í hvorn fótinn þeir ættu að stíga. Allir bjuggust svo við skoti hægra megin, þar sem meira pláss var að finna, en Calvert-Lewin setti boltann vinstra megin í markið með markvörð á leiðinni í vitlaust horn. Everton komið 1-0 yfir!

Það hafði ekki verið nein ógnun í Tottenham fyrstu 18 mínúturnar, en þá komst Son í dauðafæri eftir mjög langa sendingu fram, komst einn á móti Pickford, en Tarkowski náði að hlaupa hann uppi og stoppa skotið. 

Á 24. mínútu fann Kulusevski Son á auðum sjó utarlega í vítateig. Hann náði skoti á mark, en skotið slakt, lágt og olli Pickford litlum vandræðum. Illa farið með gott færi — sem betur fer.

Everton svaraði í næstu sókn 25 með löngum bolta fram sem fann hlaupaleiðina á Calvert-Lewin. Hann komst einn á móti markverði en síðasta snerting fyrir skot brást honum og leyfði markverði að komast í boltann áður en hann náði skotið. 

Næsta færi Everton kom aðeins mínútu síðar, þegar Calvert-Lewin fékk boltann inn í teig. Hann var ekki í góðri aðstöðu til að skjóta, þannig að hann sendi stutt til hliðar á Mangala, sem reyndi skot út við stöng. En markvörður Tottenham rétt náði að vera í utanverða stöng og út og hélt Tottenham inni í leiknum. Heppnir þar.

Son reyndi að fiska vítaspyrnu í næstu sókn þeirra, sem hefði verið harður dómur. Hefði verið ákveðinn vendipunktur, því að í staðinn skoraði Everton og það mark var af einfaldara taginu. Ndiaye komst framhjá miðjumanni með góðu þríhyrningarspili við Mykloenko (sýndist mér). Ndiaye brunaði með boltann fram og alla leið inn í teig, komst auðveldlega framhjá Dragosin í vörn Tottenham og þrumaði rétt yfir hausamótunum á markverðinum. 2-0 fyrir Everton!

7 mínútum bætt við og skömmu áður en þeim tíma lauk tók Lindström frábæra aukaspyrnu sem fann Tarkowski inni í teig, fremstur beint fyrir framan markið. Hann beygði sig langt niður til að ná skallanum á mark, en náði ekki að stýra boltanum framhjá markverði. 

Tottenham skoruðu svo snoturt sjálfsmark rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. Það byrjaði með hárri sendingu fyrir mark frá Lindström, sem var á hægri kanti, og fann þar með Tarkowski á fjærstöng. Tarkowski skallaði fyrir mark aftur og Calvert-Lewin framlengdi skallan og Tottenham maður reyndi hreinsun í liðsfélaga sinn, Grey, í vörninni og þaðan inn. Staðan orðin 3-0 fyrir Everton og þannig var það í hálfleik!

Everton aðeins með boltann 37% af fyrri hálfleik, en það sem meira máli skipti var að Everton átti tvöfalt fleiri tilraunir á marki en Tottenham og þrefalt fleiri sem rötuðu á mark.

Ein breyting á liðunum í hálfleik, Dragoshin fór út af fyrir Tottenham vegna meiðsla á auga, sem hann hafði hlotið fyrr í leiknum. Tilraun þeirra með þriggja manna varnarlínu endaði þar með og Richarlison kom inn á. Þeir stilltu því upp í 4-3-3 í seinni hálfleik.

Tottenham virtust ætla að gefa Everton mark á silfurfati á 60. mínútu þegar Kinsky í markinu sparkaði út úr teig beint á Lindström á hægri kanti, sem brunaði með boltann inn í teig og fann Calvert-Lewin fyrir framan mark. Fyrsta snerting hans ekki góð, missti boltann aðeins frá sér en náði, með bakið í marki, að snúa og skjóta — en rétt framhjá stöng.

Lindström fór svo út af á 69. mínútu, þreyttur eftir frábæra frammistöðu. Young kom inn á fyrir hann.

Maddison reyndi skot af löngu færi á 73. mínútu en of hátt og langt framhjá. Þetta var fyrsta tilraun þeirra á mark í um 40 mínútur (!!). Á þeim tímapunkti breyttu þeir í 4-2-4 og uppskáru mark á 77. mínútu þegar þeir komust í skyndisókn með Maddison fremstan. Pickford þurfti að koma langt út frá marki og til vinstri. Varð að vera þar til að loka á Maddison því að enginn kom til að leysa hann af, en eftir smá darraðadans endaði boltinn hjá Kulusevski, við hornið á vítateig vinstra megin, frá okkur séð, og Kulusevski náði að vippa rétt svo yfir þrjá eða fjóra varnarmenn Everton í línu milli Kulusevski og marksins. Fullkominn sveigur sem endaði í netinu. Staðan orðin 3-1. Patterson kom svo inn á fyrir Ndiaye á 80. mínútu. 

Richarlison náði tveimur skotum innan teigs á 85. mínútu, í sömu sókninni, en blokkerað af varnarmanni í bæði skiptin.

Calvert-Lewin komst í dauðafæri á 85. mínútu þegar hann náði að stela boltanum af aftasta varnarmanni, Grey. En rétt áður en hann náði að lyfta boltanum yfir Kinsky, sem kom hlaupandi út úr markinu, náði Kinsky að slá boltann frá honum. Tottenham stálheppnir þar.

Keane kom inn á fyrir Jake O’Brien á 87. mínútu og Everton fór þar með í 5 manna varnarlínu með Mykolenko og Patterson í bakvarðarstöðunum. 

Á 92. mínútu náði Richarlison enn að minnka muninn eftir háa sendingu á fjarstöng vinstra megin sem hann böðlaði inn. Það fór svolítið um mann við það mark, því við munum allt of vel eftir Bournemouth leiknum — og Villa leiknum, fyrr á tímabilinu. En jafntefli hefði verið miklu meira en Tottenham áttu skilið. Þetta var einfaldlega afleit frammistaða hjá Tottenham ef frá er skilið þetta stutta skeið þar sem þeir skoruðu mörkin.

3-2 sigur því niðurstaðan í dag, sem lítur allt of vel út fyrir Tottenham, miðað við frammistöðu þeirra í dag.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), O’Brien (7), Tarkowski (7), Branthwaite (6), Mykolenko (6), Gueye (7), Mangala (7), Lindstrom (7), Doucoure (7), Ndiaye (8), Calvert-Lewin (8). Varamenn: Young (6), Patterson (6), Keane (6).

Maður leiksins, að mati Sky Sports, var Calvert-Lewin.

Byrjunarlið Tottenham var allt vel fyrir neðan meðalmennskuna í einkunnagjöfinni, því þar á bæ voru þetta fjarkar og fimmur á línuna, fyrir utan tvo (Kulusevski og Maddison) sem fengu 6.

8 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Hvað sjá bæði Dyche og Moyes við Doucoure sem enginn annar sér?
    Við verðum að vinna í dag, vonandi tekst það. Við höfum ekki unnið Spurs á Goodison síðan Moyes var stjóri síðast, það væri gott að endurtaka það í dag.

  2. Þorri skrifar:

    Sælir félagar frábær fyrrihaleikur hjá okkar mönnum eru menn ekki sammála því

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Hvað er að gerast??? Er þetta Everton?? Hvaða nornaseyð hafa menn fengið fyrir leikinn?? Frábær fyrri hálfleikur og Tottenham geta þakkað markverði sínum að vera bara þremur, segi og skrifa ÞREMUR mörkum undir í hálfleik. Vonandi heldur seinni hálfleikur áfram svona því við skuldum Tottenham nokkrar rassskellingar.
    Má reyndar ekki gleyma að Pickford er búinn að verja vel amk tvisvar.

  4. Kiddi skrifar:

    Ótrúlegur fyrri hálfleikur hjá okkar mönnum.
    Vill sjá Harrison Armstrong inn fyrir Doucoré.

  5. Þorri skrifar:

    Afhverju eru menn með sorgarbond og það á eftir að koma fleiri mörk í þennan leik

  6. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Allt, allt of spennandi í uppbótartímanum. Keane algjörlega eins og hálfviti, bara að glápa á boltann þegar Richarlison skoraði og Pickford með fíflalæti þegar Kulusevski skoraði.
    Erfitt að velja mann leiksins hjá okkar mönnum, en ég ætla að segja Tarkowski, mér fannst þetta hans besti leikur á tímabilinu.
    Nú vona ég bara að það verði fengnir nýir leikmenn til félagsins í þessum glugga og þá hef ég engar áhyggjur.
    Það er líka frábært að sjá það að liðið getur spilað fínasta fótbolta og hversu mikil breyting til hins betra hefur orðið á rétt rúmlega viku, sem gefur fyrirheit um að staða liðsins batni enn meira.

  7. Finnur Thorarinsson skrifar:

    Sammála með Tarkowski. Hann var geggjaður í þessum leik og þulirnir þreyttust ekki á að hæla honum og tala um hversu „majestic“ hann hefði verið í leiknum.

    Rosalega margir jákvæðir punktar í þessum leik. Þrjú mörk og Tottenham hefðu í raun ekki getað kvartað yfir 5-0 eða jafnvel 6-0 í leikslok. Það segir ákveðna sögu. Frábær frammistaða heilt yfir hjá Everton, miklu meiri ákefð og hungur en í Tottenham liðinu. Það lofar góðu fyrir framhaldið.

    Auk þess er Calvert-Lewin farinn að skora aftur eftir langt hlé og var ekki langt frá því að ná stoðsendingu líka þegar skotið frá Mangala var varið í stöng. Ég ætla samt að auki að telja honum til tekna „lykilsendinguna“ (skallann) frá honum þegar Tottenham skoruðu sjálfsmark. 🙂

    Svo er léttir að sjá að botnliðin þrjú eru annaðhvort búin að tapa — eða að tapa — sínum leik í þessari umferð, þannig að þetta lítur mun betur út. Vonandi þurfum við bara að horfa fram á við héðan af.

  8. Diddi skrifar:

    er reyndar sammála fotmob sem velur Idrissa mann leiksins með tvær stoðsendingar og sívinnandi um allan völl. Moyes ætlar seint að læra þegar kemur að því að halda forystu en alltof oft gerði hann þetta í fyrra tímabili með okkur að hræra í vörninni og setja allt á suðupunkt í lokin. En þetta slapp og mikilvæg þrjú stig og allt annað að sjá til liðsins og ljóst að margir leikmenn hafa orðið frelsinu fegnir

Leave a Reply