Everton – Newcastle 3-0

Mynd: Everton FC.

Everton lék við Newcastle í kvöld kl. 19:30 í öðrum af tveimur lokaleikjum 15. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar. Ljóst var fyrir leik (þar sem Luton töpuðu fyrir Arsenal í fyrradag) að Everton gat, með sigri, unnið sig upp úr fallsæti í annað sinn á tímabilinu — eftir 10 stiga frádráttinn sem við þekkjum allt of vel.

Calvert-Lewin var orðinn heill á ný og fór beint í byrjunarliðið en Onana var hins vegar metinn tæpur og, fyrir leik, því metinn í besta falli á bekknum. Það fór þó ekki svo.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski, Coleman (fyrirliði), Gana, McNeil, Young, Harrison, Doucouré, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virginia, Keane, Godfrey, Patterson, Chermiti, Hunt, Danjuma, Dobbin, Beto.

Ritari var frá í kvöld en formaðurinn, Haraldur Örn, tók að sér að skrifa skýrslu kvöldsins og við kunnum honum bestu þakkir fyrir! Gefum honum orðið:

Fyrirliðinn, Seamus Coleman, var mættur í byrjunarliðið í fyrsta sinn á þessu tímabili þegar Newcastle mætti í heimsókn á Goodison Park. Newcastle hafði, fram að þessu, verið á mikilli siglingu í deildinni þrátt fyrir að mörg skörð hafi verið höggvin í þeirra lið vegna meiðsla.

En það var ekki að sjá hvort liðið væri í fallbaráttu og hvort í Meistaradeildarbaráttu í leiknum í dag, því Everton var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en við virtumst vera að horfa upp á það sama og gegn Manchester United því okkar mönnum gekk ekkert að koma boltanum í netið.

Sérstaklega fór Calvert-Lewin illa með dauðafæri, rétt fyrir lok fyrri hálfleiks, þegar hann skóflaði boltanum yfir af stuttu færi.

Það lýsir kannski helst gangi leiksins í fyrri hálfleik að samkvæmt expected goals stuðlinum (xG) var Everton með 1,99 á meðan Newcastle var með 0,53. En það er svo sem í takt við hvernig þetta er búið að vera á tímabilinu hingað til.

Bæði lið fengu sín tækifæri í seinni hálfleiknum en besta færi Newcastle kom frá fyrrum Everton manninum, Anthony Gordon, en hann skaut beint á Pickford í markinu.

Leikurinn virtist svo vera að enda í marklausu jafntefli þegar Trippier missti boltann og McNeil var fljótastur að bregðast við og kom okkar mönnum yfir eftir 79. mínútna leik. Sjö mínútum síðar missti Trippier aftur boltann klaufalega og Harrison komst í boltann, sendi á Doucoure sem tvöfaldaði forystuna áður en Beto innsiglaði 3-0 sigur með sínu fyrsta deildarmarki á tímabilinu.

Með þessum sigri lyfti Everton sér upp úr fallsæti og — án refsingar — værum við í tíunda sæti deildarinnar, á undan Chelsea.

Mjög gott að sjá Coleman aftur á vellinum og hann átti fínan leik í kvöld, þó hann hafi svo þurft að fara út af vegna meiðsla. Við vonum að það sé bara eitthvað smávægilegt. Heilt yfir annars frábær leikur hjá Everton, þar sem Newcastle liðið, sem telur sig vera í baráttu um meistaradeildarsæti, var yfirspilað á Goodison Park.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Coleman (6), Tarkowski (6), Branthwaite (6), Mykolenko (6), Young (6), Gueye (6), Doucoure (7), Harrison (7), McNeil (7), Calvert-Lewin (5). Varamenn: Patterson (7), Beto (7).

Maður leiks að mati Sky Sports: Dwight McNeil.

15 Athugasemdir

  1. Diddi skrifar:

    Ég mundi setja Godfrey í vinstri bak til að eltast við Gordon, allavega er það sjálfsmorðstilraun að vera með notso young þar að mínu mati. Ef Coleman er tilbúinn væri hann líka frábær kostur og myndi láta Gordon vita hvar Dabbi keypti ölið. Patterson er ekki eins góður varnarlega og þessir tveir. Svo er vonandi að Dominic Alveg-Búinn verði í sínu besta formi og þá vinnum við 3-1

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Vonandi verður þetta ekki hræðilegt.

  3. Ari S skrifar:

    Greinilega nóg að gera hjá Halla fyrstu mínúturnar, segi ekki meira í bili.

  4. Þór skrifar:

    Dogs of war.

    Frábær leikur!

    Úrvaldsdeildin sparkaði í vitlausan hund.

    Nú eru nýir tímir vonandi vændum á flottasti heimavelli norðan Alpafjalla.

  5. Kiddi skrifar:

    Vá þvílík frammistaða og Beto með sitt fyrsta deildarmark. McNeil kominn í gang með mark í tveimur leikjum í röð og ljóst að hann fer að rata í Fantasy liðið mitt.
    Alvöru leikur hjá okkar mönnum 🥂

  6. Finnur skrifar:

    Ég elska þetta komment hér að ofan…

    „Úrvaldsdeildin sparkaði í vitlausan hund.“

    Bring it on.

  7. Eirikur skrifar:

    Frábær sigur á heimavelli! Hvað fengu Newcastle menn í einkunn hjá Sky ef þetta voru einkunnir Everton? Tala nú ekki um Trippier!
    Sérstakt fyrir markvörð og vörn að fá 6 á línuna fyrir 3 -0 sigur.

    • Finnur skrifar:

      Mjög góð spurning… Trippier fékk fjóra í einkunn. Átti hann eitthvað meira skilið? 🙂

      Newcastle: Dubravka (6), Trippier (4), Schar (6), Lascelles (6), Livramento (6), Miley (5), Joelinton (6), Guimaraes (6), Almiron (6), Isak (6), Gordon (5).

    • Diddi skrifar:

      Skysports einkunnir yfirleitt ekkert í takt við leikina! Echo mikið eðlilegri að mínu mati

  8. Finnur skrifar:

    Fjör í Bítlaborginni… (mörkin úr leiknum, ef einhver missti af…)
    https://www.mbl.is/sport/enski/2023/12/07/fjor_i_bitlaborginni_myndskeid/