Everton – Burnley 1-0

Mynd: Everton FC.

Everton tekur á móti Burnley kl. 14:00 í dag í 31. umferð ensku úrvalsdeildarinnar og þetta er sannkallaður 6 stiga leikur sem má alls ekki tapast.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski, Coleman (fyrirliði), McNeil, Garner, Gomes, Young, Doucouré, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virginia, Longergan, Keane, Godfrey, Patterson, Harrison, Warrington, Chermiti, Beto.

Everton með undirtökin fyrstu 20 mínúturnar þó að Burnley væru meira með boltann. Everton stöðugt að en allt of oft tóku menn rangar ákvarðanir í uppbyggingu sóknar, sendu á vitlausa staði, tóku hlaupin of fljótt og fengu á sig rangstöðu, eða sendu fyrir með fáa í teignum.

Ekkert að frétta frá Burnley á meðan, og í raun ekki fyrr en eftir um hálftíma leik. Engin almennileg skot á mark frá liðunum, sem bæði voru heldur mistæk gegnum allan fyrri hálfleikinn.

Burnley reyndu í sífellu að byggja upp sókn frá aftasta manni og töpuðu boltanum yfirleitt jafnharðan. Svo rétt fyrir lok fyrri hálfleiks reyndi markvörður þeirra að senda háan langan bolta fram úr teignum en Calvert-Lewin náði að blokkera og boltinn fór í sveig í áttina að marki Burnley og í netið! 1-0 fyrir Everton! 

Annað mark Calvert-Lewin í tveimur leikjum. Hann getur bara ekki hætt að skora! 😉

Burnley voru áfram í afar gjafmildu skapi gagnvart Calvert-Lewin þegar varnarmaður þeirra sendi óvart á hann á 59. mínútu. Calvert-Lewin brunaði inn í teig, lék varnarmann illa vinstra megin í teig og reyndi lágt skot á nærstöng — en markvörður Burnley varði glæsilega með útréttum fæti.  Örskömmu síðar komst Everton svo í efnilega sókn sem endaði með því að Doucouré skallaði yfir úr ákjósanlegu færi.

Á 68. mínútu gaf pressa Everton vel af sér aftur, þegar McNeil sótti að miðverði Burnley sem missti boltann frá sér. 50/50 bolti sem McNeil vann og miðvörður þeirra tók hann niður þegar hann reyndi að tækla boltann í burtu. Reglurnar eru skýrar, síðasti varnarmaður að koma í veg fyrir augljóst marktækifæri er rautt spjald og Burnley því manni færri.

Það voru þó Burnley menn sem fengu næsta færi en það reyndist síðasta almennilega færi þeirra í leiknum. Sóknarmaður þeirra var óvaldaður inni í teig vinstra megin (frá þeim séð) og smellhitti boltann sem flaug rétt framhjá samskeytunum. Pickford átti ekki séns í þann bolta, en sem betur fer endaði hann ekki í netinu!

Calvert-Lewin komst í flott færi á 73. mínútu, fór illa með vinstri bakvörð Burnley og skautaði framhjá nokkrum varnarmönnum inni í teig en skotið frá honum sigldi framhjá skeytunum vinstra megin.

Á 75. mínútu komst Calvert-Lewin aftur í færi eftir að hafa fengið stungusendingu inn fyrir vörnina. Burnley menn héldu að hann væri rangstæður (sem hann var ekki) og hættu leik um tíma en fyrsta snerting Calvert-Lewin var ekki nógu góð og hann missti boltann aðeins of langt frá sér. Skotfærið endaði því á að vera of þröngt, svo að markvörður varði.

McNeil átti svo skot rétt utan teigs á 80. mínútu en fór í sveig framhjá skeytunum (boltinn þeas, ekki McNeil).

Menn voru greinilega farnir að þreytast í kjölfarið og Dyche brást við með því að gera tvöfalda skiptingu á 83. mínútu: Harrison og Beto inn á fyrir Young og Calvert-Lewin. Burnley með þrefalda skiptingu, Jói Berg þar á meðal þeirra sem kom inn á.

Á 87. mínútu átti Everton að fá eitthvað fyrir sinn snúð þegar Beto komst einn á móti markverði eftir frábæra stungusendingu frá Gomes. Hann gerði vel í að fara fyrir hlaupaleiðina á varnarmanni sem felldi hann. Innan teigs á þetta að vera víti. Utan teigs líklega rautt spjald, því hann er að koma í veg fyrir marktækifæri. En dómarinn, Michael Oliver, hafði ekki kjarkinn í að sýna Burnley annað rautt spjald.

Á 94. mínútu átti Garner svo að fá víti þegar hann var sparkaður niður í teignum en aftur var ekkert dæmt. En það kom ekki að sök, því Burnley náðu ekki að ógna marki Everton og 1-0 sigur því staðreynd.

Fínn og mikilvægur sigur í höfn. Ekki síst vegna þess að Luton unnu einnig og Brentford gerðu jafntefli.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Coleman (6), Tarkowski (6), Branthwaite (8), Mykolenko (7), Gomes (6), Garner (7), McNeil (7), Young (6), Doucoure (7), Calvert-Lewin (7). Varamenn: Beto (7), Harrison (7).

Maður leiksins að mati Sky Sports var Jarrad Branthwaite.

9 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Dyche hefur ekki hugmynd um hvernig á að vinna fótboltaleik, þetta fer 0-2 fyrir Burnley.

  2. Kiddi skrifar:

    Áhugaverð uppstilling með Garner og Gomes. hvorki Onana eða Gana á skýrslunni, hvað veldur?

  3. Finnur skrifar:

    Onana tæpur, Gana á fæðingardeildinni með konunni, ef ég skildi þulinn rétt.

  4. Eirikur skrifar:

    Þessi fyrri hálfleikur var með því lélegra sem hefur verið boðið uppá. Ef ekki væri fyrir að Burnley væri staðráðið í að tapa þessum leik þá værum við í vondum málum. Dacoure er búinn að vera arfaslakur og má fara útaf sem fyrst.

  5. Einar Gunnar skrifar:

    Síðustu tveir sigrar í deildinni verið gegn sama liðinu, Burnley! Guð láti gott á vita, eins og amma sagði 🙂

  6. Orri skrifar:

    Góðir 3 stig en liðið alveg arfaslagt.

  7. Þór skrifar:

    Flottur sigur gegn alveg sæmilegu liði – Everton seigla

  8. Finnur skrifar:

    Tveir í liði vikunnar að mati BBC:
    https://www.bbc.com/sport/football/68756167

  9. Orri skrifar:

    Þá erum við 2 stigum fátækari.

Leave a Reply