Newcastle – Everton 1-1

Mynd: Everton FC.

Everton mætir í heimsókn til Newcastle í þrítugustu umferð ensku úrvalsdeildarinnar og það er breytt uppstilling í kvöld, en Beto fær að leiða línuna. Gana kemur auk þess inn fyrir Garner og Young inn á fyrir Harrison en Mykolenko tekur stöðu Godfrey sem er þó enn í liðinu. Spurning hvort þetta endi með fimm manna varnarlínu (Godfrey í miðverði) eða hvort hann fari í hægri bakvörð og Young sé þá á kantinum fyrir Harrison? Kemur í ljós!

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski (fyrirliði), Godfrey, Gana, McNeil, Onana, Young, Doucouré, Beto.

Varamenn: Virginia, Keane, Patterson, Coleman, Garner, Gomes, Harrison, Chermiti, Calvert-Lewin.

Þetta reyndist vera 4-4-1-1 uppstilling í upphafi, með Young á kantinum og Godfrey í hægri bakverði. Opinn og fjörugur leikur með bæði liðin virkuðu í stuði þó stutt væri frá síðasta leik.Newcastle áttu fyrsta færið snemma leiks, náðu að þræða sig í gegnum vörnina og sóknarmaður þeirra komst einn á móti Pickford sem kom vel út á móti og lokaði á það sem maður hélt að væri öruggt mark fyrir þá. 

Doucouré svaraði með föstu skoti rétt yfir slána á 6. mínútu eftir flottan undirbúning frá McNeil sem hafði fengið langan bolta fram frá Pickford. Tarkowski fékk svo dauðafæri upp við mark eftir aukaspyrnu sem Beto vann, en Tarkowski skallaði rétt yfir af stuttu færi.

Það verður að nýta sín færi og það gerðu Newcastle menn á 15. mínútu þegar Isak fékk stungusendingu í sveig yfir Tarkowski og honum brást ekki bogalistin heldur lagði hann framhjá Pickford í markinu. 1-0 fyrir Newcastle. Fjórði deildarleikurinn í röð sem hann skorar í. 

Bæði lið reyndu misheppnað skot af löngu færi, fyrst Murphy fyrir Newcastle (yfir mark), svo Beto fyrir Everton en hann sneiddi boltann hálfa leið í innkast. 

Everton fékk skotfæri innan teigs undir lok venjulegs leiktíma í fyrri hálfleik þegar Onana fann Doucouré inni í teig með flottri sendingu en markvörður Newcastle varði skotið vel frá Doucouré. Newcastle fengu sömuleiðis gott skotfæri rétt undir lok hálfleiksins en Pickford varði skotið glæsilega með fætinum.

1-0 fyrir Newcastle í hálfleik. Sjóðheitur Isak munurinn á liðunum í hálfleik.

Newcastle menn voru nálægt því að komast yfir strax í upphafi seinni hálfleiks þegar Tarkowski reyndi við lausan snúningsbolta inni í teig sem endaði á að fara í tréverkið og út af. Var ekki langt frá því að skora sjálfsmark þar en það hefur svolítið loðað við Everton undanfarið að gefa andstæðingunum sjálfsmörk og víti, þannig að það hefði alveg verið í takt við gengið undanfarið.

Á 58. mínútu skoruðu Newcastle menn mark eftir vel útfærða aukaspyrnu þar sem Everton svaf á verðinum og Dan Burn potaði inn. En VAR kom Everton til bjargar þegar tekið var eftir því að Isak hafði verið rangstæður í undirbúningnum. Afar tæpt — öxl versus skór, en ekkert mark — líflína fyrir Everton. Vendipunktur í leiknum.

Dyche gerði þrefalda skiptingu í kjölfarið: Onana, Doucouré og Beto fóru út af fyrir Gomes, Garner, og Calvert-Lewin. Og það var allt annað að sjá til Everton eftir skiptingarnar, sem gerbreyttu leiknum. Stuttu síðar hefði Everton átt að ná að jafna, þegar Garner náði að komast í skotfæri innan teigs, sneri vel á varnarmenn Newcastle og náði skoti framhjá markverði en því miður í innanverða stöngina og út í teig aftur þar sem Newcastle menn náðu að hreinsa. Newcastle menn voru stálheppnir þar.

En Newcastle menn svöruðu strax í næstu sókn þegar Barnes náði að komast upp að endalínu og Pickford þurfti að fara út á móti. Barnes hins vegar klókur og kom boltanum út í teig aftur á Isak sem var frír. Isak þurfti bara að leggja hann framhjá Mykolenko sem var einn að verja opið mark en sem betur fer setti Isak boltann beint á kollinn á Mykolenko sem skallaði frá á línu. Skil ekki hvernig hann fór að þessu — erfiðara en að setja hann í netið. En, gott fyrir Everton — ennþá séns að jafna.

Ashley Young átti svo skot af löngu færi á 73. mínútu, sem Dubravka þurfti að slá frá. Newcastle menn hins vegar svöruðu jafnharðan með skoti frá Bruno Guimaraes sem Pickford þurfti að slá frá.

Chermiti inn á fyrir Gana á 82. mínútu.

Á 85. mínútu átti Everton að fá víti þegar Dumb and Dummet hjá Newcastle tók Young í fjölbragðaglímu innan teigs. Augljóst víti og dómarinn sendur í skjáinn og tók rétta ákvörðun. Víti. Calvert-Lewin á punktinn. Háspenna lífshætta. Dominic Calvert-Lewin ekki skorað í hálfa öld, að því að manni fannst. Dubravka giskaði rétt en krafturinn í skotinu svo mikill að boltinn fór inn. Því. Líkur. Léttir. 1-1.

Coleman inn á fyrir Godfrey á 90. mínútu.

Níu mínútum bætt við! Bæði lið reyndu sitt besta til að komast yfr, en hvorugu tókst það. Jafntefli niðurstaðan.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Godfrey (6), Tarkowski (6), Branthwaite (6), Mykolenko (7), Gueye (6), Onana (6), McNeil (6), Young (6), Doucoure (6), Beto (5). Varamenn: Garner (7), Gomes (7), Calvert-Lewin (7).

7 Athugasemdir

 1. Þór skrifar:

  Áfram Everton og rekið Dyche – verri stjóri en Mike Walker.

 2. Gestur skrifar:

  Vængbrotið lið Newcastle og Everton á ekki roð í þá. Everton heldur sér aldrei uppi með þessari spilamennsku. Burtu með Dyche

 3. Eirikur skrifar:

  Tökum stigið 😉. Vonandi áttar Dyche sig á því að skiptingar breyta leikjum, seinustu 30 mínúturnar mun betri.

 4. Diddi skrifar:

  Gárungarnir segja að hann hafi skipt svona snemma af því að það var búið að breyta klukkunni

 5. Orri skrifar:

  Henni var breytt á sunnudag það var gott hann áttaði sig ekki á því.

 6. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Þetta var aðeins skárri frammistaða en á laugardaginn, en bara aðeins.
  Ég missti reyndar af stórum hluta af fyrri hálfleik og slökkti svo þegar ég hélt að staðan væri orðin 2-0. Veit ekki hvers vegna ég kveikti svo aftur ca 10-15 mínútum seinna, líklega sjálfspíningarhvöt Evertonmannsins sem réði því, en sá þá mér til mikillar undrunar að staðan var ennþá bara 1-0 og nægur tími eftir til að gera eitthvað. Liðið virtist líka vera aðeins hressara en fyrr í leiknum svo ég lét mig hafa það að horfa á restina.
  En já, þetta var aðeins skárra.

Leave a Reply