Everton – Burnley 3-0 (deildarbikar)

Mynd: Everton FC.

Everton á leik í fjórðu umferð enska deildarbikarsins kl. 19:45 í kvöld, þegar liðið tekur á móti Úrvalsdeildarliðinu Burnley. Í þetta skiptið er leikur umferðarinnar á Goodison Park, en í fyrri tveimur leikjum Everton í keppninni fengu Doncaster og Aston Villa heimaleik gegn okkar mönnum. Það dugði þeim þó ekki, því Everton vann báða leikina 1-2.

Til upprifjunar er hér fjórða umferðin í deildarbikarnum í heild sinni — tveir leikir voru í gær og eru sigurliðin feitletruð:

Ipswich (B) – Fulham (A)
Man United (A) – Newcastle (A)
Bournemouth (A) – Liverpool (A)
Chelsea (A) – Blackburn (B)
West Ham (A) – Arsenal (A)
Everton (A) – Burnley (A)
Mansfield (D) – Port Vale (C)
Exeter (C) – Middlesbrough (B)

Burnley eru, eins og við vitum, í næstneðsta sæti Úrvalsdeildarinnar, með fjögur stig eftir 10 leiki, þar af sigurleik gegn Luton og jafntefli gegn Nottingham Forest. Þeir unnu Salford í síðustu umferð, sem eru um miðbik töflunnar í ensku D deildinni (League Two svokallaðri).

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski (fyrirliði), Young, McNeil, Onana, Garner, Harrison, Danjuma, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virginia, Keane, Godfrey, Patterson, Gana, Doucouré, Dobbin, Chermiti, Beto.

Sem sagt, sterkt lið sem Sean Dyche stillti upp en hann gerði samt tvær breytingar frá síðasta (sigur)leik. Danjuma og Young komu inn í liðið fyrir Doucouré og Patterson.

Fyrir leik var stutt minningarathöfn um Bill Kenwright, stjórnarformann Everton, sem lést á dögunum. Svo var flautað til leiks, Everton í bláu, að sjálfsögðu, og Burnley menn í gulu. Sjö breytingar á þeirrra liði frá síðasta leik, heyrðist mér þulurinn segja.

Engin færi fyrstu tíu mínúturnar; þangað til Onana fór að leiðast þófið og reyndi skot af löngu færi. Engin hætta samt. Everton komst hins vegar yfir á 13. mínútu og það mark var beint af æfingasvæði Everton — og Burnley — því McNeil pikkaði upp bolta, sem kom út úr teig vinstra megin frá okkar mönnum séð, og sendi hann boltann fyrir mark, háan utan af kanti, beint á pönnuna á Tarkowski. Sá var kominn fram í sóknina, því Everton hafði unnið aukaspyrnu stuttu áður, og náði hann að skalla í innanvert hliðarnetið vinstra megin. Einn fyrrum Burnley maður á annan og skallamark. Við höfum alveg séð þetta áður.

McNeil átti svo skot frá vítateigsjaðrinum á 19. mínútu, en rétt yfir markið. Onana fékk fínt færi, óvænt, 10 mínútum síðar, þegar — aftur — eftir aukaspyrnu, skapaðist hætta í teig Burnley. Hár bolti inn, sem Branthwaite vann með skalla áður en markvörður Burnley komst í boltann. Náði að stýra boltanum á Onana, hafði engan tíma til að athafna sig, þurfti bara að böðla einhverri tilraun í opið netið, en skotið yfir markið. Burnley menn stálheppnir þar.

Ekkert að frétta úr sóknarleik Burnley — engin teljandi færi, þannig að Everton fór með 1-0 forystu í hálfleik.

Engin breyting á liðunum í hálfleik.

Fín byrjun hjá Everton í seinni hálfleik. Calvert-Lewin kom meira að segja boltanum í netið strax á 46. mínútu, en var dæmdur rangstæður í aðdragandanum. Hefði viljað sjá VAR kíkja á það, en það er ekki í gangi á þessu stigi málsins í deildarbikarnum.

Það kom þó ekki að sök, því Everton byrjaði seinni hálfleik eins og þann fyrri, með marki á upphafsmínútunum. Enn á ný kom markið eftir fast leikatriði, þegar McNeil tók horn, beint á Tarkowski (en ekki hvern?) sem skallaði fyrir mark. Boltinn barst til Onana, sem potaði inn og staðan orðin 2-0 fyrir Everton! Einfalt. Öruggt.

Það lifnaði aðeins yfir leik Burnley við markið, en þeir náðu ekki að skapa sér neitt. En þeir færðu sig framar á völlinn, sem skapaði hættu á skyndisóknum frá Everton. Í einni slíkri náði Calvert-Lewin að gera vel og komast framhjá miðverði Burnley, en var óheppinn að varnarmaður Burnley náði að breyta stefnu stoðsendingar hans, því hann hefði sett Danjuma inn fyrir, einan á móti markverði Burnley. En í staðinn náði varnarmaður Burnley að hreinsa frá. Þriðja markið lá í loftinu.

Calvert-Lewin og Danjuma fóru út af fyrir Beto og Doucouré á 68. mínútu. Gana og Patterson komu svo inn á fyrir Onana og Harrison á 79. mínútu.

Patterson náði að skapa ágætis færi fyrir Beto með flottri langri og lágri sendingu utan af kanti, í hlaupaleið Beto inn í teig, en markvörður náði að trufla hann nóg til að færið færi forgörðum. Young fékk svo tækifæri á að innsigla sigurinn með skotfæri við vítateigsjaðurinn á 90. mínútu, en markvörður varði vel í horn (sem ekkert kom úr).

Fimm mínútum var bætt við og Everton (en ekki hvað?) komst í skyndisókn í yfirtölu á 91. mínútu, þar sem McNeil og þrír aðrir keyrðu á þrjá varnarmenn, en skotið frá McNeil blokkerað. Burnley menn enn á ný heppnir og lítið um lífsmark frá þeim.

Þriðja mark Everton, hins vegar, kom að lokum. Beto fór illa með hægri bakvörð Burnley á 93. mínútu, sneri honum á röngunni og brunaði í átt að marki, sendi svo fyrir á Young sem þurfti bara að pota inn. 3-0 fyrir Everton! 

Dobbin kom inn á fyrir McNeil strax í kjölfarið, en það breytti litlu enda flautaði dómarinn til leiksloka, stuttu síðar — akkúrat þegar Everton var að fara að byggja upp aðra skyndisókn. 

Þriggja marka sigur því staðreynd og Everton komið í átta liða úrslit í bikarkeppninni. Öll önnur úrslit í dag eftir bókinni og nokkuð örugg (tveggja til þriggja marka sigrar hjá öllum), nema Liverpool sem ströggluðu á móti Bournemouth.

Þetta reyndist fimmti sigur Everton í sjö leikjum! Liðið virðist svolítið að vera að komast á beinu brautina, loksins!

Engar einkunnir eru gefnar út hjá Sky Sports fyrir deildarbikarleikina en undanúrslitin verða spiluð í kringum 18. desember 2023 og þar eigast við:

Liverpool (A) vs West Ham (A)
Port Vale (C) vs Middlesbrough (B)
Chelsea (A) vs Newcastle (A)
Everton (A) vs Fulham (A)

Sem sagt, Everton fær heimaleik gegn Fulham, sem verður frábært tækifæri til að hefna ófaranna frá því í byrjun tímabils, þegar Everton óð í færum en tapaði 1-0.

2 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Fyrri hálfleikur fínn fyrsta korterið en svo var eins og menn væru pínu þreyttir og ekki alveg að nenna þessu, seinni hálfleikur mikið betri.
    Mér fannst liðið í raun bara vera í öðrum gír og ekkert fara upp úr honum nema stöku sinnum, en Burnley getur ekki neitt svoleiðis að það var alveg nóg.