Fallvaktin

Mynd: Everton FC.

Það hefur verið nokkuð augljóst um tíma að okkar ástsæla lið er í fallbaráttu og úrslit síðustu umferðar gerðu ekki mikið annað en að vega að geðheilsu stuðningsmanna. En við settumst niður hér á everton.is í miðri viku til þess að greina leikjaplanið hjá liðunum í neðstu 6 sætunum, svo hægt sé að átta sig á því hversu erfitt verk er fyrir höndum hjá þessum liðum að forðast fall og reyna að sjá hvað framtíðin beri í skauti sér á næstu vikum og mánuðum.

Byrjum á leikjaplaninu sem eftir er:

Búið er að færa inn töp gærdagsins hjá Norwich, Watford og Leeds (sjá rauða reiti).

Taflan að ofan sýnir liðin í 6 neðstu sætunum (efsta röð) og fyrir neðan hvert lið er nafn mótherja sem liðin eiga eftir að spila við (heima/úti). Fyrir aftan hvert lið er svo númer sem segir til um í hvaða sæti viðkomandi lið er í deild (ath: númerin eru staða í deild fyrir leikina sem spilaðir voru í gær). Rautt letur merkir auk þess extra strembna leiki, t.d. þar sem mótherjinn verður í bullandi keppni um meistaratitil eða Evrópusæti og skáletrun merkir leik sem var frestað (leikdagsetning því ekki þekkt og þeir listaðir neðst þó það verði ekki endilega þannig þegar upp er staðið).

Hér er svo tölfræðin fyrir liðin:

Samanburður á tölfræði liðanna

Flestar af þessum tölum ættu að skýra sig sjálfar, að línunum “Hlutfall” og “Strembnir leikir” undanskildum. “Hlutfall” sýnir hversu hátt hlutfall af stigunum (sem eru í boði fyrir liðið) þurfa að nást til að liðið nái 40 stigum (því lægri prósenta því betra). “Strembnir leikir” er huglægt mat höfunda á þeim mótherjum sem liðið á eftir og sýnir hlutfall leikja gegn afar sterkum liðum sem eiga raunhæfa möguleika á titli/Evrópusæti. Þar gildir einnig reglan: því lægri prósenta því betra (fyrir það lið).

Með gögnin hér að ofan að leiðarljósi, lítum á stöðuna:

Norwich

Norwich eru á botninum núna (20. sæti) og eiga enga von um að forðast fallið (þurfa 76.7% stiga sem eftir er). Stærðfræðilega, jú, eiga þeir séns en þeir mega hvorki tapa þremur í viðbót (í 10 leikjum) né gera fjögur jafntefli því þá geta þeir ekki náð 40 stigum. Leikir við United, West Ham og Tottenham eru afar líklegir tapleikir, enda þau lið í bullandi samkeppni um Evrópusæti. Auk þess sýnir formtaflan að Norwich halaði inn 1 stig af 18 mögulegum (í síðustu 6 leikjum) þannig að maður sér ekki hvaðan stigin þeirra eiga að koma til að brúa bilið við liðin að ofan. Það er auk þess afar vont að þurfa 7 sigra og 2 jafntefli ef maður á bara 10 leiki eftir – að ekki sé minnst á að liðin sem eiga séns á að forðast fall eigi fleiri leiki til góða. 

Spá: Fallnir (eiginlega meira raunsætt mat en spá).

Watford

Watford menn eru í svipaðri stöðu og Norwich: 19. sæti og ef þeir tapa fjórum leikjum í viðbót geta þeir einfaldlega ekki náð 40 stigum. Það hjálpar þeim auk þess engan veginn að eiga eftir leiki við efstu liðin þrjú (City, Liverpool og Chelsea). Allt getur náttúrulega gerst en ég held allir búist við tapleikjum hjá Watford í þessum þremur leikjum og þá þurfa þeir að vinna alla hina 7 leikina til að ná upp í 40 stig. Það er afar ólíklegt af liði sem hefur aðeins unnið 5 leiki á öllu tímabilinu. Þess má einnig geta að einn af þeim leikjum sem Watford á inni er gegn Everton í ljónagryfjunni Goodison Park á þeirra heimavelli. 

Spá: Fallnir (líklega meira staðreynd en spá, alveg burtséð frá leiknum við Everton).

Þetta er því líklega spurning um hvaða lið fylgir Watford og Norwich niður.

Burnley

Burnley menn eru í fallsæti (17. sæti) eins og er, en á pappír allavega eru öll teikn á lofti með það að þeir geti farið að lyfta sér upp úr því sæti og koma í veg fyrir fall. Þeir eru í augnablikinu með besta árangur allra liða í botnbaráttunni í formtöflunni: tvo sigra og jafntefli í síðustu fimm. Leikjaplan þeirrra (samanborið við hin botnliðin) er auk þess öfundsvert. Þeir eiga reyndar Man City leikinn eftir, en að honum loknum eiga þeir enga leiki eftir við lið í 5 efstu sætunum. Þeir þurfa 6 sigra og eitt jafntefli (og hafa til þess 12 leiki) og eiga eftir leiki í lok tímabils við lið um miðbik deildar (sem munu líklega ekki hafa að neinu að keppa þegar að því kemur, sbr. Aston Villa (tvisvar!), Newcastle og (frestaðan) leik við Southampton) og svo fjóra (!) leiki gegn liðum sem hafa verið að ströggla, eins og Norwich, Watford, Brentford og, já… Everton á heimavelli. Talandi um risaleik, þá mætast Burnley og Brentford á útivelli í næstu umferð. Sá leikur er huge og slær svolítið tóninn fyrir næstu vikur.

Spá: Burnley hafa svolítið ítrekað verið að missa af tækifærum til að koma sér upp úr fallsæti, en mig grunar að það breytist og þeir sleppi naumt í lok tímabils. Ef ekki, þá er það fínt fyrir Everton. 

Uppfært 12. mars: Burnley tapaði 6 stiga leik gegn Brentford í dag og allt í einu lítur þetta mjög illa út hjá þeim. Tókst ekki að skora þrátt fyrir að fá dauðafæri á silfurfati frá varnarmanni Brentford og misstu svo miðvörð af velli með beint rautt spjald (þriggja leikja bann) og þeir voru fáliðaðir í vörninni fyrir, því Ben Mee, fyrirliði þeirra, er meiddur.

Everton

Svartsýnismenn horfa á frammistöðuna í tapleiknum gegn Tottenham og þá staðreynd að Everton á inni leiki við öll liðin í efstu átta sætunum fyrir utan City og Tottenham. Bjartsýnismenn benda hins vegar á að Lampard er búinn að stjórna Everton í 7 leikjum núna og vinna þrjá þeirra (og með réttu átti að fá jafnteflis-stig gegn City að auki). Vissulega eru erfiðir leikir eftir, en ef maður telur “rauðu” leikina (sjá efri töflu), þá eru flest botnliðin með 5 slíka rauða leiki en Everton er með 6 – aðeins einum fleiri en hin liðin. Goodison Park virðist jafnframt vera orðið vígi aftur (og næstu tveir leikir eru heimaleikir), Everton er með flest stig eftir í pottinum, á hlutfallslega færri strembna leiki en liðin fyrir ofan og er svolítið með örlögin í höndum sér: þeas. leikir við önnur botnlið á borð við Brentford og Burnley sem og tvo leiki við Leicester, sem voru að missa Vardy í hnémeiðsli. Svigrúmið hjá Everton til að ná í 40 stig er auk þess meira en hjá hinum liðunum sem þurfa að forðast að tapa tveimur – jafnvel þremur – færri leikjum en Everton. Everton þarf 6 sigurleiki í 13 tilraunum (til að ná 40 stigum), og geta náð því þrátt fyrir tap í öllum rauðu leikjunum, ef svo ber undir, sem er meira en hægt er að segja um flest hin liðin.

Spá: Sleppa naumt, en um tíma mun taflan mögulega líta illa út, sérstaklega í lok apríl.

Leeds

Leeds eru í sæti fyrir ofan Everton í töflunni en ég held að enginn stuðningsmaður okkar liðs myndi vilja sjá Everton vera í sporum Leeds núna. Þeir töpuðu í gær og hafa verið í frjálsu falli um tíma. Þeir eru neðstir í formtöflunni (0 stig í síðustu 5 leikjum) — hafa aðeins náð einu jafntefli í síðustu 8 leikjum og tapað 7 í röð, þar af flestum stórt (3-0, 3-0, 4-0, 4-2, 6-0). Plan A (frá nýreknum stjóra, Bielsa) er hætt að virka og það virðist ekki vera neitt plan B, þó að mögulega gætu þeir fengið smá aukinn kraft með nýjum stjóra, hver veit? En það má lítið út af bera, því þeir mega ekki tapa 5 leikjum af þessum 10 sem þeir eiga eftir, því þá geta þeir einfaldlega ekki náð 40 stigum. Því miður fyrir þá eru fimm af þeirra leikjum sem eftir eru einmitt rauðir leikir, City, Chelsea, Arsenal, Wolves og Southampton og, eins og er, virðast Leeds menn varla geta keypt sér stig. Næsti leikur þeirra er gegn botnliði Norwich og ef þeir tapa honum þá verður andrúmsloftið ansi súrt.

Spá: Lokaleikur Leeds á tímabilinu gegn Brentford gæti skorið úr um hvort liðið fellur, en mig grunar eiginlega að Leeds verði fallið áður en að því kemur, þetta lítur þannig út í augnablikinu. En þetta getur breyst hratt.

Brentford

Brentford menn eru, líkt og Leeds, í miklu basli. Frá 11. janúar hafa þeir spilað 10 leiki, tapað 8, unnið 1 og gert eitt jafntefli (með markatöluna 8-23). Það segir hins vegar ákveðna sögu að sigurleikurinn eini á þessum kafla var gegn botnliði Norwich. Þeir eiga jafnframt fæstu leikina eftir (10) af neðstu 6 liðunum og næsti leikur þeirra er gegn Burnley, sem maður hef eiginlega meiri trú á en Brentford. Ég spái þeim tapi (eða í besta falli jafntefli gegn Burnley, sem væri fínt fyrir Everton), þó svo Burnley séu aðeins neðar í deild. Ef við horfum á leikjaplan þeirra, þá (fyrir utan leik þeirra við Leicester, sem eru um miðja deild) er enginn leikur Brentford við lið sem hefur “lokið” tímabili sínu (lesist: er bara að bíða eftir sumarfríi). Þetta er allt annaðhvort lið í baráttu um Evrópukeppni eða lið að berjast fyrir tilveru sinni í deild, sem er ekki vænleg staða fyrir Brentford. Það er spurning reyndar hvort Southampton verði búnir með sitt tímabil þegar kemur að þeim, það kemur í ljós síðar. En 9 leikir af þessum 10 leikjum Brentford eru algjörir bikarúrslitaleikir og Brentford mega ekki tapa 6 leikjum ef þeir ætla að ná upp í 40 stig. Og þó að þeim takist það eru síðustu tveir leikir þeirra á tímabilinu 6 stiga leikir: Everton á Goodison Park og svo Leeds heima. Nú er örugglega ekki hughreystandi fyrir þá að hugsa til þess hversu auðveldlega Everton sigraði þá á Goodison í bikarnum fyrir skömmu (4-1). Brentford menn þurfa að minnsta kosti 4 sigra og eitt jafntefli í 10 leikjum til að tryggja sér 40 stig. Þeir þurfa því að koma Christian Eriksen í gang sem allra allra fyrst ef ekki á illa að fara fyrir þá.

Spá: Sleppa líklega en naumt verður það.

Uppfært 12. mars: Brentford tók mikilvægt skref í dag í átt að því að tryggja veru sína í Úrvalsdeildinni með sigri á Burnley. Eriksen náði að opna vörn Burnley upp á gátt og leggja upp dauðafæri (skallamark) fyrir Toney, sem gulltryggði sigurinn svo með víti. Brentford þurfa samt þrjá sigra og eitt jafntefli í 9 leikjum ef þeir ætla að ná 40 stigum og 5 af þessum 9 leikjum eru strembnir.

Lokaorð (í bili)

Staðan hjá öllum liðunum í neðstu 6 sætunum er slæm, það er ekki hægt að neita því, og tvö þeirra (Norwich og Watford) líklega fallin nú þegar. Það getur allt gerst, en á pappír lítur svo út sem tvö lið fyrir ofan Everton séu í augnablikinu í verri stöðu en Everton, að því gefnu að úrslit verða eftir bókinni. En fótboltinn er óútreiknanlegur og eitt grísamark, eitt óverðskuldað (eða verðskuldað) rautt spjald eða dómaramistök (hóst!) getur haft afgerandi áhrif á úrslit leikja og þar með örlög liða. Við getum reiknað með því að óvænt úrslit munu líta dagsins ljós og það er ekkert ólíklegt að eitt eða tvö lið endi með færri en 40 stig, en falli samt ekki.

Þetta verður því afar fróðlegt og við munum halda áfram að fylgjast með þróun mála og uppfæra tölfræðina.

4 Athugasemdir

  1. Eirikur skrifar:

    Þetta er á milli Everton Og Leeds

  2. Diddi skrifar:

    Watford á reyndar heimaleikinn gegn okkur eftir, unnu 2-5 í ljónagryfjunni GP 😂 en við endum með 45 stig, mín spá

  3. Finnur skrifar:

    Það er laukrétt — þeir eiga heimaleik eftir gegn Everton en ekki útileik, takk fyrir að benda á það (textinn hefur verið lagfærður, grafíkin verður uppfærð síðar).