Man City – Everton 3-0

Mynd: Everton FC.

Everton átti leik við Manchester City klukkan tvö í dag.

Uppstillingin: Pickford, Digne, Keane, Godfrey, Coleman (fyrirliði), Allan, Delph, Gordon, Townsend, Gray, Richarlison.

Varamenn: Begovic, Branthwaite, Kenny, Gbamin, Iwobi, Tosun, Rondon, Simms, Onyango.

Everton byrjaði leikinn fjörlega, voru fljótir að vinna boltann af City mönnum strax í upphafi leiks og bruna í skyndisókn. En það fjaraði fljótt út og City menn tóku öll völd á vellinum í kjölfarið og náðu um tíma halda boltanum 80% tímans. Everton liðið sat djúpt með fjögurra manna varnarlínu og fimm manna miðju til að verja varnarlínuna en í hvert skipti sem Everton vann boltann virtustu þeir staðráðnir í að skila honum strax aftur. City menn hertu því bara þumalskrúfuna meira með hverri mínútunni sem leið og manni fannst þetta bara spurning um tíma hvenær stíflan myndi bresta.

Ekki batnaði útlitið þegar Gray virtist togna í nára, en hann hafði virst líklegasti leikmaðurinn til að ná að skapa eitthvað. Iwobi kom inn á fyrir hann á 17. mínútu. 

Á 30. mínútu fengu City menn dæmda vítaspyrnu þegar Sterling virtist vera felldur af Keane inni í teig. Leikmenn Everton mótmæltu dómnum harðlega og eftir langa yfirlegu í VAR sást fyrst að brotið var utan teigs, en við nánari skoðun kom einnig í ljós að ekki var einu sinni um brot að ræða. Þarna var VAR að virka sem skyldi.

Iwobi komst í fína skyndisókn á 42. og var næstum búinn að komast einn á móti markverði en Walker bjargaði þeim fyrir horn þegar hann náði að snerta boltann og sjá þannig til þess að hann rúllaði til markvarðar.

En City menn eru með nóg af mönnum sem geta opnað svona leiki þegar á þarf að halda og það gerðu þeir. Cancelo fékk boltann nokkuð fyrir utan teig, leit upp og sá hlaup frá Sterling og sendi geggjaðan bolta utanfótar inn í teig, beint í hlaupalínu Sterling sem þurfti bara að leggja hann framhjá Pickford. 1-0 fyrir City.

Everton náði skoti á mark rétt fyrir hálfleikinn þegar Townsend fékk aukaspyrnu rétt utan teigs og reyndi skot úr því á markið. Það fór hins vegar beint á markvörð City.

1-0 í hálfleik.

Leikur Everton batnaði nokkuð í seinni hálfleik — litu mun betur út frá fyrstu mínútu, voru jákvæðari með boltann og héldu honum betur og fyrir vikið mun líklegri en áður. En það er erfitt að eiga við fyrnasterkt lið Englandsmeistaranna þar sem valinn maður er í hverju rúmi og bara spurning hvort Everton næði að gera eitthvað við þennan 25% tíma sem þeir voru með boltann. 

Því miður var það ósköp lítið og City menn bættu við marki á 55. mínútu. Það var sko ekki af verri endanum, negla utan af velli frá Rodrigo upp í samskeytin vinstra megin. 2-0 fyrir City.

Rondon var skipt inn á fyrir Delph á 63. mínútu og Benitez skipti þar með yfir í tvo framherja og Townsend færður aftar til að fylla í skarð Delph.
Coleman komst í ágætt færi nálægt endamörkum í eitt skiptið á 76. mínútu en skotið varið. Hinum megin komst Sterling í algjört dauðafæri, einn á móti markverði beint fyrir framan mark en reyndi að ná stjórn á boltanum í stað þess að skjóta í fyrsta og Pickford sá við honum. Þar hefði staðan átt að vera 3-0.

En City menn bættu við marki undir lokin og það var smá heppnisstimpill á því. Varnarmaður Everton náði næstum að stoppa skot frá Palmer utan teigs, en dró í staðinn  bara úr kraftinum úr skotinu og boltinn fór í hlaupaleiðina hjá Bernardo Silva sem þurfti bara að renna honum í fyrstu snertingu framhjá Pickford. 3-0.

Það eina markverða annað sem gerðist var að hinum 18 ára miðjumanni, Tyler Onyango, var skipt inn á fyrir Allan á 90. mínútu. Fyrsti leikur Tylers í Úrvalsdeildinni.

EInkunnir Sky Sports: Pickford (5), Coleman (5), Godfrey (6), Keane (4), Digne (6), Allan (5), Delph (5), Gray (5), Gordon (5), Townsend (7), Richarlison (5). Varamenn: Iwobi (6), Rondon (5).

1 athugasemd

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Verra gat það verið.

%d bloggers like this: