Mynd: Everton FC.
Jæja, nú er maður farinn að kannast við liðið sitt aftur.
Uppstillingin: Pickford, Martina, Holgate, Williams, Kenny, Gueye, Davies, Lennon, Gylfi, Rooney, Calvert-Lewin.
Lítið reyndar að gerast fyrsta korterið þangað til Gylfi sendi allt í einu Calvert-Lewin inn fyrir með stungusendingu. Calvert-Lewin þar með einn á móti markverði og reyndi að komast framhjá Joe Hart í markinu. Hart kastaði sér á boltann, rétt náði að snerta boltann með fingurgómnum en tók niður Calvert-Lewin í kjölfarið og dómarinn, Michael Oliver, dæmdi víti. West Ham mönnum fannst það hart en Graham Poll var fenginn til að meta þetta í beinni útsendingu og var sammála Michael Oliver.
Rooney því á punktinn á 17. mínútu og skaut föstum bolta niðri í vinstra hornið en Joe Hart giskaði rétt og varði. Frákastið hins vegar beint til Rooney sem skallaði í autt netið hægra megin. Staðan orðin 1-0 fyrir Everton.
Annað mark Everton kom á 28. mínútu þegar Kenny lék á bakvörð West Ham og sendi Davies upp kantinn hægra megin og inn í teig. Davies reyndi sendingu aftur á Kenny sem var í skotfæri inni í teig en hann hitti ekki boltann. Það kom þó ekki að sök því boltinn barst til Rooney sem skoraði auðveldlega. 2-0 Everton.
Og þannig var staðan í hálfleik. Lítil hætta frá West Ham sem voru slakir í sóknarleiknum og ákefðin minni frá þeim en frá Everton.
West Ham menn komu mjög einbeittir í seinni hálfleikinn og náðu sterkri pressu á Everton. Greinilega fengið hárblárasameðferðina frá Moyes í hálfleik. Þeirra líklegasta færi endaði með skot í slá innan teigs á 51. mínútu.
Þeir uppskáru reyndar víti á 57. mínútu þegar Williams gaf þeim líflínu með klaufalegu víti. Ekkert nýtt þar, maður er farinn að halda að Williams langi að enda ferilinn eftir þetta tímabil á einhverri sólarströnd. En Pickford tók sig til og einfaldlega varði fast skot vinstra hornið.
Þetta reyndist þvílíkur vendipunktur í síðari hálfleik því þrátt fyrir að West Ham menn héldu áfram að pressa komst Calvert-Lewin í skyndisókn á 65. mínútu. Calvert-Lewin reyndar þar að elda vonlausan bolta því Joe Hart mætti honum langt utan teigs til að hreinsa en sendi boltann beint til Rooney sem kláraði þrennuna með langskoti í mark frá eigin vallarhelmingi. Munaði engu að hann hefði hitt dómarann, sem rétt náði að forða sér frá, og varnarmaður West Ham reyndi að slá boltann frá með hendi (en tókst ekki). Boltinn í netið. Everton 3 – West Ham 0.
West Ham menn misstu sinn besta varnarmann Winston Reid af velli eftir tognun í lærvöðva og ungur varamaður þeirra kom inn á í hornspyrnu Everton sem Gylfi setti beint á kollinn á Williams (sem varamaðurinn sem var að koma inn á tókst ekki að dekka) og Ashley Williams skoraði. Staðan orðin 4-0!
Baningeme skipt inn á fyrir Rooney og Lookman inn á fyrir Lennon rétt undir lok venjulegs leiktíma. Vlasic var svo skipt inn á fyrir Calvert-Lewin í viðbótartíma. En West Ham menn sýndu engin frekari lífsmerki og Everton sigldi þessu í höfn.
4-0 sigur Everton í kvöld.
David Moyes hefur ekki notið neinna leikja sinna á Goodison Park frá því hann fór frá Everton því ef mér skjátlast ekki hefur hann tapað öllum þeim leikjum sem hann hefur stýrt þar sínum liðum (Sunderland og United). Og hver annar en Rooney til að slökkva vonarneista Moyes og West Ham manna?
Everton liðið mikið betra í dag og Rooney algjörlega frábær, spilaði nánast eins og djúpur miðjumaður en stjórnaði tempói leiksins og skoraði þrjú mörk. Er hægt að biðja um meira?
Einkunnir Sky Sports: Pickford (8), Williams (7), Martina (6), Kenny (8), Holgate (7), Gueye (6), Davies (7), Sigurdsson (7), Lennon (7), Rooney (9), Calvert-Lewin (8). Varamenn: Vlasic (6), Lookman (6).
Þetta verður stærsti sigur Moyes á Goodison er ég hræddur um ☹🙁
Sæll Ingvar.Sem betur fer hafðir þú rangt fyrir þér og ég veit að þér líkar það ekki ílla.
Já ég er svo sannarlega feginn að hafa haft rangt fyrir mér.
Hvað er að gerast??!!
Ég trúi ekki ætlar Everton að vinna leik það yrði ótrúlegt afrek. Flottur fyrri hálfleikur. Leikmennirnar eru að reyna að sanna sig fyrir nýja stjóranum kannski er það rétt ákvörðum að ráða Sam kemur í ljós.
Góður endir á slæmum degi.
Pickford bjargaði okkur þegar hann varði vítið. Vonandi er þetta viðsnúningurinn sem við höfum beðið eftir.
Ég verð að segja það að mér fannst Everton spila bara ágætlega á köflum í þessum leik, en á móti kemur að þeir voru að spila gegn arfa slöku liði West Ham sem veitti ekki mikla mótspyrnu. En ég sá einhvern neista í þessu, menn að sýna sig fyrir nýja stjóranum, ég trúi því að nú sé uppgangs tímabilið hafið. Já, við vinnum Liverpool 10. desember. Það yrði nú aldeilis uppreisn æru af öllu saman eftir þetta erfiða tímaskeið!
Flottur sigur. Fyrri hálfleikur góður hjá Everton. Voru hálf sofandi í byrjun seinni hálfleiks en eftir að Pickford varði vitið og Rooney skoraði þetta stórglæsilega mark var þetta búið. Ég vill ekki gagnrýna stjórann strax ekki minn draumastjóri en hann er góður stjóri til skamms tíma. Ég hefði viljað gera bara 6 mánaða samning við hann og hafa ákvæði í honum að hann fengi 1 ár í viðbót ef árangurinn væri góður. En kannski hafa stjórar trompin og geta komið öllu í gegn og launin hans eru svakalega há.
Þrír leikmenn Everton í liði vikunnar: Jonjoe Kenny, Idrissa Gueye og Wayne Rooney.
http://www.goal.com/en-gb/news/premier-league-team-of-the-week-rooney-and-salah-shine/1y26qq8i8yqpz14z5c8wxieg2l
Einnig var staðfest að um réttan dóm var að ræða þegar dæmd var vítaspyrna á West Ham:
http://www.skysports.com/football/news/11671/11150162/cheslea-boss-antonio-conte-will-without-doubt-receive-a-touchline-ban-says-dermot-gallagher
Það var allt annað að sjá liðið í fyrri hálfleik miðað við síðustu leiki. Margir að eiga flottan leik.
Það var í raun bara fyrstu 15-20 mín í seinni hálfleik þar sem við bökkuðum allt of mikið, Mín tilfinning var að Unsworth hefur tekið taktíska breytingu í hálfleik þar sem leikplanið var allt annað, Gylfi færðist þá að kantinn til að þétta meira. Finnst í raun óeðlilegt að breyta leikplani þegar hitt liðið átti ekki skot í þeim fyrri. Til hvers að breyta taktík þegar þú ert 2-0 yfir og hitt liðið á ekki skot? Kannski dæmi um reynsluleysi hjá okkar manni.
Enn og aftur er Williams að gefa víti. Gríðarlega klaufalegt hjá honum þar sem Holgate stóð fyrir framan West Ham manninn og hefði eflaust hreinsað boltanum í burtu, Williams átti aldrei séns í boltann. Pickford sá til þess að þeir komust ekki inn í leikinn með glæsilegri vörus. Framtíðar nr. 1 hjá Englandi. Fannst Holgate koma ferskur inn í miðvarðarstöðuna og kom með hraða sem hefur vantað.
Eftir þriðja markið hjá Rooney þá var leikurinn aftur okkar og ekki spurning hvernig endaði. Eins og ég nefndi í fyrri þræði þá var það mér óskyljanlegt að Rooney hafi ekki fengið að spila eina einustu mínútu í 2 deildarleikjum í röð. Hann svaraði heldur betur kallinu með að henda í þrennu.
Gylfi var flottur í þessum leik, átti þátt í fyrsta markinu þegar hann sendi DCL í gegn og svo átti hann stoðsendingu þegar Williams skoraði fjórða markið. Var mjög vinnusamur í þessum leik en nýtist best fram á við þegar hann er í holunni.
Spurning hvort þetta hafi verið nærvera Big Sam í stúkunni að menn hefðu viljað sanna sig fyrir nýjum þjálfara því mér fannst þetta ekki sama lið og hefur verið afleitt í síðustu leikjum. Vonandi að Big Sam komi með reynslu og þekkingu inn í þetta og nái að ýta liðinu upp töfluna.
Næsti leikur er heima gegn Huddersfield og ekkert annað en 3 stig koma til greina.
Til hamingju!
Af hverju er ekki verið að rífast hérna 40-50 comment eins og eftir tapleiki?! (djók)