Everton vs. Swansea

Mynd: Everton FC.

Það er töluvert síðan maður byrjaði að telja niður dagana eftir þessum leik, enda ekki gott að hafa úrslit síðasta leiks hangandi yfir manni of lengi en svo æxlaðist vegna landsleikjahlés. En nú er sem sagt komið að því, Gylfi og félagar í Swansea mæta á laugardeginum kl. 15:00 á Goodison Park þar sem Everton eru taplausir á tímabilinu.

Koeman nýtti landsleikjahléið til að fylgjast með ungliðunum og fara í viðtal hjá Gary Lineker (fyrrum Everton manninum) þar sem Koeman sagði að markmiðið í ár væri að komast í Evrópusæti og, á sínu þriðja ári, gera atlögu að Meistaradeildinni. Lineker fór jafnframt ekki leynt með aðdáun sína á Koeman.

Einnig átti Koeman viðtal við belgíska fjölmiðla um Lukaku og var umfjöllunin eftir á ansi skrautleg — kannski meira en efni stóðu til, eins og komið hefur fram í kommentakerfinu.

Jákvæð teikn voru á lofti hvað eigandann Moshiri varðar því hann gaf í skyn að klúbburinn myndi styðja dyggilega við Koeman í næstu félagaskiptagluggum og fjárfesta einnig utan vallar en svo virðist sem það sé töluverður framgangur í undirbúningi byggingu nýs vallar. Einnig má nefna að hann borgaði upp allar skuldir klúbbsins og réðist einnig í frekari ráðningar á dögunum. Sögusagnir fóru einnig á fullt um lán á Mephis Depay til Everton þannig að það er allt að gerast. Sjáum hvað setur.

Baines og McCarthy eru sagðir heilir fyrir leikinn en Muhamed Besic og Matthew Pennington frá. Gana Gueye er hins vegar kominn aftur úr banni en Barry fór jafn harðan í leikbanni. Líkleg uppstilling: Stekelenburg, Oviedo/Baines, Williams, Jagielka, Coleman, Gana, Cleverley, Mirallas, Barkley, Bolasie, Lukaku. Hjá Swansea eru Nathan Dyer og Jefferson Montero metnir tæpir.

Af ungliðunum er það að frétta að:

– Deulofeo varð á dögunum markahæsti spænski U21 árs landsliðsmaðurinn frá upphafi.
– Everton U18 gerðu 1-1 jafntefli við West Brom U18 en mark Everton skoraði Fraser Hornby. Þeir sigruðu svo Sunderland U18 0-2 á útivelli með mörkum frá Jack Kiersey og Daniel Bramall.

En, Swansea menn eru næstir á laugardaginn kl. 15:00. Leikurinn er ekki sýndur í beinni en þess má geta að formaður klúbbsinn er á pöllunum ásamt konu og dóttur, Birtu, gallhörðum Everton stuðningsmanni sem á 15 ára afmæli þennan dag. Við óskum henni hjartanlega til hamingju með það! Og svo eru þrír aðrir Íslendinum einnig á okkar vegum á pöllunum. Við skulum vona að frammistaða Everton komi til með að gleðja okkur öll! Koma svo!

7 Athugasemdir

  1. Diddi skrifar:

    1-1

  2. Gestur skrifar:

    Spái 1-2, Gylfi með mark á loka mín. Eigandinn á nú alveg eftir að sanna það fyrir okkur að hann ætli eitthvað með Everton. Það er ekki nóg að tala bara og tala um að það sé til nóg af peningum og gera svo sára lítið. Ennþá fyrir mér er verið að slá ryk í augun og ég vona að það verði eitthvað gert í vetrarglugganum. Depay virðist vera að renna úr greipum vegna þess að Koeman vill bara fá hann á láni. Þá spyr maður sig er til einhver peningur hjá Everton?

    • Georg skrifar:

      Held að menn séu full bráðir að afskrifa nýja eigandann bara því að það var ekki mikið verslað í sumar.

      Þetta er verkefni sem er ekki klárað á einum degi. Það tekur yfirleitt einhver ár að byggja upp nýtt lið og með nýjan þjálfara. Það er nokkuð ljóst að við fengum ekki eins marga í sumar og við hefðum viljað en það gerist í boltanum. Koeman þurfti bara tíma að sjá hópinn okkar í sumar og ákveða hvar þyrfti að styrkja. Held að það hafi orðið til þess að við náðum ekki að versla meira.

      Fyrir mér er ég mjög bjartsýnn með framtíðina eftir að vera í þessari óvissi öll þessi ár með Bill sem aðal eiganda og í raun alltaf þurft að reka klúbbinn á 0 með kaup og sölu.

      Moshiri er búinn að leggja góðan pening í að laga Goodison Park og gefa honum andlitslyftingu þó svo að stefnan sé að flytja annað og finnst mér það frábært. Hann hefur greint frá því að hann hafi t.d. greitt niður allar skuldir hjá klúbbnum þannig að skuldir eru ekki að stoppa okkur í því að finna nýjan völl.

      Janúar glugginn verður áhugaverður, en ég er samt nokkuð viss um að næsti sumargluggi verði ennþá áhugaverðari fyrir okkur.

      Ég er bjartsýnn fyrir þennan leik og spái honum 2 eða 3-0 fyrir okkur.

      Framtíðin er björt hjá okkar klúbb.

  3. halli skrifar:

    Það er töluverð spenna í manni að vera að fara á völlinn á morgun og er ég bara bjartsýnn á góðan leik og er alveg til í að sjá Gylfa okkar skora mark já eða mörk bara svo framarlega að við skorum fleiri. Það er nú ekki hægt að segja að veðrið leiki við okkur hér ekta Reykjavíkur vetrarveður rok og rigning. Það er samt hrikalega gaman að vera hér taka inn alla stemminguna. Kv Halli

  4. Elvar Örn skrifar:

    Þar sem hann er ekki sýndur beint hér á Íslandi þá þarf maður að finna hann á netinu. Ætla að prufa að kaupa net-áskrift til að sjá hve góðum gæðum maður nær í gegum það. Læt vita hvernig það kemur út.

  5. Orri skrifar:

    Við verðum að gera mun betur en í síðasta leik og vinna Swansea stórt í dag.Ég spái 4-0 fyrir okkur.