Everton – Stoke 1-0

Mynd: Everton FC.

Everton mætti liði Stoke í dag á heimavelli og náði naumum 1-0 sigri eftir vítaspyrnu frá Baines. Lokaniðurstaðan gefur kannski ekki rétta mynd af leiknum því hann var bæði fjörugur og skemmtilegur og hefðu mörkin hæglega getað verið fleiri. Everton klárlega betra liðið í leiknum og reyndi mun meira.

Uppstillingin: Stekelenburg, Baines, Williams, Jagielka, Holgate, Barry, Gueye, Bolasie, Mirallas, Barkley, Lukaku. Varamenn: Robles, Deulofeu, Kone, Lennon, Oviedo, Funes Mori, Davies.

Hjá Stoke var enginn Butland og enginn Shaquiri sjáanlegur í uppstillingunni og Bojan á bekknum. Arnautovic í framlínunni ásamt Crouch sem var fremstur.

Mirallas átti fyrsta skot leiksins á mark á 5. mínútu eftir flottan snúning hjá honum rétt utan teigs sem skildi varnarmann eftir. En skotið frá honum varið af Shay Given í marki Stoke. Annars rólegt yfir leiknum fyrstu tuttugu mínúturnar eða svo en lifnaði aldeilis við upp úr því þegar Everton jók svo pressuna nokkuð á mark Stoke sem opnaði leikinn nokkuð.

Everton mun meira með boltann í fyrri hálfleik (61%) og klárlega beittari — áttu 8 tilraunir á markið, þar af fjóra bolta sem fundu rammann. Stoke með þrjár tilraunir (ein á rammann).

Shawcross bjargaði á línu á 21. mínútu þegar Lukaku náði að hrista af sér varnarmann og komast í skotfæri inni í teig. Boltinn framhjá markverði en Shawcross mættur á línu og náði að sparka frá marki. Möguleiki reyndar að boltinn hafi verið að fara rétt framhjá stöng — sást ekki nógu vel í endursýningu.

Ashley Williams var næstum búinn að skora upp úr horni þegar boltinn barst til Mirallas við horn teigsins og hann sendi háa sendingu fyrir mark og þar var Williams mættur í stökkið við fjærstöng og náði að skalla framhjá markverði en Crouch mættur sem aftasti maður og rétt náði að bjarga á línu. Stoke menn stálheppnir að vera ekki búnir að fá á sig mark.

Shawcross reyndi svo sjálfsmark með skalla á mark af stuttu færi en Given vel á verði í marki Stoke. Kom þar í veg fyrir að Shawcross væri í sviðsljósinu af röngum ástæðum aðra vikuna í röð.

End-to-end stöff eftir um hálftíma leik þar sem boltinn barst markanna á milli. Endaði með glæsilegu skoti á mark frá Mirallas við D-ið sem Given varði í horn. En fleiri voru almennilegu tækifærin ekki í fyrri hálfleik.

0-0 því staðan eftir fjörugan og skemmtilegan hálfleik.

Everton hélt uppteknum hætti í seinni hálfleik og byrjuðu leikinn af krafti. Barkley átti fyrsta færið á 47. mínútu — losaði sig við tvo varnarmenn með góðum snúningi og náði skoti innan teigs vinstra megin nálægt marki en boltinn rétt framhjá fjærstöng.

Lukaku fékk upplagt færi til að skora þegar hann tók þríhyrning við Holgate sem skallaði til baka til hans og setti Lukaku þar með í dauðafæri. Lukaku náði fínni snertingu og komst framhjá markverði Stoke en Shawcross mættur í skriðtæklingu og náði að verja skotið frá Lukaku með ótrúlegum hætti. „Hvernig fór þetta ekki inn?“, hugsaði maður.

En þetta stoppaði ekki Everton sem skoruðu stuttu eftir hornið. Bardsley, leikmaður Stoke, felldi Ashley Williams inni í teig og Michael Oliver dómari ekki í vafa. Víti! Baines á punktinn og skaut í innanverða stöng hægra megin og út aftur, en boltinn beint í skallann á Shay Given og þaðan í netið. 1-0 fyrir Everton eftir rétt rúmar 50 mínútur. Svolítill heppnisstimpill á markinu en forystan verðskulduð.

Arnautovic var næstum búinn að jafna á 57. mínútu þegar hann komst upp að marki vinstra megin. Stekelenburg náði að loka vel á hann en Arnautociv náði að snúa sér og ná skoti sem Stekelenburg varði með fætinum og boltinn svo í slána. Langhættulegasta færi Stoke í leiknum og komið að leikmönnum Everton að vera heppnir að fá ekki á sig mark.

Barkley átti svo skot af löngu færi á 63. mínútu sem Given þurfti að hafa sig allan við að verja.

Kone kom inn á fyrir Mirallas á 70. mínútu og hann beið ekki boðanna heldur reyndi skot af löngu færi á 72. mínútu niður í vinstra horn en Shay Given kastaði sér niður og varði nokkuð auðveldlega.

Barkley náði svo að koma sér í gott færi þegar hann fipaði Shawcross sem missti þar með boltann framhjá sér og hleypti Barkley inn fyrir vörnina. Barkley komst einn upp að marki en Shay Given sá við honum og varði. Hefði átt að gera betur þar.

Hinum megin vallar fengu Stoke algjört dauðafæri þegar Arnautovic komst upp að marki vinstra megin og gaf lágan bolta fyrir mark á Walters. Walters í algjöru dauðafæri með opið markið fyrir framan sig og þurfti bara að pota inn en náði ekki að slengja fæti í boltann. Everton að sleppa með skrekkinn aftur!

Barry setti upp þvílíkt skotfæri fyrir Bolasie við D-ið á teignum en skotið frá þeim síðarnefnda í sveig rétt utan við fjærstöng.

Koeman gerði tvær skiptingar í kjölfarið með stuttu millibili, Ross Barkley út af fyrir Funes Mori á 85. mínútu og Tom Davies inn á fyrir Bolasie á 88. mínútu. Funes Mori átti eftir að reynast sérstaklega drjúgur í lokin, var duglegur að sækja ófáar aukaspyrnur sem eyddu dýrmætum tíma fyrir Stoke.

Taugarnar voru svolítið þandar í lokin þegar dómarinn bætti við fjórum mínútum — áhorfendur líkaleg minnugir síðasta tímabils þar sem Everton kastaði frá sér unnum leikjum í jafntefli eða jafnvel tap. En það gerðist ekki í dag því fleiri voru færin ekki — ef frá er talið ein aukaspyrna frá Baines sem var nokkuð auðveldlega varin.

1-0 sigur Everton staðreynd og tölfræðin undir Koeman farin að líta nokkuð vel út, jafntefli í fyrsta leik en þrír sigurleikir þar á eftir. Everton í 2. sæti í deild eftir leikinn (umferðin þó ekki alveg búin).

Einkunnir Sky Sports: Stekelenburg (8), Holgate (7), Williams (8), Jagielka (6), Baines (6), Barry (6), Gueye (7), Barkley (7), Bolasie (7), Mirallas (6), Lukaku (6). Varamenn: Kone (5), Funes Mori (6). Að mati Sky Sports þá voru aðeins tveir hjá Stoke sem náðu sjö – restin var lægri (alveg niður í fjóra). 

Í lokin minnum við á að aðalfundur Everton á Íslandi verður haldinn þann 17. september á Ölveri kl. 15:00. Stjórn vonast eftir að sjá ykkur sem allra flest og svo horfum við saman strax á eftir á Everton mæta nýliðum Middlesbrough á heimavelli.

Eftir leikinn verður svo árshátíð Everton haldin í veislusal á Hverfisgötu 33 (fyrir ofan veitingastaðinn Kryddlegin hjörtu). Húsið opnar kl. 20:00. Sendum út skráningarform síðar — ekki missa af þessu!

14 Athugasemdir

  1. Kiddi skrifar:

    Leikurinn ekki sýndur í Ölveri, er einhver annar staður sem sýnir leikinn?

  2. Finnur skrifar:

    Veit ekki. Ættir kannski að hringja og athuga með Spot

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta var, að mínu mati, fyllilega verðskuldaður sigur og okkar menn bara óheppnir að vinna ekki stærra.
    Nú vantar bara að klára að styrkja liðið fyrir veturinn og þá er þetta bara að fara að verða enn betra.

  4. Ari S skrifar:

    Ég er ánægður með sigurinn í dag. Fyllilega verðskuldaður.

    Að sjá Jagielka og Williams labba fram þegar hornspyrnurnar eru teknar og Gareth Barry á eftir þeim er traustvekjandi sjón.

    Gueye nettur og mjög góður, aðeins meira en 7 milljón punda virði en látum það liggja milli hluta, frábær leikmaður.

    Góður sigur, þrjú stig og þriðja sætið í bili.

    Til hamingju með sigurinn Everton stuðningsmenn.

  5. Elvar Örn skrifar:

    Besti leikmaður Everton í þessum fyrstu leikjum tímabilsins er klárlega Stekelenburg, finnst hann hafa verið frábær hreint út sagt. Holgate komið frábærlega inn í hægri bakvörðinn líka og heilt yfir lítur liðið betur út en í fyrra.
    Ekki leiðinlegt að vera með 7 stig eftir 3 leiki.

    Everton klárlega betra liðið í dag og greinilegt á fjölda færa og fjölda skota á mark. Stoke hefði samt sem áður getað stolið jafntefli en sigur Everton klárlega sanngjarn.

    Þá er að kaupa 2-3 menn á næstu 4 dögum áður en glugginn lokar, maður fer nú að efast með að það gangi eftir, hmmm. Sjáum til.

  6. Gunnþór skrifar:

    Sá ekki leikinn en hefði viljað sjá fleiri mörk hvað segja menn veit að við vorum meira með boltann .

    • Finnur skrifar:

      Þetta er alltaf svolítið random og ég reyni því að horfa meira á frammistöðu liðsins frekar en fjölda marka. Liðið getur spilað illa og unnið leikinn með tveimur, jafnvel þremur mörkum — eða verið yfirburðalið á velli í leik sem endar með jafntefli — jafnvel tapi. Stigin skipta vissulega alltaf máli, en þau fara svolítið mikið eftir því hvort þetta sé stöngin inn eða stöngin út og ef liðið er sífellt sterkara en andstæðingurinn þá ættu stigin að skila sér á endanum.

      Ég er sáttur þegar liðið er að skapa sér nóg af færum til að vinna tvo til þrjá leiki og þar var tölfræðin með Everton frekar en Stoke. Þrjú stig fengust þó úr þessum leik (gegn vel skipulagðri Stoke vörn) en leikurinn var að auki mjög skemmtilegur á að horfa (sem maður hefur ekki alltaf búist við af leikjum gegn Stoke), þannig að ég get ekki beðið um meira. Sérstaklega ekki þar sem liðið okkar er í Champions League sæti eftir þrjár umferðir og Lukaku rétt að komast í leikform.

  7. Gunnþór skrifar:

    Já veit en í stöðunni 1-0 er alltaf hætta en ekki miskilja flott 3 stig.eigum og verðum að slátra svona leikjum miklu fyrr við erum á heimavelli hefði verið sáttari á útivelli. Er samt gríðarlega sáttur í leikslok.

    • Finnur skrifar:

      Jú, jú, skil þig. Og mikið rétt: Alltaf hætta í stöðunni 1-0 enda voru taugarnar þandar í lokin. Er alveg sammála því að maður hefði viljað sjá fleiri mörk og ef bæði lið hefðu fullnýtt sín færi hefði sigur Everton verið nokkuð stærri.

  8. þorri skrifar:

    Kæru félagar var þetta góður leikur að okkar hálfu ég nefðilega sá hann ekki heyrði bara urslitinn.Og er mjög sáttur með 4 sætið.Mér sýnist að Koman sé kominn með góðan hóp sé góður stjórnandi á brúni. Þá er það sunderland næst ekki rétt. Úti og mér hlakar mikið til í næsta leik. ÉG spyr félagar eru þið sáttir með koman það sem komið er af tímabilinu.ÉG er það og SEIGI ÁFRAM EVERTON

  9. þorri skrifar:

    og hlaka mikið til þegar ég fer á leikinn EVERTON. MAN CSTER.með konuni. Og væri gaman er einhver annar everton maður færi líka

  10. Georg skrifar:

    Við erum að fara flott af stað á þessari leiktíð og höfum ekki tapað leik, 3 sigrar og 1 jafnteli (þar af einn sigur í bikarnum).

    Við vorum að spila vel gegn Stoke og áttum í raun að vera löngu búnir að klára leikinn, það er kannski það eina sem maður getur sett út á leikinn var að við hefðum átt að klára fleiri færi. Vörnin er farin að líta mjög vel út. Mjög traustvekjandi að vera með Jagielka og Willams þarna aftast með Gana fyrir framan þá sem hefur verið frábær. Holgate hefur svo bara vaxið og vaxið í síðustu leikjum og erum við greinilega með gríðarlega efninilegan leikmann þarna á ferð.

    Stekeleburg er einnig leikmaður sem verðugt er að nefna. Ég hugsaði hann bara sem varamarkmann þegar hann kom, en sá hefur heldur betur slegið í gegn og búinn að vera frábær í fyrstu leikjunum. Manni líður miklu betur með hann í rammanum heldur en Joel Jobles sem ég svosem sé ekki með mikla framtíð hjá okkur.

    Nú er bara að klára að kaupa í þær stöður sem vantar í og þá sérstaklega annan framherja, við virðumst búinir að vera bjóða í nokkra framherja síðustu daga en erfitt virðist að klára þau mál. Ef að Lukaku er meiddur þá erum við ekki í nógu góðum málum og því tel ég það vera langmikilvægast af öllum stöðum að styrkja.

    Last gærdagsins fær Big Sam fyrir að velja ekki Barkley í landsliðshópinn. Barkley hefur farið mjög vel af stað á leiktíðinni. Búinn að skora 1 mark og leggja upp 1 mark í fyrstu 3 leikjunum í deildinni. Big Sam horfði á leikinn gegn Stoke, Barkley stóð sig mjög vel að mínu mati þó hann hefði átt að skora í leiknum en tel ég það ekki ástæðu til að velja hann ekki. Big Sam fær þá hrós fyrir að velja Jagielka í hópinn sem á klárlega heima þarna sem einn af bestu miðvörðum deildarinnar. Ég er samt mjög pirraður fyrir Barkley hönd að hann hafi ekki verið valinn. Fyrir okkur þá er hann ekki að meiðast á meðan og kannski verður til þess að hann leggji ennþá harðar að sér til að sanna fyrir Big Sam að hann eigi heima í hópnum.

    • Finnur skrifar:

      Ég er kannski einn um þessa skoðun en mér finnst eiginlega fínt að Barkley hafi ekki verið valinn í landsliðið. Hann er að fá sterk skilaboð frá Koeman um að hann þurfi að bæta sig og komast á næsta level sem er það sem allir búast við af honum og að vera hársbreidd frá landsliðinu ætti að vera enn frekari hvatning til þess (– og hann meiðist þá ekki með landsliðinu á meðan). Hann verður 23ja ára á árinu og hefur getuna til að ná langt þannig að nú þarf að fara að sýna það með reglubundnum hætti.

      En að öðru… mér fannst fyndið að lesa þetta á Sky Sports í dag: „Joe Hart is due to arrive at Torino despite interest from Sunderland because he wanted to play abroad“. Þetta er algjör kúvending hjá þessum svokölluðu spekingum sem byrjuðu á því að segja að Hart vildi alls ekki fara til annars lands heldur spila í Úrvalsdeildinni og bættu svo um betur og sögðu að tilboð væri komið frá Everton. Nú hefur komið í ljós að hið rétta er að Everton hafði aldrei áhuga, gerði greinilega aldrei tilboð og Hart vill spila í annarri deild eftir allt saman. 🙂

  11. Elvar Örn skrifar:

    Gaman að fylgjast með Power Ranking hjá Sky sports en þar eru 4 Everton menn í sætum 14-17 þar sem Stekelenburg er þar efstur (kom mér ekki á óvart) og síðan koma Barkley, Holgate og Barry. Skammt undan er síðan Jagielka í 24 sæti og Gueye í 32 sæti og Mirallas í 36.

    En sjá má listann hér:

    http://www.skysports.com/football/news/11095/10557998/chelseas-eden-hazard-tops-the-sky-sports-power-rankings?