Everton vs Man City

Mynd: Everton FC.

Síðasti heimaleikur Everton á tímabilinu er gegn Manchester City en aðeins tveir leikir eru eftir, eins og okkur ætti að vera morgunljóst. Þrettán Íslendingar verða á pöllunum á vegum klúbbsins okkar hér heima en um tíma leit út fyrir að verkfall Isavia kæmi í veg fyrir að hópurinn næði út. Það hafðist þó að lokum, að því er virðist.

Everton þarf eitt stig úr síðustu tveimur leikjum sínum til að tryggja Evrópubolta á næsta tímabili (Europa League) en síðasti leikurinn á tímabilinu er svo gegn Hull, sem þurfa líklega að hvíla sína menn fyrir úrslitin í FA bikarnum.

Líkurnar á sæti í Meistaradeildinni verða þó að teljast hverfandi eftir 3-0 sigur Arsenal á Newcastle í síðustu umferð en staðan í deild er eftirfarandi:

4. sæti: Arsenal 36 leikir, markatala +24, stig: 73
5 sæti: Everton 36 leikir, markatala +21, stig: 69

Leikirnir sem liðin eiga eftir eru:
Arsenal: West Brom (H), Norwich (Ú).
Everton: Man City (H), Hull (Ú).

Arsenal þarf ekki að vinna nema annan af þessum leikjum til að útilokað sé að Everton nái í Meistaradeildina. Og þó afrakstur Arsenal verði ekki nema tvö jafntefli þá þarf Everton að vinna báða sína leiki og þar dugar alls ekki 1-0 sigur Everton í hvorum leik því þeir þurfa að ná þremur mörkum í plús til að vera með jafn góða markatölu en Arsenal — því þá minnir mig að innbyrðis viðureignir gildi (ekki viss samt). En hvernig sem litið er á það — þetta er afskaplega veik von. Í raun er eini séns Everton að Arsenal nái í mesta lagi einu jafntefli úr sínum tveimur leikjum — en þá má samt ekkert út af bregða hjá Everton sem þarf eftir sem áður að vinna báða leikina sína.

Það vantar ansi marga úr aðalliði Everton fyrir leikinn við Manchester City. Mesta vesenið hefur verið á miðvarðaparinu okkar en Jagielka er búinn að vera lengi frá þó hann gæti kannski náð leiknum (verður líklega ryðgaður — hefur ekki einu sinni náð á bekkinn hingað til). Distin er jafnframt metinn tæpur (var upphaflega sagður frá út tímabilið). Baines var skipt út af gegn Southampton í síðasta leik vegna meiðsla og gæti misst af leiknum. Og eins og það væri ekki nóg — þá er miðjan einnig í nokkru veseni: Barry má ekki spila leikinn (lánsmaður frá City) sem hefði þýtt að hér væri gott tækifæri fyrir Gibson — en hann er náttúrulega búinn að vera frá nánast allt tímabilið og verður að teljast mjög ólíklegur, sem þýðir að Osman þarf að fylla í skarðið. Báðir fyrstu valkostir Everton á köntunum – Pienaar og Mirallas eru meiddir og taka ekki þátt. Og Lukaku í sókninni, sem kom sterkur inn eftir meiðsli (fimm mörk í sjö leikjum) hefur nú ekki skorað mark í fjórum leikjum í röð. Kannski vegna þess að Barkley hefur ekki alveg verið upp á sitt besta undanfarið. Mikið væri nú gott að hafa Kone eða Traore til að veita Lukaku samkeppni en þeir eru náttúrulega báðir meiddir líka. Nú gæti maður rifið í hár sér og hugsað um hvað það hefði verið gott að hafa þessa leikmenn alla heila í síðustu leikjum í baráttunni um Meistaradeildina — en, það þýðir ekki að hugsa of mikið um þá sem eru frá, skoðum hverjir eru heilir…

Líkleg uppstilling: Howard, Baines, Alcaraz, Stones, Coleman, McCarthy, Osman, McGeady, Deulofeu, Barkley og Lukaku. Það voru þrír svokallaðir „kjúklingar“ á bekknum í síðasta leik þannig að þetta verður væntanlega eitthvað skrautlegt. 🙂

Það þarf enn að minnsta kosti eitt stig og þýðir ekki að treysta á að ná því á útivelli gegn Hull — burtséð frá því hvort þeir hvíli eða ekki (vegna FA bikarsins).

Í öðrum fréttum er það helst að aðalfundur Everton var haldinn á dögunum og margt áhugavert sem þar kom fram en forstjórinn, Robert Elstone, fór yfir fjáhaginn og sagði að hann liti mjög vel út, ekki síst vegna nýrra reglna og samninga um sjónvarpsrétt sem gerði þeim auðveldara fyrir að reka félagið en áður. Einnig bar á góma plön um að byggja nýjan leikvang (innan borgarmarkanna) sem tekur 50 þúsund manns í sæti en BBC vildu meina að staðsetningin væri í Walton Hall Park, sem ætti vonandi að gefa stækkunarmöguleika í framtíðinni.

Af ungliðunum er það helst að Everton U18 gerði 2-2 jafntefli við Tottenham U18 á útivelli en Tottenham unnu suðurriðilinn og þetta var því ágætis æfing fyrir útsláttakeppnina. Mörk Everton skoruðu þeir Delial Brewster og Curtis Langton (úr víti).

14 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Vona að sjálfsögðu að við vinnum en spái jafntefli 2-2.
  Og þar sem það skiptir trúlega engu máli hvernig þessi leikur fer upp á baráttuna um fjórða sætið að gera, þá verð ég ekkert, af augljósum ástæðum, ofursvekktur þó við töpum.
  Ég las það sem Elstone sagði um nýjann leikvang á aðalfundinum. Held að hann eigi bjarta framtíð fyrir sér í stjórnmálum því aldrei áður hef ég séð mann nota svona mörg orð og segja nákvæmlega ekkert.
  Ég hef því miður enga trú á að Everton byggi nýjann leikvang í nánustu framtíð. Félagið hefur einfaldlega ekki pening í það og Liverpoolborg segist ekki geta fjármagnað það heldur. Þannig að það er ekkert að fara að gerast í þeim efnum held ég.

 2. Halli skrifar:

  Ég spáiþví að Jagielka spili þennan leik. Ég ætla að tippa á 1-1 og það verði Stones sem skori markið. Góða ferð og góða skemmtun ferðalangar sem eruð að fara á leikinn

 3. Finnur skrifar:

  Undarleg staða sem liðið er í núna… Sigur í leiknum á morgun þýðir að mjög svo veik von um sæti í Meistaradeild er enn á lífi. Jafntefli þýðir að Everton tryggir sér Europa league sæti á næsta ári og tap þýðir að City er í dauðafæri á að vinna deildina og hleypir þar með ekki Liverpool aftur í titilbáráttuna. Sá á kvölina sem á völina.

  Það væri enn undarlegra til þess að hugsa ef Everton hefði sigrað Southampton í síðasta leik 1-0 (með marki frá McCarthy, að sjálfsögðu!) og tapi leiknum á morgun með tveimur sjálfsmörkum frá varnarmönnum Everton. Yrði þá ekki allt brjálað í Liverpool borg?? 😀

 4. Ari G skrifar:

  Ég ætla að sleppa að spá úrslitum í þessum leik. Mér finnst ekki skipta máli hvort Everton lendi í 5 eða 6 sæti. Auðvitað gæti Arsenal tapað á morgun margt getur skeð. Hlakka bara til að sjá leikinn og ég mundi ekki vera mjög svekktur þótt Everton mundi tapa leiknum.

 5. Ari S skrifar:

  Þið eruð klikkaðir, enginn ykkar spáir Everton sigri…. er ekki í lagi með ykkur?

  Reiðilesturinn búinn 😉

  Ég spái mínum mönnum sigri í dag, sennilega verður það 2-1 með mörkum frá Barkley (bæði, takk fyrir)

  kær kveðja, Ari

 6. Ari S skrifar:

  West Ham er á góðri leið með að sigra Tottenham…. 2-0 sem að tryggir okkur 6 sætið. Er það ekki Evrópukeppni tryggð?

 7. Ari S skrifar:

  Everton í Evrópu! yess!

 8. Eiríkur skrifar:

  Held að 5 sætið sé í höfn, Man U. ekki að taka 9 stig í seinustu þrem, og eru enn undir gegn Sunderland.
  Held að við vinnum City í dag 3-2 í rosa leik.
  Góða skemmtun þið sem eruð svo lánsamir að vera á Goodison í dag.

 9. Finnur skrifar:

  Uppstillingin komin: http://everton.is/?p=7272

 10. Finnur skrifar:

  Og þá er það ljóst: Fimmta sætið er ekki í hættu. United og Tottenham geta, eftir að bæði lið töpuðu í dag, ekki komist upp fyrir Everton (nema Everton tapi síðustu tveimur leikjum sínum og fá í leiðinni á sig vel yfir 20 mörk). Það er ekki að fara að gerast.

  Þannig að: jafntefli er algjörlega óásættanleg niðurstaða, fyrir bæði lið — frekar að skora tvö sjálfsmörk en að enda með jafntefli, segi ég. 🙂

  Sigur eða tap það eina sem kemur til greina.

 11. Sigurbjörn skrifar:

  Ekkert annað en sigur kemur til greina. Ég hef á tilfinningunni að sigrar í tveimur síðustu leikjunum komi okkur í CL
  COYB !
  Ps. Mér gæti ekki verið meira sama um hvað sigur okkar manna gerir fyrir önnur lið í titilbaráttunni.

 12. Ari S skrifar:

  Þarna erum við sammála Sigur-björn!

  kær kveðja,

  Sigur-geir Ari

 13. Addi skrifar:

  Everton menn á Goodison í dag…. við heyrum ekkert í ykkur hérna heima. Hefði haldið að það vantaði einn tenór í raddirnar þannig að það heyrðist einhver hvatningarhróp :). Koma svo þið bláu………COYB. Held að við setjum tvö í viðbót… City ekkert 🙂