Everton – Man City 2-3

Mynd: Everton FC.

Þessi leikur skipti nokkuð miklu máli fyrir bæði lið — með sigri hefði Everton enn átt smá séns að taka Meistaradeildarsæti af Arsenal en að sama skapi þýddi sigur fyrir Man City að þeir væru enn í bullandi séns að vinna deildina því þessi leikur var almennt séð talinn erfiðasti leikurinn í því stutta prógrammi sem þeir eiga eftir. Liverpool menn fjölmenntu með okkur á Ölveri og studdu Everton því að málum — af einskærum náungakærleik náttúrulega, og bara gaman að því. Þrettán Íslendingar jafnframt á pöllunum á Goodison Park á vegum Everton klúbbsins okkar að styðja okkar menn.

Uppstilling Everton var nokkuð óvenjuleg þar sem nokkuð hefur verið um meiðsli þannig að nokkra fastamenn vantaði (Pienaar, Barry, Mirallas til dæmis) en Martinez ákvað að spila með þrjá miðverði og færa bakverðina framar á völlinn. Jagielka, sem hefur nú í nokkuð margar vikur verið aaaaalveg að koma aftur — sást loksins á velli… en entist þó ekki í fullan leik og virkaði nokkuð ryðgaður í leiknum. Uppstillingin: Howard, Baines, Stones, Jagielka, Alcaraz, Coleman, McCarthy, Osman, Barkley, Naismith, Lukaku. Bekkurinn: Robles, Hibbert, McGeady, Deulofeu, Distin, Garbutt og Ledson.

Leikurinn var í járnum framan af og lítið um færi þannig að fyrsti boltinn sem rataði á markið var skalli City manns úr horni á 8. mínútu sem fór beint á Howard, ef ég man rétt. Engin hætta. En aðeins þremur mínútum síðar tók Barkley sig til og setti þetta líka glæsimarkið í andlitið á þeim. Smellhitti boltann utan teigs eftir sendingu frá Naismith — boltinn fór í sveig yfir Joe Hart í markinu — óverjandi. Staðan 1-0 fyrir Everton.

En City svaraði með tveimur mörkum sem bæði skrifuðust á slakan varnarleik Everton manna. Fyrst jafnaði Kun Aguero á 21 mínútu, Alcaraz seldi sig í að reyna að ná til knattarins sem leyfði Toure að setja Aguero inn fyrir hægra megin og setja boltann framhjá Howard án þess að Alcaraz kæmi vörnum við. Aguero meiddist í skotinu og fór út af fyrir Fernandinho. Síðan kom Dzeko City yfir á 43. mínútu – einfalt mark, fyrirgjöf frá hægri, Dzeko gjörsamlega óvaldaður og skallaði boltann út við hægri stöngina og inn. Óverjandi fyrir Howard.

Lukaku fékk gott tækifæri til að jafna rétt fyrir lok hálfleiks, eftir sendingu inn í teig frá Coleman, en skaut hátt yfir. Illa farið með gott færi. Staðan 1-2 í hálfleik fyrir City.

Everton byrjaði seinni hálfleik með látum þegar Barkley spratt fram í skyndisókn, setti Naismith laglega inn fyrir vörnina einan á móti markverði en Hart reddaði City með algerlega frábærri markvörslu. Boltinn var á leið í netið (hliðarnetið innanvert) en Hart sýndi snilli sína með því að ná að koma fingurgómunum í boltann og stýra honum röngu megin við stöngina.

Hér hefði staðan átt að vera 2-2 en City menn refsuðu Everton strax í staðinn — með alltof einföldum hætti: Nasri með fyrirgjöf frá vinstri, beint á Dzeko sem potaði inn. Staðan 1-3 fyrir City.

Lukaku setti reyndar smá spennu í leikinn á 65. mínútu þegar hann skallaði glæsilega fyrirgjöf frá Baines af vinstri kanti í nærstöng og inn. Staðan 2-3. Smá séns kominn aftur á að vinna leikinn — en jafnframt mikil hætta á að ná bara að jafna og eyða möguleikum beggja liða á nokkrum sköpuðum hlut. Undarleg staða til að vera í…

Yaya Toure skipt út af og Kolorov inn á og Everton svaraði með að kippa Jagielka út af fyrir Deulofeu. Hér undruðumst við að Alcaraz væri ekki kippt út af en sá virkaði svolítið sem tifandi tímasprengju með vafasömum sendingum, útsölum í vörninni (jöfnunarmark City) og skort á einbeitingu (dekkaði ekki Dzeko í jöfnunarmarkinu). Það segir ákveðna sögu að Liverpool mennirnir vildu skipta honum út af sökum þess að vera byrði í leiknum en þeir eru ýmsu vanir í sirkusatriðum í varnarleik sínum. 🙂

Zabaleto komst stuttu síðar einn inn á móti Howard en Naismith náði að trufla hann nóg og Howard sá um rest. Hélt okkar mönnum inni í leiknum. Staðan hefði líklega átt að vera 2-4 á þeim tímapunkti.

Silva inn fyrir Nasri á 73. mínútu og Osman út fyrir McGeady á 82. mínútu (en ekki fyrr en Dzeko hafði legið lengi vel í grasinu fyrir það eitt að hafa hrasað — og uppskar gult fyrir). Liverpool mennirnir í salnum alveg brjálaðir yfir leikaraskap og töfum Dzeko. Aldrei upplifað annað eins greinilega (#hóst# Suarez #hóst#)! 🙂

Rétt rúmlega 6 mínútum bætt við vegna skiptinga og tafa en Everton náði ekki að ógna marki City almennilega — fyrir utan þegar Barkley þræddi sig framhjá nokkrum varnarmönnum og komst upp að endamarki hægra megin — en náði ekki almennilegu skoti á mark (blokkerað). Deulofeu tók upp kyndilinn og komst einnig framhjá nokkrum varnarmönnum og upp að marki hægra megin en Hart varði skotið vel í horn. Það reyndist síðasta almennilega færi Everton og þar með sæti í Meistaradeildinni úr sögunni í ár — nema City verði dæmt úr leik (í Champions League) fyrir að hafa brotið financial fair play (FFP) reglur á tímabilinu, en það er ekki að fara að gerast.

Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Baines 7, Jagielka 7, Alcaraz 6, Stones 6, Coleman 6, McCarthy 6, Osman 7, Barkley 8, Naismith 7, Lukaku 7. Varamenn: McGeady 6, Deulofeu. City menn áttu góðan leik og fengu fínar einkunnir, Hart í markinu með 9, fjórir aðrir með 8, fjórir með 7 og aðeins tveir í byrjunarliðiðnu með 6. Finnst reyndar mætti hliðra til einkunnum Everton manna í leiknum því Stones, Coleman og McCarthy hefðu átt 7 en ekki 6 skilið og Alcaraz, Osman og Jagielka í staðinn kannski átt skilið einum minna en þeir fengu. Hvað um það.

Tapið gegn City þýðir tvennt: Annars vegar á Everton ekki lengur möguleika á að ná fjórða sætinu af Arsenal (ekki einu sinni stjarnfræðilega möguleika) og Man City eru nú algjörlega í bílstjórasætinu þegar kemur að því að landa bikarnum fyrir að vinna deildina. Þeir eiga tvo leiki eftir — báða við lið sem eru búin að tryggja sér áframhaldandi veru í Úrvalsdeildinni og tímabilið því búið hvað þau lið varðar. Nú er bara að sjá hvort þeir höndli álagið (að vera með pálmann í höndunum). Spennan er ekki búin.

12 Athugasemdir

  1. Ari G skrifar:

    Hræðilegur varnarleikur hjá Everton í leiknum Barkley yfirburðaleikmaður Everton aðrir langt frá sínu besta. Áhugi Evertonmanna fannst mér ekki vera nægur nema fyrstu 20 mínuturnar. 5 sætið öruggt ekki slæmur árangur. Mér er alveg sama þótt ég segir hreint út ég vill alls ekki að Liverpool verði Englandsmeistari og þá er betra að tapa leiknum en að gera jafntefli að vinna hann er annað mál þá hefðum við átt smá sjens á 4 sætinu.

  2. Halli skrifar:

    Allt þetta dæmi um hvort Liverpool verði eða verði ekki meistarar komi til með að velta á þessum leik er bull. Mér fannst Everton liðið ekki spila illa í dag fyrir utan 10 mín seint í fyrri hálfleik en stærsta atriði leiksins er þegar Hart ver frá Naismith og City menn fara beint upp og skora á okkur 3. markið. Það að horfa á verðandi meistara nota hvert tækifæri til að tefja leikinn og bíða eftir að leiktíminn renni út er dæmi um að menn séu hræddir og er það gott fyrir okkur. Ég hefði viljað sjá breytingarnar fyrr í leiknum sérstaklega hefði ég viljað fá McGeady fyrr inn. Mér fannst opnast vel á vinstri vængnum með honum. Mér fannst liðið sakna Barry mikið og Jesús hvað Alcaras var slakur en erum við ekki bara góðir í 5 sæti og öruggir í Evrópukeppni. Hverjir eru með í ferð í haust? Frá miðvikudegi — evrópuleikur á fimmtudegi og deildarleikur á sunnudegi, heim á mánudegi. Ég er klár.

  3. Teddi skrifar:

    Í varaliðið með þennan Alcaraz, vinir hans í heimalandinu að raka inn seðlum í veðmálabraski. Einar(frændi minn) sagði það og hann lýgur aldrei. 🙂

  4. Bjarni Hjartarson skrifar:

    Sælir Evertonmenn nær og fjær og allan pakkann. Eins og gefur að skilja er ég sem Liverpoolmaður til 50 ára (54) svekktur með þessi úrslit. Hver einasti leikmaður Everton gaf sig 110% í leikinn. Hver einasti stuðningsmaður Everton gaf sig – 110%. Skömm kallarnir mínir.

    • Ingvar Bæringsson skrifar:

      Þađ er alltaf allt öđrum ađ kenna er Þađ ekki ☺

    • Daníel skrifar:

      Mér fannst leikmenn Everton bara gefa allt í þetta sem þeir gátu, litu bara mjög vel út. City er bara með svakalega sterkan hóp eins og allir vita. Skömm ertu að grínast? Ekki hægt að kenna öðrum liðum um ef þið vinnið ekki titilinn. Alveg óþolandi þegar poolarar eru að skammast í Everton að hafa ekki unnið sterkasta liðið í deildinni. Varðandi stuðningsmennina það heyrðist nú alveg í þeim, og ef þeim langar ekki að nágrannar sínir vinni titilinn hvað með það? held að það sé bara eðlilegt 😉

  5. Ari G skrifar:

    Ég vill að Everton stækki hópinn næsta vetur. Þótt ég hafi gagnrýnt leik Everton í gær efast ég samt aldrei að leikmenn leggi sig alltaf 100% í alla leiki en samt geta maður ekki ætlast til að Everton spili alltaf frábærlega. Alcaraz er greinilega ekki nógu góður fyrir Everton og Everton þarf greinilega að stækka hópinn og losa sig við þá sem standa ekki undir væntingum til að Everton nái að keppa um topp 4 næsta vetur sem ég efast ekki um að Everton geri. Besta lið Everton síðustu ca 30 ár allavega það skemmtilegasta mín skoðun. Bjarni þú ættir fyrst horfa á þína stuðningsmenn áður en þú ferð að gagnrýna stuðningsmenn Everton. Hvenar hafa stuðningsmenn Liverpool margir allavega talað vel um Everton man ekki eftir því. Liverpool eiga hætta að treysta á önnur lið til að vinna titla liðin eiga að vinna titla án þess að ætlast til að önnur lið hjálpi þeim

  6. Finnur skrifar:

    Kommentið frá Bjarna má lesa á tvo vegu, sem bæði gagnrýni og hrós. Ég er ekki viss um að það hafi verið ætlunin hjá honum… (ég allavega tók þau sem hrósi) 🙂

  7. Sigurbjörn skrifar:

    Ég gat ekki betur séð en að okkar menn legðu sig 100% fram í þessum leik og töpuðu honum frekar ósanngjarnt að mínu mati. Vandamálið var bara varnarleikurinn þar sem við gátum ekki stillt upp okkar sterkustu vörn, Jagielka var að spila sinn fyrsta leik í tvo mánuði og Alcaras því miður ekki nægilega góður til að fylla skarð Distin.
    Skil ekki alveg kommentið frá Bjarna, ef hann er að meina að menn hafi ekki lagt sig fram um að vinna þennan leik þá væri væntanlega hægt væri að segja það sama um útileikinn á móti Liverpool. Málið var bara að þá vorum við í sömu meiðslavandræðum með vörnina þar sem hvorki Colemann né Distin voru með og því fór sem fór í þeim leik eins og í leiknum í gær.

  8. Finnur skrifar:

    Barkley valinn í liði vikunnar að mati BBC:
    http://m.bbc.com/sport/football/27275792
    (sem og Joe Hart og að því er virðist nánast hálft lið City…)

  9. Finnur skrifar:

    Ég veit ekki með ykkur en ég er alveg sæmilega sáttur við að sjá Sunderland — sem hefur gegnum tíðina verið nokkuð áreiðanlegt fallbyssufóður Everton — bjarga sér á ótrúlegan hátt í lokin á kostnað Norwich, sem hefur fyrir einhverjar sakir reynst Everton nokkuð erfiður ljár í þúfu undanfarin tímabil með t.d. hundleiðinlegum jafnteflisleikjum. Reyndar hefur Norwich reynst fleirum liðum í topp 10 erfitt (að Liverpool undanskildum því þeir voru í áskrift að 6 stigum gegn þeim og allavega um +5 í markatölu per season, en nú er það búið).