Mynd: FBÞ.
Uppfærsla: Lokað hefur verið fyrir skráningu. 13 Íslendingar verða á pöllunum á vegum klúbbsins!
Everton á Íslandi stendur fyrir Íslendingaferð á Goodison Park í maí og þér býðst nú að upplifa það með okkur! Síðasta ferð (á Tottenham leikinn í nóvember síðastliðnum) þótti mjög vel heppnuð og þessi verður örugglega ekki síðri, en nú er ætlunin að sjá Everton taka hressilega á móti Manchester City. Þeir hafa síður en svo notið heimsókna sinna á Goodison Park undanfarin ár, eins og árangur þeirra sýnir: aðeins einn sigur í síðustu 15 tilraunum (frá ágúst 1993) og Everton unnið síðustu fjóra leiki í röð með markatölunni 7-1. Þetta er síðasti heimaleikur Everton á tímabilinu en alltaf skapast mjög sérstök stemming á þeim leikjum. Til dæmis taka leikmenn Everton hringinn með börnum sínum og þakka áhorfendum fyrir stuðninginn á tímabilinu.
Smáatriðin varðandi ferðina eru eftirfarandi:
Flug: Um er að ræða beint flug fram og til baka frá Keflavík til Manchester með Icelandair. Flogið verður út 2. maí 2014 (sem er föstudagur) kl. 8:00 og heim aftur þann 5. maí 2014 kl. 13:25 (mánudagur).
Gisting: Þrjár nætur á Jury’s Inn hótelinu í Liverpool (sjá á Google Maps), sem ætti okkur að vera að góðu kunnugt. Morgunmatur er innifalinn í verðinu en gera má ráð fyrir að tveir deili saman herbergi. Klúbburinn aðstoðar staka herbergisfélaga að sameinast um herbergi ef þess er óskað en að sjálfsögðu er einnig er hægt vera stakur/stök í herbergi (en þá er greitt aukalega).
Leikdagur: Leikurinn er settur á laugardag þann 3. maí kl. 14:00 16:30 (að íslenskum tíma). Ef fólk vill taka aukaleik (ath: slíkt er ekki innifalið í verði) gæti verið möguleiki að sjá annan leik ef dagskráin reynist hliðholl. Eins og er lítur út fyrir að þessi Úrvalsdeildarlið eigi leik í nágrenninu í umferðinni: Aston Villa vs Hull, Man Utd vs Sunderland og Stoke vs Fulham.
Verð: Heildarverð fyrir þennan pakka er 99.500.- kr. og er innifalið í því beint flug til Manchester, gisting í þrjár nætur á hóteli (plús morgunmatur) og miði á leikinn. Til samanburðar má geta þess að stuðningsmenn litla bróður rukkuðu heilar 150 þúsund krónur fyrir sína febrúarferð (kop.is í samvinnu við Úrval Útsýn). Ath: Ef óskað er þess að hafa engan herbergisfélaga kostar ferðin 129.500.- kr.
Staðfesting: Ferðaskrifstofan Vita Sport sjá um bókanir í síma 570-4472 eða á tonsport@vita.is og þarf að bóka strax. Pöntun telst svo staðfest við greiðslu 40.000.- staðfestingargjalds.
Skráningarfrestur: Skráningu lýkur 4. apríl Athugið að það er takmarkað sætaframboð í þessa ferð þannig að ekki bíða með að panta. Látið okkur vita ef þið eruð að hugsa um að fara en eruð ekki búin að ákveða.
Svo má að sjálsögðu einnig hafa samband við okkur ef einhverjar spurningar koma upp.
Við viljum endilega sjá sem allra flest ykkar með í för þannig að ekki hika við að skrá ykkur.
Sælir ég og Róbert erum búnir að staðfesta ferðina.
þetta verður bara gaman.
kv.Eyþór.
er Mcdonalds í nágrenni við Jurys Inn, bara að spá fyrir strákinn 🙂
sæll það er alveg hægt að finna Mcdonalds í nágreninu svo sumir þurfa ekki að svelta.
Glæsilegt. Gunnþór og einn til ætla að panta á mánudaginn.
Strákar og stelpur koma svo þetta er það skemmtilegasta sem menn og konur gera, enginn peningur fyrir svona ferð,bóka strax eftir helgi. Sól,bjór og fótbolti hvað er hægt að hafa það betra?
ég hálfvitaðist til að bóka golfferð til Spánar 29. apríl til 13. maí þannig að ég verð bara með ykkur í anda 🙂 En ég veit að þið skemmtið ykkur snillingar 🙂 Góða ferð ÖLL:)
Ég er eins og Diddi að fara í golfferð 30 apríl til 10 maí.En vonandi verður þetta flottur túr.
Er virkilega að hugsa um að fara, hef aldrei farið í ferð með klúbbnum en hef aðeins einu sinni áður farið á Goodison Park! Mér sýnist á commentunum hérna að það mæli allir með þessu!
Búinn að panta ferð fyrir mig og konuna. Ætla að bjóða henni í „rómantíska“ helgarferð til Liverpool og kynna hana fyrir Goodison Park.
Fór síðast á Goodison 2004, og þar áður 1996, þannig að það er kominn tími á að fara aftur.
Það er eins með mig og Kolbein, er búinn að panta „rómantíska“ ferð fyrir mig og konuna. Þetta verður eitthvað!
Það eru 13 skráð í ferðina. Vel gert.
Endanlega tala verður ljós á morgun þegar skráningarfresturinn rennur endanlega út! 🙂