Greiðslugjafir og vinningshafar

Mynd: Everton FC.

Það er okkur hjá Everton á Íslandi mikið gleðiefni að tilkynna að í gær fóru í póst greiðslugjafir til félagsmanna sem greiddu félagsgjöld (og meðlima undir 18 ára aldri). Gjafirnar eru aðeins smávægilegur þakklætisvottur fyrir að borga félagsgjöldin fyrir tímabilið 2013/14 en svörun félagsmanna var, líkt og í fyrra, mjög góð og fór aftur fram úr björtustu vonum stjórnar. Kunnum við ykkur allra bestu þakkir fyrir! Það er frábært að sjá stuðning ykkar í verki því án ykkar framlags væri ekkert stuðningsmannafélag Everton á Íslandi. Gjafirnar ættu að berast innan tíðar en ef þið hafið einhverjar athugasemdir varðandi gjafirnar (jákvæðar og/eða neikvæðar) þá endilega hafið samband!

Að auki stóð Everton á Íslandi einnig, eins og fram hefur komið, fyrir smávægilegu happdrætti, svona rétt til gamans, til að hvetja félagsmenn til að greiða félagsgjöld og voru allir félagsmenn sem greiddu félagsgjöld (tímabilið 2013/14) fyrir 5. desember sjálfkrafa með í pottinum. Búið er að draga og vinningshafar eru eftirfarandi…

Fyrsti vinningur kom í hlut Halldórs Steinars Sigurðssonar sem fékk að launum Everton flipahnappa (e. cufflinks), Everton músamottu og Dixie Dean veggskilti (e. Statue Sign) sem útlistar helstu afrek eins merkasta framherja Everton (og Evrópu) fyrr og síðar.

Annað sætið kom í hlut Helga Hlyns Ásgrímssonar sem fær að launum Everton Gel Cling (Everton merki til að líma á rúðu) og ca. 30 stykki af Everton merktum golf-tíum.

Halldór tók á móti sínum verðlaunum á Ölveri við mjög svo formlega athöfn en verðlaun Helga verða póstlögð bráðlega. Klúbburinn óskar vinningshöfum til hamingju með vinningana og þakkar félagsmönnum öllum hjartanlega fyrir frábæran stuðning síðastliðin tvö tímabil.

Ýmislegt er í farvatninu hjá klúbbnum hér heima, eins og ferð í keilu með félagsmönnum (nánar auglýst síðar) og verið er að skipuleggja aðra ferð á Goodison — í þetta skiptið á síðasta heimaleik Everton í deildinni, gegn Man City þann 3. maí. Þau ykkar sem hafa hug á að mæta í þá ferð er bent á að hafa samband við Vita Sport. Stjórnin hefur einnig náð samningum við ýmis fyrirtæki um afslátt til handa félagsmönnum afslátt til handa félagsmönnum. Hvetjum við ykkur til að nýta ykkur hann og ef þið vitið um fleiri fyrirtæki sem vilja vera með þá endilega hafið samband. Þess ber jafnframt að geta að skírteinin sem send voru út í síðasta pósti gilda fram að næsta tímabili í ensku Úrvalsdeildinni og búið er að prenta út skírteini fyrir þau ykkar sem borguðu eftir að þau skírteini voru prentuð út (fara brátt í póst). Ef spurningar vakna varðandi eitthvað hér að ofan, hafið þá endilega samband.

Áfram Everton!

7 Athugasemdir

 1. Ari S skrifar:

  Flott mál og vel gert hjá ykkur félagar 🙂

 2. Helgi Hlynur skrifar:

  Takk 🙂

 3. Einar G skrifar:

  Snillingar 😉

 4. Elvar Örn skrifar:

  Brilliant gjafir félagar

 5. Orri skrifar:

  Þetta er flott framtak hjá ykkur félagar.

 6. Diddi skrifar:

  Takk fyrir mig og mína, dóttir mín hefur líka fengið þessar gjafir frá félaginu en ég veit ekki til þess að hún greiði árgjald, en setjið hana endilega á greiðsluplanið næst 🙂

 7. Finnur skrifar:

  Við höfum haft það fyrir reglu á okkar stjórnartímabili (síðastliðin tvö ár) að gefa skráðum félagsmönnum undir 18 ára gjafir þó ekki berist greiðsla frá þeim (sumir borga fyrir börnin).

  En það gleður okkur mikið að þið séuð ánægð með gjafirnar. Maður veit aldrei hvernig þetta mælist fyrir hjá fólki.