Everton vs. Cardiff

Mynd: Everton FC.

Minnum á Íslendingaferðina á Goodison á vegum klúbbsins í maí! Endilega kíkið með!

Næsti leikur er við Cardiff á heimavelli á laugardaginn kl. 15:00. Það er enn heilmikið að spila upp á; 11 leikir eftir af tímabilinu (en 10 eða jafnvel 9 hjá nær öllum liðunum í efri helmingnum) og því Everton með 3-6 fleiri stigum upp á að spila en liðin í samkeppni um Evrópusætin. Ef Everton væri á þessum tímapunkti búið að vinna þessa tvo leiki sem frestuðust væri liðið í 5. sæti með aðeins þrjú stig í 4. sætið og fimm stig í 2. og 3. sætið. Þetta er því engan veginn búið en geta má þess að þar sem Man City vann deildarbikarinn gefur 6. sætið í deild Evrópusæti á næsta tímabili. Það er þó ekki eina markmiðið eins og Martinez benti á á dögunum heldur verður lögð áhersla á að enda eins hátt og hægt er, helst í efstu fjórum sætunum. Og það eru nokkrir lykilleikir framundan í því samhengi, til dæmis leikurinn við Cardiff.

Þetta er í fyrsta skipti sem Cardiff mætir á Goodison Park síðan í apríl 1962 þegar Everton sendi þá heim stigalausa úr þeirri viðureign eftir að hafa sett boltann átta sinum í netið hjá þeim (unnu leikinn 8-3). Það þarf jafnframt að fara alla leiðina aftur til desember 1926 til að finna síðasta sigur Cardiff á útivelli gegn Everton (0-1).

Gengi Cardiff í deildinni hefur verið mjög slakt en þeir sitja núna í fallsæti eftir að hafa — nánast undantekningarlaust — unnið aðeins einn leik á mánuði síðan tímabilið hófst. Undantekningin frá þeirri reglu var október þar sem þeir spiluðu aðeins þrjá leiki og unnu engan. Þeir virðast jafnframt hafa klárað sigurleik sinn í mánuðinum með 3-1 sigri gegn botnliði Fulham í síðasta leik þannig að Everton vegna vonar maður að þeir haldi áfram á sömu braut hvað það varðar.

Þetta verður þó erfiður leikur enda Cardiff að berjast fyrir lífi sínu í Úrvalsdeildinni og ekkert gefið þar. Everton náði að vængstýfa þá í útileiknum þar sem Cardiff náði aðeins einu skoti á mark en á móti kom að erfiðlega gekk að skora hinum megin og tryggja stigin þrjú og leikurinn endaði því markalaus. Við skulum vona að annað verði uppi á teningnum um helgina.

Kone, Gibson, Oviedo og Traore eru allir frá, eins og við vitum. Pienaar og Jagielka verða metnir á leikdegi en það hljómaði eins og Jagielka ætti mun meiri séns en Pienaar þó að Martinez sagði að hann myndi fara sér í engu óðslega hvað það varðar. Líklegt byrjunarlið: Howard, Baines, Distin, Stones, Coleman, Osman, Barry, McCarthy, Mirallas, Barkley og Lukaku.

Áður en við víkjum að fréttum liðinnar viku er rétt að minnast á ungliðana en lánið á miðjumanninum Lundstram hjá Yeovil var afturkallað á dögunum og hann heldur því til liðs við U21 árs lið Everton aftur.

Everton U18 ára tapaði í 8 liða úrslitum FA Youth bikarsins, fyrir Arsenal á Emirates, líkt og aðalliðið. Leikurinn fór 3-1 (sjá vídeó) og skoraði Joe Williams mark Everton. U18 ára liðið er þó enn í baráttunni í deildinni, eru í öðru sæti á eftir Man City U18 sem eru með tveimur fleiri stigum.

En rennum aðeins hratt yfir nokkrar hraðsoðnar fréttir vikunnar:

– Gareth Barry var á dögunum valinn leikmaður febrúarmánaðar.
– Klúbburinn tilkynnti um Everton YouTube rás þar sem stuttu útgáfur helstu leikatvika úr Úrvalsdeildarleikjum Everton verða sýndar. Löngu útgáfurnar (20 mín) verða eftir sem áður aðgengilegar ókeypis á Everton TV.
– Sögusagnir eru uppi um að Rodwell sé á leið aftur til Everton, en dvöl hans hjá Man City er að leysast upp í martröð fyrir hann. Skrái þetta undir sé-það-ekki-gerast-en-aldrei-að-vita.
– Martinez blés á sögusagnir um að Deulofeu hefði sagst vilja burtu frá Everton í lok tímabils og sagði að tilvitnanir í Deulofeu hefðu verið slitnar úr samhengi. Þvert á móti, Martinez vonast eftir að halda honum og sagðist þurfa að styrkja liðið enn frekar ef markmið Everton að spila í Evrópu á næsta tímabili gengi eftir.
– Roy Keane kvartaði undan því eftir tapið í bikarleiknum að Everton væri að spila of opinn bolta undir stjórn Martinez en sá síðarnefni lá ekki á svörum.
– Og Naismith hafði ýmislegt gott að segja um bæði Duncan Ferguson og Martinez.

Og að lokum má geta þess að NSNO síðan birti stutta en góða grein um fyrsta tímabil Everton undir stjórn Martinez. Góð lesning þar á ferðinni.

Cardiff á laugardaginn. Ykkar spá? Sammála uppstillingunni?

6 Athugasemdir

 1. Halli skrifar:

  Í uppstillingunni væri ég til í að fá Delufeu í stað Osman í byrjunarliðið. Ég spái 2-0 Mirallas og Lukaku skora. Það verða eitthvað yfir 20 Íslendingar á leiknum gaman að því.

 2. Gunnþór skrifar:

  Sammála Halla. Svo er bara að drífa sig að fara bóka sig í félagsferðina í byrjun mai. Enn og aftur SÓL, BJÓR, FÓTBOLTI, BLANDA SEM KLIKKAR ALDREI.

 3. Kiddi skrifar:

  Geri eina breytingu á liðinu

  Howard, Baines, Distin, Stones, Coleman, Osman, Barry, McCarthy, Mirallas, Naismith og Lukaku.

  Það er mín spá að þetta verði mikill markaleikur og fyrri hálfleikur hin mesta skemmtun, 5-0 öll mörkin skoruð í fyrri hálfleik…. Mætum snemma í Ölver 🙂

 4. Elvar Örn skrifar:

  Deulofeu byrjar og Barkley á bekknum, áhugavert. Jagielka er ekki í hóp svo Stones stendur vörnina með Distin.

 5. Finnur skrifar:

  Mikið rétt, Elvar. Uppstillingin og bekkurinn hér:
  http://everton.is/?p=6981

 6. þorri skrifar:

  Sælir félagar, þetta var góður leikur af okkar hálfu. Mér fanst rangt að taka Deulofeu útaf mér fannst hann standa sig vel. Liðið var í heildina gott. Nú eigum við mjög góða möguleika á að taka 4. sætið en til þess verðum við að vinna nokkra leiki. Þessi 19 ára gutti hann Stones var frábær í vörninni í dag og Distin líka. Heildina litið var liðið mjög gott kv Þorri