Arsenal – Everton (FA bikar) 4-1

Mynd: Everton FC.

Bikarævintýri Everton í ár lauk í átta liða úrslitum gegn Arsenal á útivelli en Arsenal sigraði 4-1, en lokatölurnar gefa alls ekki rétta mynd af frammistöðu liðanna. Því þó Everton hafi ekki náð sömu hæðum á Emirates og í fyrra höfðu Everton menn í fullu tré við Arsenal fram yfir 80. mínútu og fengu mörg góð færi til að vinna leikinn.

Uppstillingin fyrir leikinn: Robles, Baines (fyrirliði), Distin, Stones, Coleman, Pienaar, Barry, McCarthy, Mirallas, Barkley, Lukaku. Varamenn: Howard, Hibbert, McGeady, Osman, Deulofeu, Naismith, Browning.

Landsliðsmiðvörður okkar, Jagielka, frá og Robles var valinn fram yfir Howard og greinilegt að samningur hafði verið gerður um að Robles tæki bikarkeppnina en Howard deildarleiki. Robles hefur virkað nokkuð sannfærandi í keppninni hingað til og hafði fyrir þennan leik aldrei tapað bikarleik á enskri grundu, sagði einhver, en hann varð bikarmeistari með Wigan í fyrra.

Leikurinn fór rólega af stað, fyrstu fimm mínúturnar allavega en Arsenal menn pressuðu vel á vörnina hjá Everton, greinilega til að reyna að brjóta upp spilið hjá Everton. Everton virtust þó ætla að komast betur í takt við leikinn en Arsenal á upphafsmínútunum og setja pressu á Arsenal. Lukaku komst til dæmis í hálffæri en ekkert varð úr því. En svo kom bakslag þegar Özil skoraði í fyrstu atlögu Arsenal að marki. McCarthy hrasaði og náði ekki til bolta sem barst til Cazorla sem átti sendingu upp völlinn vinstra megin þar sem Özil var mættur og brást ekki bogalistin. 1-0 fyrir Arsenal eftir aðeins 6 mínútur.

Markið sló Everton svolítið út af laginu og Arsenal menn gengu á lagið og náðu tveimur flottum skotum á Robles sem varði í horn. Robles virkaði stressaður eftir markið og virtist eiga í erfiðleikum með að grípa bolta undir lítilli pressu í kjölfarið og á einum tímapunkti reyndi hann að hreinsa fyrirgjöf í horn en sló boltann í slána og yfir. Ekki alveg nógu sannfærandi.

Pienaar var næstum því búinn að svara markinu strax á 10. mínútu þegar hann komst í dauðafæri innan teigs, rétt fyrir framan markið, eftir fyrirgjöf Mirallas en skot hans slakt og vel framhjá.

Jöfnunarmark Everton kom á 31. mínútu upp úr því að Arteta reyndi skot á mark Everton sem var blokkerað af McCarthy, að mig minnir. Boltinn barst til Barkley sem tók á sprettinn upp allan völlinn og gaf frábæra sendingu fyrir sem Mirallas reyndi að koma á markið. Skot hans reyndist þó arfaslakt en það kom ekki að sök því Lukaku var mættur og sópaði boltann inn fyrir marklínuna (sjá mynd). Staðan orðin 1-1 á 31. mínútu og mun léttara yfir manni. Sálfræðilega mjög sterkt að ná að jafna á útivelli.

Robles átti flotta markvörslu í horn stuttu síðar og Everton svaraði með stungusendingu frá Lukaku inn í teig á Mirallas, sem aftur átti slakt skot að marki beint á Fabianski í markinu, sem varði auðveldlega.

Rétt undir lok hálfleiks misstu leikmenn Arsenal boltann skyndilega í miðri sókn á miðjunni og boltinn barst til Lukaku sem brunaði í sókn. Everton komnir í bullandi skyndisókn 3 á móti tveimur og Lukaku hafði gott ef ekki bara tvo möguleika til að senda á mann í betra færi en hann sjálfur var í, en ekki gerði hann það. Chamberlain kom svo á sprettinum og náði glæsilegri skriðtæklingu inni í teig sem reddaði Arsenal. Þar hefði Lukaku átt að gera mun betur og Arsenal menn hefðu þá ekki getað kvartað yfir því að lenda undir.

En, 1-1 í hálfleik, sem ef hefði verið lokatölur leiksins, hefði gefið okkur endurtekinn leik — á heimavelli Everton.

Eftir nokkurra mínútna leik í seinni hálfleik komst Lukaku aftur óvænt í skyndisókn þegar hann pressar á varnarmann Arsenal sem fipast (án snertingar frá Lukaku) og rennur til á grasinu út við hliðarlínu. Lukaku þakkaði fyrir sig með því að taka lausa boltann og spretta inn í teig hægra megin þar sem hann gaf flotta sendingu til hliðar og svolítið aftur á Barkley sem kom á hlaupinu og þrumaði að marki úr algjöru dauðafæri. En, því miður skaut Barkley rétt yfir markið og hefði átt að gera mun betur. Hér hefði Barkley klárlega átt að skora. Tvö góð færi farin forgörðum með stuttu millibili.

Arsenal svöruðu með skoti frá Cazorla á fjærstöng innan teigs en Robles varði vel. Liðin áttu eitthvað af hálffærum í kjölfarið, en ekkert sem vert er að minnast á.

En síðan dundi ógæfan yfir okkur á 66. mínútu. Fram að því hafði Everton skapað ágæt færi og varist vel og virtust ætla að höndla pressuna ágætlega. Eða alveg þangað til Barry felldi Chamberlain inni í teig og Clattenburg dæmir réttilega vítaspyrnu. Arteta stígur upp að punktinum, sendir Robles í rangt horn og skorar auðveldlega vinstra megin. Nema hvað, Clattenburg sá — og þorði að dæmi að spyrnan skyldi endurtekin — þar sem leikmaður Arsenal var kominn inn í teig þegar Arteta spyrnti. Allt of oft hefur maður séð dómarana sleppa því að dæma á þetta. Arteta þurfti því að taka spyrnuna aftur, og tók hana í þetta skipti ofarlega í hægra hornið.  Robles giskaði í rétta átt í þetta skiptið og var bara aðeins of neðarlega til að verja. 2-1 fyrir Arsenal.

Barkley átti flott skot á 74. mínútu sem fór rétt framhjá en svo skipti Martinez þeim Osman og McGeady inn á fyrir Mirallas og Pienaar en sá síðarnefndi meiddist í einhverri tæklingunni stuttu áður og lítið hafði komið frá Mirallas. Það hefur þó loðað við Everton liðið undanfarna leiki að lítið hefur komið út úr skiptingunum og þessi leikur var engin undantekning.

Það var hins vegar skiptingin á Giroud hjá Arsenal sem átti eftir að gera útslagið því hann skoraði á 82. mínútu. Markið kom eftir stutta fyrirgjöf frá hægri og skrifast á Barry sem hvorki mætti manni með bolta né dekkaði valkosti hans í sendingu (Giroud dauðafrír). Tvö mistök frá Barry í röð sem kosta mark og rifjaðist þá upp fyrir mér að hann var líka næstum búinn að fá rautt gegn West Ham snemma í síðasta leik. 3-1 fyrir Arsenal.

Martinez skipti Deulofeu inn fyrir Barkley um leið og Arsenal skoraði og blés til stórsóknar til að freista þess að ná einhverju úr leiknum, þó það gæti þýtt að Everton fengi fleiri mörk á sig. Deulofeu átti tvær sóknir sem enduðu með því að hann ofreyndi „skærin“ á varnarmann Arsenal og tapaði boltanum. Seinna skiptið var sýnu verra því Arsenal náðu flottri skyndisókn (Everton vörnina fáliðuð þar sem bullandi sókn hafði verið í gangi) og endaði skyndisókn Arsenal með marki, aftur frá Giroud. Staðan orðin 4-1 og ljóst að þetta væri búið spil.

Þulurinn sagði að markatalan gæfi alls ekki góða mynd af frammistöðu Everton sem höfðu verið inni í leiknum alveg fram á lokamínúturnar.

Einkunnir Sky Sports: Robles 6, Baines 6, Distin 6, Stones 5, Coleman 6, Pienaar 6, Barry 6, McCarthy 6, Mirallas 7, Barkley 7, Lukaku 7. Varamenn: Osman og McGeady, báðir 5. Deulofeu fékk ekki einkunn. Byrjunarlið Arsenal fékk 6 á línuna, fyrir utan Chamberlain og Cazorla, með 7.

19 Athugasemdir

 1. Diddi skrifar:

  Ég sá á Sky að þeir reikna með að Robles haldi sinni bikarstöðu í marki og ég verð að segja að ég er á móti því. Þegar við erum komnir svona langt þá verðum við að tjalda reynslumesta og sterkasta liði sem við höfum völ á. Ég treysti því að við Martinez höfum svipaða dómgreind hvað þetta varðar 🙂

 2. Diddi skrifar:

  annað hvort erum við með 2 Mccarthy (sem ég vissi ekki) en það hlýtur allavega að vera erfitt fyrir hann að horfa á sjálfan sig af bekknum en það verður þó þægilegra þegar hann hefur skorað 🙂 he, he,

 3. Finnur skrifar:

  Hahaha! McGeady átti þetta að vera (á bekknum), ekki McCarthy. Takk fyrir það. 🙂

 4. Diddi skrifar:

  varst fljótur að leiðrétta þetta félagi 🙂

 5. Diddi skrifar:

  þetta hlýtur samt að auka líkurnar á að hann skori, ekki slæmt að geta leyst hann af á 60. mín með óþreyttum McCarthy 🙂

 6. Finnur skrifar:

  Nákvæmlega. Þetta er ekkert annað en herkænskubragð hjá Martinez! 🙂

 7. Agust skrifar:

  Finnst óskiljanlegt að hann noti ekki Deulofeu….

 8. Elvar Örn skrifar:

  Já spurning hvort Deulofeu sé of góður til að vera á bekknum en best að spyrja frekar hver á að fara útaf, Mirallas (nei), Pienaar (ekki alveg viss þarna), Barkley (nei) svo kannski er bara best að hann leysi einhvern þessara þriggja af þegar á þarf að halda.
  Annars flott uppstilling en auðvitað spurning með Robles í markinu í svona mikilvægum leik.
  Held að jafntefli væri nú mjög ásættanlegt en ég vil samt sigur, hehe.

 9. Diddi skrifar:

  jæja, þetta gekk ekki upp hjá okkur í dag en það kemur dagur eftir þennan 🙂

 10. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Súrt!!!

 11. Gestur skrifar:

  Martinez virðist ekki vilja breyta neitt um á miðjunni.
  Barry og McCarthy halda alltaf sinn stöðu og eru aldrei skipt útaf, þá að þeir eigi sisjafna leiki.

 12. Finnur skrifar:

  Gestur: Held að hann haldi tryggð við Barry og McCarthy af því að Gibson er sá sem átti að keppa við þá um stöður á miðjunni — en hann er meiddur, eins og við þekkjum. Aðrir miðjumenn eru: McGeady, Oviedo, Barkley, Osman, Pienaar og einhverjir kjúklingar. Kannski væri hægt að telja Mirallas og Deulofeu þar með, þó þeir séu meira framliggjandi. En allavega — Þetta eru allt menn sem nýtast betur í öðrum stöðum.

  Diddi: Rétt er það. Það kemur dagur eftir þennan dag. Hvað mig varðar er ég sáttur við að liðið bæti sig frá því í fyrra sérstaklega þar sem um „transition“ tímabil er að ræða (stjóraskipti).

  Í fyrra náði Moyes 1,66 stigi per leik að meðaltali í deild en Martinez er í augnablikinu með 1,77 og Martinez jafnaði árangur hans í FA bikarnum. Það er athyglisvert að ekkert af núverandi Úrvalsdeildarliðum (og að ég held ekkert lið yfir höfuð) hafi komist jafn oft og Everton í 8 liða úrslit FA bikarsins á síðustu 6 árum:

  Everton 4
  Chelsea 4
  Arsenal 3
  City 3
  Stoke 3
  United 3
  Fulham 2
  Sunderland 2
  Tottenham 2
  Aston Villa 1
  Liverpool 1
  West Ham 1
  Wigan 1

  (talið í flýti, vona að ég hafi ekki gert mistök). 🙂

 13. Gestur skrifar:

  Stundum hefði verið hægt að fórna öðrum hvorum (Barry eða McCarthy) og bæta í sóknina. Því mér finnst stundum vanta meiri kraft í sóknarleikinn og það kemur ekki frá þessum leikmönnum. Barry og McCarthy eru meiri varnarmenn og hafa ekki sendingargetuna eða færni til að sóla. Nú er Barry 33ára og er alveg ágætur en það hlýtur að vara hægt að taka hann útaf og setja meira kraft í sóknina. Hefur Herra Martinez ekki bara gleymt að styrkja þessa stöðu meira?

 14. Finnur skrifar:

  Jú, reyndar, það er rétt, Gestur. Það þarf ekki að skipta like-for-like, eins og menn segja. Gallinn er bara sá að bekkurinn hefur verið að skila nákvæmlega *engu* í undanförnum örfáu leikjum. Arsenal skipta til dæmis inn Giroud sem gerir út um leikinn með tveimur mörkum en við skiptum inn mönnum sem skila jafn miklu (eða minna) og þreytti leikmaðurinn sem fór út af.

 15. Ari S skrifar:

  Ég hef aðeins pælt í þessu með skiptingarnar sem skila engu. Barkley, nýstiginn úr meiðslum sömuleiðis Deulofeu og McGeady virðist vera langt frá einhverju sem kallast getur góður leikmaður.

  Allir þrír virðast og eiga að vera mun betri en þeir hafa sýnt í síðustu leikjum. Allir þrír eiga að geta verið „match-winners“ Við skulum vona að það komi í næstu leikjum……. og hvenær er Crystal Palace leikurinn?

 16. Halli skrifar:

  Ég hef ekki skrifað inná þennan þráð eftir leikinn vegna gífurlegs pirrings á úrslitum leiksins. Eins og ég sagði á Ölver fyrir leik þá hljóta báðir stjórar liðanna að nálgast þennan leik þannig að liðið sem sigrar sé í dauðafæri á að vinna bikar í ár sem bæði lið eru búin að bíða eftir í langan tíma. Mitt mat á uppstillingu Everton í leiknum er eðlileg Robles í stað Howard og Stones kemur inn fyrir meiddan Jags. Robels okkar bikarmarkvörður í ár, annars okkar stekasta lið. Mér fannst eins og oft áður að við erum mikið með boltann en ekki mikið að gerast svo kemur Arsenal með sína fyrstu alvöru sókn og mark McCarthy missti boltann og varnarmennirnir ekki tilbúnir að taka á móti þó einungis 2 sóknarmönnum Arsenal og fá á sig mark. Næstu 15 mín eru Arsenalmenn svolítið að að reyna á Robels sem var mjög óöruggur og mjög heppinn td að slá ekki fyrirgjöf í markið, settann í slána og aftur fyrir en svo fáum við hraða og góða sókn þar sem Mirallas og Lukaku eru komnir inn fyrir og koma boltanum í netið með ákveðinni heppni þó. Á næstu 30 mín áttum við leikinn og áttum 2 dauðafæri til að komast yfir fyrst þegar Lukaku kemst upp með 2 varnarmenn á móti sér en er með 2 sóknarmenn með sér sitt hvoru megin en ákvað að fara sjálfur á þá og var tæklaður úr færinu af Chamberlain stundum er betra að gefa boltann og svo rétt eftir hlé þegar Lukaku gefur frábæra sendingu á Barkley sem er á vítapuktinum en setur boltann yfir. Næst er að Arsenal fær vítið hvað er Barry að hugsa þegar hann brýtur af sér utarlega í teignum við endalínu ekkert nema víti en algjör óþarfi og þessi staða 2-1 þýðir bara eitt: þú verður að sækja, tap gerir ekkert fyrir þig í bikar og Arsenal skora 2 til viðbótar úr skyndisóknum. 4-1 gefur ekki rétta mynd af leiknum en sanngjarn sigur hversu pirrandi sem það er. Um frammistöðu leikmanna. Robles óöruggur Coleman á pari kannski ekki eins áberandi sóknarlega og oft. Stones enginn Jags. Distin góður. Baines góður sóknarlega en það komu 3 mörk Arsenal hans megin. McCarthy og Barry slakasti leikur þeirra saman í vetur gáfu 3 mörk. Mirallas eigingjarn og heði getað gert betur í nokkrum sóknum. Barkley góður hefði samt mátt nýta færið í seinni hálfleik. Pienaar alltaf líklegur til að búa til en hægir of mikið á leiknum. Lukaku menn sem skora eru alltaf góðir en jesús kristur hvað hann hefði mátt gera betur þegar hann komst inn fyrir með 2 með sér. Innáskiptingar í leiknum kom einhver með eitthvað? NEI.

  Væru menn til í að vera í 4 liða úrslitum á Wembley með Wigan, Hull og Sheff Utd? JÁ TAKK

 17. þorri skrifar:

  Er sammála Halla í öllu þessu sem hann er að segja. Og leikurinn var mjög góður og skemtilegur á að horfa. Barry var svolítill klaufi að brjóta á sér inn í teig. Svona reyndur maður á að vita að það ekki á að gera svona. Við brosum fram á veginn.

 18. Gestur skrifar:

  Það hefði verið fínt að vera í 4 liða úrslitum núna. Ég sá ekki leikinn en mér hefur fundist Pienaar vera hægur í vetur og samvinna hans og Baines ekki verið til staðar eins og áður. Ég sá að Everton var að kalla Lundstram úr láni, 20 ára miðjumaður, kannski á að fara að rótera aðeins.