Tottenham vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Það er mjög erfiður og afskaplega mikilvægur leikur framundan gegn Tottenham á White Heart Lane á sunnudaginn kl. 13:30. Ef við horfum til baka þá hefði mátt segja að ef tímabilið í deildinni hefði á einhverjum tímapunkti „endað“ hvað sparkspekingana varðar þá var það þegar Everton lenti undir gegn Aston Villa í síðasta leik (eftir tapleik þar á undan). Svipaða sögu má segja um Tottenham sem lentu undir gegn Hull í síðasta leik (eftir 5-1 stórtap gegn Man City á heimavelli þar á undan). Bæði lið (Everton og Tottenham) náðu þó að klóra í bakkann og jafna en Everton gerði gott betur því Mirallas tryggði verðskuldaðan sigur gegn Villa með glæsilegri aukaspyrnu undir lokin.

Sigurleikurinn við Villa var akkúrat það sem við þurftum til að létta okkur lund eftir nokkuð erfiða viku, eða eins og þau hjá NSNO skrifuðu: What a difference a day makes. Ágætis lesning þar á ferð.

Þar sem litli bróðir okkar náði ekki nema jafntefli gegn West Brom er strax komin aftur spenna í baráttuna um sæti í meistaradeildinni að ári þar sem aðeins tvö stig skilja að Everton (í fimmta sæti) og Liverpool (í fjórða sæti) — og reyndar aðeins eitt stig í Tottenham (í sjötta sæti).

Það er þó ekki fjarri lagi að segja að það sem sýni hvað best hvað í liðunum búi sé svörunin við skellum á borð við þá sem þessi tvö lið (sem mætast á sunnudaginn) urðu fyrir og því verður fróðlegt að sjá hvað gerist. Tottenham menn líta á leikinn sem „must win“ en fréttamiðlar hafa bent á að síðast þegar svo mikið var undir í leik milli þessara tveggja liða var árið 1985 þegar Tottenham var í öðru sæti deildar en Everton í því efsta (Everton sigrað og vann deildina — þá í 8. en ekki síðasta skipti).

Það er ótrúlegt að hugsa til þess en það eru 110 ár síðan þessi tvö lið mættust fyrst og ef sagan er skoðuð kemur í ljós að Tottenham hefur aðeins unnið tvo af síðust 15 Úrvalsdeildarleikjum gegn Everton. Everton tók fjögur stig af þeim í fyrra, þrjú stig tímabilið þar á undan og fjögur stig þar á undan (11 stig af 18 mögulegum). Heimaleikjaform Tottenham í deild síðan í byrjun nóvember er auk þess ekkert allt of gott: tveir sigrar (Stoke, Crystal Palace), tvö jafntefli (United og West Brom) og þrjú töp (Newcastle, Liverpool, West Ham og Man City). Þetta gerir 8 stig af tuttugu og einu mögulegu.

En hér get ég þó ekki varist þeirri hugsun að komið sé að enn einum „glass ceiling“ leiknum. Liverpool eiga líklega eftir að tapa fyrir Arsenal á morgun og þar með er Everton komið í dauðafæri á að ná fjórða sætinu allavega tímabundið með sigri gegn liði Tottenham sem virðist, á blaði, vera meira veikburða en venjulega. Hvað getur mögulega farið úrskeiðis?? 🙂 Ég ætla að segja: jafntefli eru góð úrslit. Ef við náum meira þá gætum við verið að stimpla okkur inn í baráttuna.

Meiðslalistinn lítur vel út: Deulofeu, Coleman og Traore eru allir heilir frá læknisfræðilegu sjónarmiði en spurning um leikskerpu og því óvíst hvort þeir verða með. Lukaku er frá (mjög stórt skarð þar) sem og Alacaraz, Gibson, Kone og Oviedo. Hjá Tottenham eru miðjumennirnir Erik Lamela og Sandro frá, Dembele er heill en Andros Townsend gæti verið orðinn heill eftir að hafa verið átta vikur frá vegna meiðsla. Þó Lukaku sé frá er gott að hugsa til þess að aðrir hafa haldið uppi merkjum félagsins, en Mirallas og Naismith hafa nú skorað 6 mörk í síðustu 5 leikjum Everton. Þess má auk þess geta að Murinho gaf í skyn að Lukaku yrði seldur frá Chelsea í sumar. I’ll believe it when I see it.

En þá að öðru: Everton tilkynnti í vikunni um 5 ára samning við Umbro sem koma m.a. til með að hanna leikmannatreyjurnar frá og með næsta tímabili. Umbro merkið ætti að vera okkur að góðu kunnugt, því Everton hefur lengstum skipt við Umbro þó breytt hafi verið um framleiðanda öðru hverju (Nike, Puma og Le Coq Sportif). Þess má til gamans geta að Everton vann síðasta stóra titil sinn (FA bikarinn í fimmta skipti) í Umbro treyju.

Roberto Martinez stýrði jafnframt athöfn þar sem turninn okkar, Prince Rupert’s Tower (stundum kallaður Prince Rupert’s Castle), var upplýstur með bláu ljósi (sjá mynd), svona kannski til að varpa ljósi á ríka sögu félagsins. Turninn var opnaður árið 1787 og er miðpunkturinn í merki félagsins, sem við þekkjum svo vel, enda tengdur stofnun félagsins. Turninn var á sínum tíma notaður sem fangelsi og er einn af fáum slíkum dýflissum sem enn standa í dag. Hann mun hér eftir vera upplýstur í fagurbláum litum Everton (sjá mynd).

Mark Gareth Barry gegn Norwich var valið mark janúar-mánaðar og Mirallas var á dögunum útnefndur leikmaður janúarmánaðar en þetta er í fyrsta skipti sem hann verður fyrir valinu. En, eins og við þekkjum, hefur hann aldeilis blómstrað undir stjórn Martinez. Breyting á hugarfari er lykillinn að stórlega bættri frammistöðu Mirallas, að hans eigin sögn. Hann sagði: „My mentality changed. I can play strong and well in every game now. Before, it was one game well, two games not so good. Now I can play well consistently in five games. I spoke with the manager and I spoke with my father. Dad told me that I had good quality but sometimes my mentality wasn’t good and that had to change“. Martinez hafði auk þess þetta að segja um Mirallas: „It has been a change in Kevin’s mentality. Earlier in the season he was a player helping the team but now he is desperate to set standards week in, week out“.

Leighton Baines hefur nokkuð mikið verið í fréttum líka eftir að hafa skrifað undir nýjan samning sem hann sagði að hefði mikið til verið vegna þess að Martinez hafi blásið ferskum vindum inn í klúbbinn.

Í gangi er nú átak gegn hommafóbíu í fótboltanum en helmingur Úrvalsdeildarliða hafa lagt stuðning sinn þar við og Everton er að sjálfsögðu þar á meðal. Sjö efstu lið Úrvalsdeildarinnar (að Tottenham undanskildum) hafa lýst yfir stuðningi við átakið en betur má þó ef duga skal því enn vantar hinn helminginn og meirihlutann af liðum í neðri deildum.

Og þá að ungliðunum, en Everton U18 sigruðu Blackburn U18 3-1 með mörkum frá Harry Charsley, Callum Connolly og Jordan Thorniley. Everton U21 gerði 0-0 jafntefli á útivelli við Tottenham U21.

Sóknarmaðurinn Conor McAleny úr U21 liðinu er búinn að jafna sig af fótbrotinu sem hann varð fyrir þegar hann var á láni hjá Brentford fyrir ca. 5 mánuðum síðan. Hann sagðist mjög kátur að vera farinn að spila fótbolta aftur og var ekki langt frá því að skora mark í sínum fyrsta leik.

Og í lokin má geta þess að varnarmaðurinn Matthew Pennington framlengdi lán sitt hjá Tranmere um einn mánuð.

16 Athugasemdir

  1. Diddi skrifar:

    tók þetta af spjallþræði á Toffeeweb, greinilega einn bjartsýnn og jákvæður þarna: „Arsenal sign on with Puma and receive 30 mil a year. The Mancs have a deal with Nike worth multi-millions over 15 years. Does anyone know how much we’ll have to pay Umbro?“

  2. Finnur skrifar:

    Spái 2-2 jafntefli (Distin og McCarthy) og að það verði eitt stig í litla bróður eftir helgina.

  3. Diddi skrifar:

    ég spái 1-3 sigri og eins og Orri vinur minn, er mér skítsama hverjir skora, það hlýtur nú samt að fara að koma að því að Finnur giski á rétt með McCarthy, 🙂

  4. Finnur skrifar:

    Hann hefur oft verið mjög nálægt. Ég held áfram að giska á hann þangað til ég hef rétt fyrir mér (eða hann leggur skóna á hilluna). 🙂

  5. Ari G skrifar:

    Ég hef engar áhyggjur af Tottenham enda ofmetið lið. Everton vinnur 3:1 Mirallas, Baines og stóri nýji maðurinn setur eitt í restina. Algjör skyldusigur kominn tími á að Everton setji í 3 gír eins og í haust hafa allt frábæra leikmenn, frábæran stjóra og dugnað.

  6. Orri skrifar:

    Ég held að við höldum hreinu,ég giska á 0-2 fyrir okkur og held mig við þetta sama skiptir ekki máli hverjir skora.Ég er ánægður með Finn að standa með sínum manni alla leið.

  7. poolari skrifar:

    liverpool rústaði arsenal og spurs vinna svo 😉
    Litla liðið í liverpool borg getur bata gleymt þessu 4 sæti

  8. poolari skrifar:

    *bara

  9. Elvar Örn skrifar:

    Sjáumst vonandi á Ölveri

  10. Finnur skrifar:

    Það ber vott um ákveðna vanmáttarkennd þegar menn hlaupa til og stæra sig af einum sigri á spjallþráðum annarra liða (undir bæði dulnefni og röngu tölvupóstfangi). Ef ég væri þú myndi ég hafa meiri áhyggjur af næsta leik ykkar gegn botnliði Fulham úti því þið lituð nú ekki sérlega glæsilega út í næsta útileik (West Brom) eftir heimasigur… Just sayin’.

    En nóg um það. Er ég að lesa það rétt að Elvar sé á leið í bæinn? Gaman að heyra!

  11. Ari G skrifar:

    Gott að öll pressan er á Liverpool ekki á Everton. Everton hefur engu að tapa spila með hjartanu og geta alveg náð 4 sætinu þrátt fyrir ofmennskubrjálæði liverpoolmanna þótt þeir sýndu flottann leik í dag þá er þetta bara einn leikur af mörgum. Kom mér samt mest á óvart að City vann ekki ég sem spáði þeim sigri í vor héld við þá spá þótt Chelsea líti mjög vel út. Hvað skeður með Arsenal núna kannski eiga þeir eftir að brotna saman vonandi og þá getur þetta verið ennþá meira spennandi.

  12. Halli skrifar:

    Nú er leikur á erfiðum útivelli og svo kallaður 6 stiga leikur ég hef alltaf haft svo lítið soft spot fyrir Tottenham enda er White Hart Lane fyrsti völlurinn sem ég fór á þarna uti. Mín spá 1-2 og verða Coleman og Traore á markaskónum á morgun

    Hittumst á Ölver

  13. Teddi skrifar:

    Djö…. maður, (sagt með Valtýs B.V. rödd) jinx-aðir úrslitin á Anfield.

    Spái 2-2 í slagviðrinu. AddiB með bæði fyrir Spurs, Baines og Osman skora fyrir Everton.

  14. Orri skrifar:

    Nú snýst spurningin bara um það ætlum við að halda 4 sætinu með sæmilegri reisn eða að tapa því til Tottenham með sköm á morgun.

  15. Elvar Örn skrifar:

    Já Finnur, er í Keflavík og ég og Georg kíkjum á Ölver.
    Væri mjög áhugavert ef Everton vinnur Tottenham, vægast sagt.

  16. Kiddi skrifar:

    Þetta verður hörkuleikur, verst að komast ekki í Ölver og vera með ykkur.
    Vona að við náum að landa sigri, óbærilegt að hugsa til þess að tap setur okkur í 6 sæti. Mirallas skorar á 72 mín 0-1 Evrton og við höldum ennþá í litla bróður í kapphlaupinu um 4 sætið.
    Góða skemmtun í dag 🙂