Cardiff vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Everton mætir Aroni Einari Gunnarssyni og félögum í Cardiff á útivelli, á laugardaginn kl. 14:00. Cardiff töpuðu sínum fyrsta leik (á útivelli) gegn West Ham en komu svo rækilega á óvart þegar þeir unnu fyrrverandi meistara, Man City, 3-2 heima, eftir að hafa lent undir í leiknum. Þeir fylgdu svo þeim leik eftir með 2-0 sigri á Accrington Stanley í deildarbikarnum en Everton spilaði einmitt við þá á undirbúningstímabilinu (og vann 4-1).

Cardiff og Everton hafa aðeins 30 sinnum tekist á frá upphafi og það er orðið ansi langt síðan síðast, en það var árið 1962 þegar Everton fór með sigur af hólmi, 8-2! Það er því spurning hvort nokkuð sé að marka tölfræðina úr viðureignum þessara liða en af 15 leikjum Everton á útivelli gegn þeim hefur Everton unnið þrjá, þrisvar gert jafntefli og níu sinnum tapað. Executioner’s Bong birtu greiningu sína á Cardiff og margt athyglisvert sem fram kom þar.

Þessir þrír leikir Everton á tímabilinu hafa verið nokkuð svipaðir: Everton verið mikið með boltann, mest megnis á vallarhelmingi andstæðingsins — og gert meira en nóg til að vinna leikina —  náð að skapa þó nokkuð af færum en nýtingin á þeim verið frekar slæm. Andstæðingarnir aftur á móti náð að nýta sín fáu færi lygilega vel. En það þýðir lítið að kvarta yfir því, lukkan snýst okkur í vil á endanum og ef maður horfir á afraksturinn úr viðureignum í deild við þessi tvö lið (Norwich og West Brom) sést að meðalstigafjöldi í fyrra var 1 stig í leik — sami árangur og í ár. Þannig að það var kannski ekki við miklu að búast.

Úr meiðsladeildinni er það að frétta að Anichebe var með smá eymsli í ökkla fyrir bikarleikinn, annars hefði hann líklega tekið þátt. Spurning hvort hann verði orðinn góður. Enginn annar meiddist þó í bikarleiknum og Alcaraz og Gibson eru farnir að æfa. Gibson ætti því að vera nálægt endurkomu.

Í öðrum fréttum er það helst að Baines og Fellaini hafa verið mikið í umræðunni undanfarið. Baines átti að hafa beðið um sölu og United hækkað tilboðið í Fellaini en þetta reyndust eingöngu vera sögusagnir, eins og við var að búast. Martinez líkti þessum leikmannaglugga við sirkus og ég er örugglega ekki einn um það að bíða þess að hann loki, svo að United sirkusinn geti yfirgefið Everton borg og farið að snúa sér að öðrum hlutum.

Og talandi um aðra hluti…

Ross Barkley er enn í umræðunni en Martinez líkti honum við Michael Ballack í viðtali á dögunum. Margt skemmtilegt sem kom fram þar, sbr. tilvitnunin: „I look at Ross and you tell me what weakness he has? He hasn’t got one. He can use both feet, he can switch the play, he has a range of passing and can receive the ball in any area, he has a great shot and has incredible energy“.  Hægt er að lesa meira um þetta hér. Þeir hjá Express birtu einnig skemmtilega grein um Barkley þar sem leitað var eftir skoðunum frá fólki sem hefur unnið með eða leikið með honum, en þar var einnig að finna vídeó-yfirlit yfir undanfarna leiki hans fyrir tímabilið.

Ekki mikið að frétta af slúðurdeildinni — eingöngu endurunnar fréttir. Nema hvað ég rakst á eina þar sem Tom Ince var nefndur.

En nóg um það. Cardiff á laugardaginn. Maður yrði mjög sáttur með eins marks sigur. Osman og Naismith með mörkin eftir að Cardiff kemst yfir. Hver er ykkar spá?

12 Athugasemdir

 1. Halli skrifar:

  0-2 Mirallas og Baines úr víti. Það er nú alltaf aðeins meiri tilhlökkun að mæta Íslendingaliðum Aron Einar here we come.

  Sjáumst á Ölver

 2. Baddi skrifar:

  Ég spái mjög erfiðum leik á móti Cardiff og held því miður að það verði enn eitt jafnteflið, en sjáumst alla vega frekar hressir á morgun, ÁFRAM EVERTON….

 3. Elvar Örn skrifar:

  Þetta verður forvitnilegur leikur og klárlega ætti Jelavic að byrja frekar en Kone, en sá síðarnefndi átti að setja 1-3 mörk í deildarbikarnum en var fyrirmunað að skora.
  Jelavic hefur verið glimrandi góður á undirbúningstímabilinu og virðist í betra formi en Kone.
  Ég bara sé ekki að Anichebe geti verið einn frammi og spurning hvort ekki sé kominn tími til að hafa tvo framherja.
  Geri ráð fyrir að Barkley sé búinn að festa sig í sessi í liðinu svo fremi sem hann spili eins og í fyrstu þremur leikjunum.
  Deulofeu (stafsetning?) á skilið að taka meiri þátt en í seinustu leikjum eftir frammistöðu hans í deildarbikarnum.

  Annars spái ég að mestu svipaðri uppstillingu eins og í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins og helst spurning hjá mér hvort ekki eigi að hvíla Osman þar sem mér finnst sem hann hafi verið einna lakastur í fyrstu tveimur leikjunum. Auðvitað spurning hver ætti að koma í hans stað.

  Sjáumst ekki á Ölveri, jeminn hvað það er kominn tími á að kíkja á ykkur félagana

 4. Finnur skrifar:

  > Deulofeu (stafsetning?)

  Þú ert greinilega fantagóður í stafsetningu (því þú varst með þetta rétt). 😉

  > jeminn hvað það er kominn tími á að kíkja á ykkur félagana

  Segðu!

 5. Sigurjón Sigurðsson skrifar:

  ég ætla að gerast svo djarfur að spá því að ef Baines og Fellaini verða með í leiknum á morgun þá verði þeir ekki seldir í þessum félagaskiptaglugga. Einnig krefst ég þess að mínir menn fari að nýta yfirburði þá sem þeir hafa haft í fyrstu leikjunum og breyti sénsum í mörg mörk. Áfram EVERTON

 6. Elvar Örn skrifar:

  Ég held að félagsskiptaglugganum verði ekki lokað fyrr en mánudaginn 2. september kl. 23:00 að breskum tíma, drífa sig að loka þessum glugga, það er nú óveður 🙂

 7. Hallur j skrifar:

  Sælir félaga ég held að þetta verði en eitt jafnteflið hja okkar mönnum ,kanski þarf bara að leyfa öðrum hvorum félaganum að fara til united svo við getum keypt alvöru STRIKER hvar sem hann leynist ég sennilega kemst ekki á ölver i dag svo vonandi faið þið goðan leik

 8. Holmar skrifar:

  Þetta verður ábyggilega erfiður leikur. Er óvenju svartsýnn (raunsær?) fyrir þennan leik og á erfitt með að spá sigri okkar manna. Enn eitt jafnteflið væri frekar svekkjandi, þar sem manni fannst leikjaplanið þannnig að hægt væri að ná í mörg stig úr þessum fyrstu þremur umferðum. Vonandi að einhver af framherjum okkar finni út úr því hvernig maður kemur boltanum milli þessara tveggja stanga og undir þverslánna. Eigum við ekki bara að smella 2-2 á þetta í hörku skemmtilegum leik. Jelavic með bæði.

 9. Sigurjón Sigurðsson skrifar:

  hef ekki oft verið vitni af eins lélegri dómgæslu eins og í þessum fyrri hálfleik. Þetta er annars fyrsti leikurinn sem ég sé með okkar mönnum á þessu tímabili og ég verð að segja að þeir þurfa að vera miklu hraðari í uppbyggingunni en þeir hafa verið. það að geta spilað boltanum og haldið honum telur ekki er flestar sendingarnar eru til baka 🙂

 10. Elvar Örn skrifar:

  Hreint út sagt ömurleg dómgærsla í fyrri hálfleik. Þar af búið að hundsa tvær vítaspyrnur sem við hefðum réttilega átt að fá. Flott spil anars og sammála að það þarf hraðari uppbyggingu á vallarhelmingi Cardiff.

  Ég er í sannleika sagt pirraður út í dómarann og finnst nú smá Íslendinga-ást fnykur af þessum lýsanda, skil það svosem vel með Aron Einar í liði Cardiff en það er dæmt hvað eftir annað brot á okkur sem ekki er brot.

  Ég er brjálaður.
  KOma svo í seinni hálfleik og klára þennan helv…..is leik.

 11. Finnur skrifar:

  Leikskýrslan komin.
  http://everton.is/?p=5336
  Endilega höldum umræðunni um leikinn áfram þar. 🙂

 12. þorri skrifar:

  Sælir félagar.sá þið leikin i dag.Ég bara spyr hvað er í gangi enn eitt jafnteflið.Hvað er að gerast.Ég sem spáið okkur sigur.halló hvað er að gerast hjá okkur 3 jafntefli
  og ekkert gengur að skora kveðja Þorri Everton maður