Á sunnudaginn kl. 13 sækjum við Úlfana heim. Þetta er næstsíðasta tækifærið til að berja hetjurnar augum á tímabilinu og jafnframt síðasti útileikur Everton á tímabilinu en við höfum aðeins tapað tveimur deildarleikjum á útivelli frá áramótum. Fyrri leikinn sigraði Everton 2-1 í leik þar Everton réði algjörlega lögum og lofum og lokaði algjörlega sjoppunni svo að Úlfarnir áttu ekki einasta færi sem úr varð skot á markið. Þeir fengu víti (eina skot þeirra á markið) og skoruðu, gegn gangi leiksins, en Jagielka og Baines (úr víti) tryggðu Everton sigurinn. Leikurinn við Úlfana í fyrra á þeirra heimavelli endaði 0-3 fyrir Everton.
Við höfum ekki oft spilað við þá undanfarið, aðeins 8 sinnum síðan 1984 en Everton hefur unnið fjóra af þeim leikjum, Wolves einn og þrisvar hafa liðin skilið jöfn. Við erum taplausir á móti Wolves í síðustu 5 leikjum og höfum unnið síðuðstu tvo.
Það er ljóst að Úlfarnir eru þegar fallnir niður, þannig að þeir koma til með að spila upp á stoltið en þeir eru á botni deildarinnar og hafa aðeins unnið einn leik á árinu (í febrúar 1-2 á útivelli á móti QPR). Þeir hafa jafnframt tapað síðustu 10 leikjum í röð á heimavelli (þar af einn FA bikarleik), en ef þeir tapa fyrir Everton þá jafna þeir met Sunderland sem töpuðu 10 heimaleikjum í deildinni í röð. Við höfum aftur á móti verið á ágætis „rúllu“ í deildinni á árinu, aðeins tapað þar þremur leikjum og lagt lið á borð við Manchester City, Chelsea, Tottenham og gert jafntefli á útivelli við Man United. Af liðunum fyrir ofan hefur aðeins Arsenal náð að vinna Everton á árinu (og þeir voru heppnir að sleppa með 0-1 á Goodison).
Nokkuð er um meiðsli í okkar herbúðum. Gibson og Neville eru tæpir og Anichebe meiddist í Stoke leiknum og verður hann líklega ekki meira með á tímabilinu. Jafnframt eru Baines og Rodwell ekki heldur orðnir nógu góðir.
Ég ætla að skjóta á eftirfarandi uppstillingu, sem miðast við það að Gibson sé ekki orðinn nógu góður (tel frá vinstri til hægri og byrja á markverði, 4-5-1 eða 4-2-3-1, eftir því hvernig á það er litið): Howard, Distin, Heitinga, Jagielka, Hibbert, Pienaar, Fellaini, Osman, Coleman, Cahill, Jelavic. Ef Gibson verður orðinn nógu góður verður hann við hlið Fellaini og Osman fer í staðinn á hægri kantinn. Hjá Úlfunum er Matt Jarvis tæpur og markvörðurinn Hennessy frá til loka tímabils.
Úlfarnir hafa verið að fá á sig um 18 skot á tímabilinu (mest allra í deildinni) þannig að þetta verður örugglega fjörugt. Stóla á að Jelvic skori í þessum leik og gott ef það er ekki líka kominn tími á Hibbert! 😉
Leikurinn er sýndur í beinni á Ölveri og hefst útsending kl. 12:53.
Í öðrum fréttum er það helst að Sports Illustrated fjallaði um það í vikunni að Everton (þökk sé David Moyes) væri eitt framsæknasta liðið í ensku Úrvalsdeildinni þegar kemur að því að nýta sér nýjustu tækni í að greina leiki tölfræðilega og sömuleiðis frammistöðu leikmanna. Fannst það áhugaverð lesning.
Comments are closed.