Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Man United vs. Everton - Everton.is

Man United vs. Everton

Það er hörkuleikur á morgun (sun) kl. 11:30 en Everton á leik við meistara Man United á morgun á Old Trafford en United hafa verið á góðu skriði undanfarið og sigið fram úr Man City á lokasprettinum, ekki síst vegna þess að þeir hafa ekki tapað stigum á Old Trafford á árinu (í 7 leikjum), ekki fengið á sig mark í síðustu fjórum leikjum og nú síðast sigruðu þeir Aston Villa 4-0. Það er því á brattann að sækja sem sagan sýnir að hefur oft á tíðum kveikt í leikmönnum Everton. Moyes sagði að varla væri hægt að biðja um betri leik til að jafna sig á tapinu. Það er því vonandi að leikmenn Everton bregðist með jákvæðum hætti við tapinu í bikarnum og mæti grimmir til leiks.

Það verður þó skarð fyrir skildi hjá okkur því þær fréttir bárust eftir síðasta leik að Leighton Baines hefði rifið lærvöðva (grade 2 tear) sem gæti þýtt allt að 4 vikur í hvíld en glöggir menn sjá að það jafngildir því sem eftir er af tímabilinu. Moyes sagði þó að hann ætti frekar von á um 2ja vikna hvíld, að hann yrði því góður fyrir síðustu leikina og að þetta myndi ekki hafa áhrif á möguleika hans til að spila í Evrópukeppninni.

Annar sem missir líka af leiknum er Royston Drenthe sem kláraði síðasta sénsinn hjá Moyes eftir að hafa mætt seint og illa í undirbúningnum í vikunni fyrir undanúrslitaleikinn í bikarnum. Komið hefur fram að Moyes leyfði honum að fara til Hollands að leysa úr e-s konar fjölskylduvandræðum sem komu upp en að launum fengið lítið annað en uppsteyt frá Drenthe. Það má því alveg eins gera ráð fyrir að Drenthe hafi leikið sinn síðasta leik fyrir Everton. Leiðinlegt ef satt er, en við erum með það lítinn hóp að við megum enn síður við því að einhver taki upp á því að láta sig hverfa, eins og sást í síðasta leik.

Rodwell verður líklega enn frá vegna meiðsla en aðrir ættu að vera heilir og Pienaar kemur inn í liðið aftur. Hjá United eru Pogba, Anderson, Vidic, Fletcher og Lindegaard frá og óvíst með Owen.

Ég ætla að skjóta á að Distin fái að hvíla fyrir Jagielka gegn United og uppstillingin verður því væntanlega (frá vinstri til hægri, frá markverði talið): Howard, Neville, Jagielka, Heitinga, Hibbert. Pienaar inn fyrir Gueye á vinstri kanti, Fellaini og Gibson á miðjunni. Osman á hægri kanti. Cahill fyrir aftan Jelavic. Gera má ráð fyrir þéttum varnaleik þar sem kantmennn okkar taki virkan þátt í varnarleiknum og reyni að stöðva sendingar frá Carrick og Scholes yfir á kantmennina Valencia og Young, en þeir tveir síðarnefndu hafa verið United mjög drjúgir í stoðsendingum undanfarið (Valencia er til dæmis með flestar stoðsendingar í efstu deild á þessu tímabili).

Lukkutröllið okkar, Gibson, mætir í fyrsta skipti á Old Trafford eftir að þeir seldu hann en Gibson hefur enn ekki tapað deildarleik síðan hann kom til Everton. Það verður athyglisvert að sjá hvernig hann stendur sig, sem og Jelavic sem skorar og skorar þessa dagana. Ungliðinn Barkley hefur einnig verið heitur með unglingaliðinu undanfarið (t.d. í Dallas Cup) og gæti fengið smá tíma þó ég telji líklegra að hann láti sjá sig í næstu leikjum þar á eftir.

Í öðrum fréttum má nefna að til stendur að velja þá sem hafa staðið upp úr síðustu 20 árin í úrvalsdeildinni og hafa bæði Moyes og Baines verið tilnefndir til verðlauna. Moyes er þar meðal stjóra á borð við (Sir Alex, Harry Redknapp, Arsene Wenger, og Jose Murinho) en Baines í flokki vinstri bakvarða ásamt Ashley Cole, Stuart Pearce, og Denis Irwin. Fyrrum Everton leikmenn eru einnig tilnefndir: Andrei Kanchelskis (sem besti miðjumaður hægra megin), David Ginola (besti miðjumaður til vinstri), Wayne Rooney (besti framherji og markaskorari).

Heitinga var valinn leikmaður marsmánaðar eftir frábæra frammistöðu í vörninni í sigurleikjum gegn Tottenham, West Brom og Swansea í deild og Sunderland í bikar sem jafnframt var líklega besta frammistaða Everton liðsins á tímabilinu. Hann er örugglega mjög ofarlega á blaði hjá mörgum Everton stuðningsmönnum sem leikmaður tímabilsins.

Í öðrum fréttum var það svo helst að Moyes hefur lagt bann við því að leikmenn Everton reyni að fiska brot inn í teig og stakk jafnframt upp á að nota ætti upptökur úr leikjum sem grundvöll fyrir því að refsa eftir á fyrir svoleiðis látbragð. Ekki er víst að allir keppinautar Everton myndu taka því fegins hendi.

Sumarið nálgast og sólin er hækkandi.
Svindlarahópurinn ört fer nú stækkandi.
Vill ekki að fari nú vítunum fækkandi.
Rottukjöts virði þá strax færi lækkandi.

Comments are closed.