Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Toppum á réttum tíma - Everton.is

Toppum á réttum tíma

Ég stend mig að því að hugsa að það er í raun engin staða sem ég hef áhyggjur af fyrir bikarleikinn á morgun. Howard og vörnin búnir að vera í fantaformi en aðeins varnir Manchester liðanna tveggja hafa fengið færri mörk en Everton á sig á heildina litið og í fjórum af síðustu 5 leikjum hefur Everton haldið hreinu. Þetta er kannski ekki skrýtið þegar litið er til þess að Everton fær hvað fæst skota á sig í allri deildinni.

Ef kemur til vítaspyrnukeppni þá treysti ég Howard fyllilega. Hann er á tímabilinu búinn að verja víti frá bæði leikmanni Blackburn og Di*k Ku*t. Í FA bikar undanúrslitunum 2009 gegn Man United varði hann tvær vítaspyrnur sem kom Everton í úrslitin. Howard er því algjörlega rétti maðurinn í vítakeppnina. Baines er besti vinstri bakvörðurinn í deildinni, algjör aukaspyrnu- og vítaspyrnusérfræðingur sem hefur kvalið margan markvörðinn. Lykilmaður í vörn og sókn. Ég myndi ekki vilja skipta á honum og neinum öðrum vinstri bakverði í deildinni, þ.m.t. Ashley Cole. Heitinga og Distin búnir að vera í algjöru fantaformi undanfarið. Það er unun að horfa á þá plokka boltann af mönnum sem reyna að stinga sér í gegn um vörn Everton eða tækla þá snyrtilega (og um leið löglega) til að eyða allri hættu. Neville og Hibbert hafa staðið sig mjög vel í hægri bakverðinum, Neville (ásamt Coleman) tók sig til og pökkuðu Gareth Bale saman nokkra leiki í röð. Hibbert er klárlega á besta tímabili ferils síns (meira að segja þegar hann spilar miðvörðinn eins og á móti Man City er hann valinn maður leiksins).

Miðjan er í fínu formi. Leitt að Rodwell sé meiddur en Gibson og Fellaini hafa aldeilis náð saman í hjarta miðjunnar. Fellaini hefur blómstrað frá því Gibson var keyptur og getur nú látið meira til sín taka um víðan völl og tekið meiri áhættu, vitandi það að Gibson er tilbúinn að bakka hann upp þegar á þarf að halda. Gibson hefur enn ekki tapað leik fyrir Everton frá því hann var keyptur. Hann er traustur á miðjunni með gott auga fyrir stungusendingum og þvílík þrumuskot sem koma frá þessum manni. Alltaf að leita eftir sendingum fram völlinn. Osman hefur staðið sig mjög vel á tímabilinu (eiginlega hvar sem hann spilar) en þegar hann leikur vel þá leikur Everton vel. Hann er mjög svo vanmetinn leikmaður. Maður var fyrst smeykur við ungliðann Gueye á vinstri kanti en hann hefur aldeilis sýnt það að hann verðskuldi að taka þátt í þessum undanúrslitaleik. Átti mark gegn Sunderland og þátt í hinum tveimur mörkunum. Framtíðar leikmaður þar á ferð með gott auga fyrir leikmönnum í færi. Ég er pínulítið smeykur við Drenthe (sem ég held byrji á bekknum) þar sem hann er algjörlega óútreiknanlegur. Getur unnið leiki alveg upp á sitt einsdæmi og tapað þeim jafnharðan með því að láta reka sig út af. Hann spilar örugglega mikilvægan þátt í leiknum undir lokin þegar liðin fara að þreytast og getur snúið töpuðum leik við í unninn.

Í sókn erum við í fantaformi með 12 mörk í síðustu 5 leikjum, Jelavic hefur verið eitraður inni í teig andstæðinganna og náð að setja inn nokkur mörk núna í röð en annars hefur markaskorunin dreifst nokkuð jafnt á liðið og því ekki hægt að segja að nein ein uppspretta marka sé hjá liðinu (þó Jelavic sýni merki um að geta orðið með markahæstu mönnum í deildinni). Það eru því nokkrir leikmenn að gera tilkall til titilsins markahæsti leikmaður tímabilsins og meira að segja markvörðurinn Tim Howard er farinn að skora fyrir okkur. Cahill jafnframt farinn að blómstra aftur sem sóknarþenkjandi miðjumaður, með tilkomu Jelavic. Anichebe orðinn einn markahæsti leikmaður tímabilsins eftir frábærar innkomur af bekknum.

Við vorum ragir upp við markið í upphafi tímabils og oft vantaði okkur eitt stykki Jelavic að taka á móti sendingunum inn í teig en það er aldeilis ekki raunin núna og allir að leggja hönd á plóg við markaskorunina. Sjálfstraustið hefur vaxið með hverjum leiknum undanfarið, enda ekki annað hægt þegar við spilum vel, höldum hreinu og vinnum leikina með tveimur til fjórum mörkum. Ég verð eiginlega að hrósa Moyes enn og aftur fyrir frábær kaup í janúarglugganum. Hans sérgrein er að finna óslípaða demanta á lágu verði, sem hafa leyst nákvæmlega þau vandamál sem við vorum helst að glíma við og innkoma nýju mannanna hefur aldeilis virkað sem vítamínspauta fyrir þá sem fyrir voru í liðinu.

Því er reyndar haldið fram að form fram að svona leik hafi ekkert að segja en ef við leikum af sjálfstrausti með toppstykkið í lagi (eins og við höfum verið að gera) þurfum við ekkert að óttast. Við mætum bjartsýn til leiks á Wembley. Hver veit nema sagan endurtaki sig frá því fyrir 20 árum og Kenny Dalglish segi upp eftir bikarleikinn. Við dveljum ekki við það. Vinnum leikinn á morgun og endum tímabilið með stæl.

Comments are closed.