Flottur 2-0 sigur á West Brom í höfn í leik sem var ekki endilega mest spennandi leikur tímabilsins því sigurinn í raun aldrei í hættu. Maður var pínulítið smeykur að það myndi verða þreyta í mannskapnum eftir bikarleikinn og jafnvel menn með hugann við næsta bikarleik en það var aldeilis ekki raunin. Þriðji 2-0 sigurinn í röð í höfn og ekki hægt að segja annað en að við höfum átt hann fyllilega skilið. Goodison draugur West Brom heldur því áfram en þeir hafa aðeins unnið tvisvar í deildinni á heimavelli Everton í 56 ár!
Drenthe, Coleman og Rodwell voru allir frá, eins og búist var við, og Moyes skipti út Gueye (Pineaar inn á), Distin (Jagielka inn) og Neville (Hibbert inn) en að öðru leyti óbreytt: Howard, Baines, Heitinga, Jagielka, Hibbert. Miðjan: Fellaini og Gison með Pienaar vinstra megin við sig og Osman hægra megin. Cahill í holunni fyrir aftan Jelavic.
West Brom hefðu mátt vita betur en svo að mæta á Goodison í Liverpool litunum. Við kvörtum ekki yfir því — bara enn ein hvatningin til að gera vel. Við byrjuðum líka líflegar en West Brom og áttum hættulegustu færi leiksins. Osman átti skalla framhjá marki og Pienaar og Baines náðu ágætlega saman (eins og venjulega) og gáfu færi fyrir Gibson en þrumuskot hans rétt yfir. Áður en maður vissi þó af var Everton komið yfir á 18. mínútu þegar Osman sendir á Jelavic til hægri við vítateiginn og Jelavic gefur til baka. Osman með skot að marki rétt utan við teig sem breytti stefnu af McAuley hjá West Brom og markvörðurinn þar með á leið í vitlaust horn. Annað sjálfsmarkið andstæðinga okkar í röð. 1-0 fyrir Everton.
Hættulegasta færi West Brom leit dagsins ljós stuttu síðar þegar Scharner komst inn fyrir vörnina hægra megin og náði skoti á markið sem Howard náði bara að slá til hliðar þar sem tveir West Brom menn voru mættir (Chris Brunt og Shane Long) en flott skot Brunt fór í hælinn á Long og því varð ekkert úr því.
Fellaini átti flott skot að marki eftir að hafa sett frákastið úr teig á bringuna og lagt boltann vel fyrir sig en markvörður West Brom varði í horn. Pienaar átti skot af nokkuð löngu færi en hárfínt framhjá.
Á ákveðnum tímapunkti reiddist Fellaini þegar brotið var á honum við vinstri kantinn og reyndi eitthvað að svara fyrir sig — maður horfði bara á í forundrun þar sem hann á að vita betur að vera ekki að hætta á gult spjald, því þá yrði hann einu spjaldi frá banni og myndi með öðru gulu spjaldi missa af bikarleiknum (sem má alls ekki gerast). Því myndi Moyes líklega neiðast til að hvíla hann í næstu tveimur leikjum til hægt væri að nota hann í bikarnum sem öll áhersla er nú lögð á. Aukaspyrnan var hálf slök og fór forgörðum en ekki laust við að maður væri hálf vonsvikinn með uppskeruna eftir aukaspyrnur, hornspyrnur og fyrirgjafir í leiknum. Bæði mörkin komu með skoti fyrir utan teig, sem er nokkuð óvenjulegt af Everton liðinu að vera.
Í hálfleik tók Moyes Osman út af (sem varúðarráðstöfun, að sögn enska þularins) en Osman hafði verið nokkuð líflegur í fyrri hálfleik, þó kannski pínulítið bitlaus fyrir framan markið. Inn á kom Gueye og hann og að mér sýndist Pienaar skiptu með sér hægri og vinstri köntunum jafnt.
Baines náði flottri fyrirgjöf á hausinn á Jelavic, en skalli þess síðarnefnda hálf slakur. Leikurinn datt aðeins niður um tíma í seinni hálfleik og maður varð hálf nervous yfir því hvað myndi gerast ef West Brom næði að skora. Super-subbinn okkar (Anichebe) inn á fyrir Cahill á 63. mínútu og sá var búinn að skora ekki nema 5 mínútum síðar (á 68. mínútu). Fékk fína sendingu fyrir utan teig og skaut föstu skoti, stöngina inn. 2-0 fyrir Everton.
Jelavic lagði svo upp flott færi fyrir Pienaar og Pienaar í næstu sókn á móti fyrir Jelavic en báðir klúðruðu tilvöldu tækifæri til að setja inn þriðja markið og gulltryggja sigurinn. Jelavic átti allt í lagi leik, var að koma sér í mjög góð færi (eins og venjulega) og átti flest skot á markið en hann vantaði í þessum leik að klára sín færi almennilega og oft brugðust sendingar eða eins og hann næði ekki að stjórna boltanum nógu vel. Jelavic var því skipt út af fyrir McFadden á 87. mínútu (hefði viljað sjá Stracqualursi). Jelavic átti þó þátt í flestum sóknum Everton og lofar sem fyrr góðu. Hann skorar í öðrum hverjum leik núna þannig að hann hlýtur að setja eitt á móti Norwich í næsta leik, kannski leggja upp mark gegn Sunderland og setja svo mark á móti Liverpool í bikarnum. Tölfræðin lýgur aldrei! 😉 Cahill fékk spjald og var skipt út af (það gildir reyndar um Jelavic líka). Kannski Moyes að passa upp á að enginn fái rautt til að hafa sem mestu breidd í bikarnum?
Scharner átti skot sem Howard varði en West Brom átti annars engin önnur svör við þessum tveimur mörkum og maður sá þá verða meira og meira frústreraða eftir því sem leið á. Á einum tímapunkti voru markvörður West Brom (Foster) og sóknarmaður þeirra (Odemwingie) farnir að hnakkrífast inni í eigin teig, með enni við enni. Ótrúlegt að horfa á þá uppákomu og sömuleiðis þegar endursýningin sýndi að varnarmaður West Brom hefði traðkað á fætinum á Pienaar þar sem hann lá en sá slapp við rauða spjaldið. Greinilegt að Roy Hodgson var ekki sáttur við ansi magra uppskeru West Brom gegn Everton á þessu tímabili: 3 tapleikir í röð og Anichebe búinn að skora í síðustu tveimur. Fátt annað markvert gerðist í seinni hálfleik. Sigurinn í höfn.
Þriðji sigur okkar í röð sem endar 2-0. Anichebe og Baines orðnir markahæstir með 5 mörk og vantar hvorn því bara 1 mark í Andy Caroll, dýrasta enska leikmann allra tíma. Everton komið í 7. sæti, upp fyrir Liverpool sem eiga erfiðan útileik gegn Newcastle til góða.
Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 7, Heitinga 6, Jagielka 6, Hibbert 6, Pienaar 7, Gibson 7, Fellaini 8, Osman 7, Cahill 7, Jelavic 7. Varamenn: Gueye 6, Anichebe 7, McFadden 5. Hjá West Brom var markvörður þeirra með 7, restin 6 á línuna, nema Andrews sem fékk 7. Varamenn þeirra fengu 6 eða lægra. Var pínulítið hissa að sjá Cahill fá 7 í leiknum þar sem mér fannst slen í honum og hann hálf utan við sig í leiknum — kannski þreyttur eftir Sunderland leikinn? En, það er ágætt að kvarta yfir því að einhver fái of háa einkunn en ekki of lága! 🙂
Í öðrum fréttum er það helst að árangur okkar gegn Sunderland í bikarnum í síðustu viku var valinn frammistaða vikunnar af dómnefnd sem var skipuð 5 af þjálfurum deildarinnar.
Comments are closed.