Á morgun (þri) kl. 19:00 mætum við Sunderland á útivelli í endurteknum leik 8 liða úrslita í FA bikarnum. Það er til mikils að vinna því með sigri mætum við Liverpool á Wembley. Það þarf þó að leggja Sunderland að velli fyrst, sem verður alls ekki auðvelt.
Við mættum þeim heima í bikarnum á dögunum á Goodison, eins og kunnugt er, í leik þar sem Drenthe átti að fá víti strax á 8. mínútu en dómarinn (sem sá atvikið vel) sýndi það þá (og síðar í leiknum) að hann virtist ekki alveg með reglurnar á hreinu. Leikar fóru 1-1 eftir að markvörður Sunderland kom þeim oft til bjargar.
Hjá Sunderland eru miðjumennirnir Cattermole og Sessegnon komnir aftur, eftir að hafa verið í banni á móti okkur síðast en í staðinn eru þeir nú í vandræðum með varnarmennina sína, en John O’Shea, Kieran Richardson, Titus Bramble og Wes Brown eru allir líklega frá. Þeir þrír síðastnefndu voru reyndar líka meiddir í síðasta leik, en John O’Shea bættist við þann hóp nýlega.
Hjá okkur er Pienaar ekki löglegur í bikarnum og Rodwell og Coleman eru meiddir (að öllum líkindum). Moyes gaf jafnframt í skyn að 1-2 leikmenn yrðu metnir síðar hvort þeir væru leikfærir. Lét það liggja milli hluta hverjir það yrðu enda vildi hann ekki sýna andstæðingunum spilin. Ég ætla að giska á að það sé Gibson. Fellaini og Cahill hvíldu hluta leiks og bæði Heitinga og Stracqualursi nánast allan leikinn.
Líklegt byrjunarlið 4-4-1-1: Howard, Baines, Heitinga, Distin, Hibbert. Drenthe Anichebe á vinstri kanti og Osman á hægri, Fellaini, Neville á miðjunni (nema Gibson verði heill, þá fer Neville mögulega í hægri bakvörðinn). Cahill fyrir aftan Jelavic frammi. Uppfærsla 27.3.2012: Drenthe fékk leyfi til að fara til Hollands í „samúðar“-leyfi að sinna ótilgreindum fjölskyldumálum. Ég myndi í staðinn fyrir Drenthe vilja sjá leynivopnið okkar, Gueye, á vinstri kantinum en mig grunar að Moyes komi til með að velja Anichebe á vinstri kantinn í staðinn. Hvort sem verður, þá verður þetta eitthvað skrautlegt á kantinum í fjarveru bæði Pienaar og Drenthe…
Það var gott að vinna Swansea á Liberty Stadium (eitt fárra liða á tímabilinu sem hafa unnið þar) og vonandi var það merki um hvað koma skal á útivelli í næsta leik. Áfram veginn! Wembley í augsýn.
Comments are closed.