Skelfilegri byrjun á leik hef ég varla séð á tímabilinu. Liðið sem vann Tottenham byrjaði en þrátt fyrir að spila með sterkustu menn (sem völ er á) vorum við algjörlega flatir í um 20 mínútur og ekkert að gerast hjá okkur. Arsenal var eins og eina liðið á vellinum, sendi boltann vel og við alltaf að elta, komumst varla yfir miðju. Tvisvar fengu Arsenal dauðafæri á fyrstu mínútunum, fyrst þegar Van Persie (á fjærstönginni) lagði boltann með skalla fyrir markið á Ramsey sem var einn á móti markverði en skot hans bæði hátt yfir og vel framhjá. Mjög illa farið með frábært færi.
Maður vonaðist til þess að við hrykkjum í gang við þetta, eins og stundum þegar hurð skellur nálægt hælum okkar á fyrstu mínútunum, en svo reyndist ekki vera — Ramsey aftur í dauðafæri en skot hans í Distin (sem renndi sér fyrir markið) — boltinn yfir markið (horn). Mér sýndist reyndar (í endursýningunni) Ramsey aftur vera að skjóta framhjá, ef boltinn hefði ekki farið í Distin.
En, maður þakkaði fyrir að vera ekki 2-0 undir á þeim tímapunkti. Markið lá í loftinu og kom engum á óvart. Upp úr horninu kemur boltinn fyrir markið og bæði Jelavic og Fellaini eiga séns í að skalla frá, Jelavic stekkur upp (en nær ekki til boltans) en Fellaini er, að því er virðist, út á þekju og stekkur ekki einu sinni upp í boltann. Sá maður (Felli) sem er líklegastur á vellinum til að vinna skallaeinvígi horfir í staðinn upp á Vermaelen stökkva manna hæst, skalla boltann auðveldlega í netið (og reka í leiðinni olnbogann í andlitið á Fellaini).
Og ekki vöknuðum við við þetta heldur (!), því að Van Persie fékk stungusendingu frá Arteta og náði skoti á markið en Howard varði vel og vörnin tók seinna skotið (upp úr frákastinu).
Það var í raun ekki fyrr en eftir um tæplega hálftíma leik að við loksins rönkuðum við okkur, komumst inn í leikinn og höfðum í fullu tréi við þá. Osman átti fyrsta færi okkar en skallaði framhjá. Aðeins að lifna yfir okkar mönnum en mig minnir að þetta hafi gerst um það leyti sem Fellaini og Cahill hafi víxlað stöðum. Á 30 mínútu gerðist það svo að við náum laglegu þríhyrningaspili í gegnum alla vörn Arsenal. Þetta hófst þegar Pienaar vinnur boltann vel (eftir slaka sendingu varnarmanns), sendir á Fellaini sem sendir á Jelavic, þaðan fer hann yfir á Cahill sem leggur boltann fallega fyrir Drenthe sem kemur brunandi inn í teig hægra megin og setur boltann framhjá markverði Arsenal í markið. Fullkomlega löglegt mark, sem línuvörðurinn dæmir af vegna rangstöðu (!!). Moyes brjálaður á hliðarlínunni, skiljanlega.
Og þetta var ein af fimm (FIMM!!) rangstöðum í röð, sem allar féllu með Arsenal og endursýning sýndi að væru allar tómt kjaftæði. Það var orðið svo kómískt að horfa upp á þetta (tragekómískt náttúrulega fyrir okkur) að bæði Arsenal og Everton stuðningsmennirnir í áhorfendasalnum voru farnir að hlægja að þessari vitleysu.
Jelavic pressaði stuttu síðar á markvörðinn Szczesny og náði að koma hausnum á skotið þegar markvörðurinn reyndi að hreinsa en Jelavic náði ekki að stýra boltanum í netið. Við vorum á þessum tímapunkti farnir að láta til okkar taka og fá færi en lítið að gerast hjá Arsenal þó þeir minntu á sig rétt fyrir hálfleikinn þegar Howard varði skot frá Rosicky.
Við héldum pressunni áfram inn í seinni hálfleikinn sem var mun hliðhollari okkur tölfræðilega séð. Fellaini átti góðan skalla sem markvörður Arsenal varði vel. Jelavic komst á sprettinn einn inn fyrir vörn Arsenal eftir stungusendingu en varnarmaður náði að trufla hann á sprettinum og Jelavic féll við, vildi fá aukaspyrnu, en ekkert dæmt. Sýndist það reyndar vera réttur dómur (nema hann hafi farið í ökklann á Jelavic, sem var ekki að sjá). Eitthvað var um hálffæri en fjaraði út hjá okkur í lokin og Arsenal að gera sig líklega til að bæta við marki þegar Van Persie átti besta færi í seinni hálfleik en skotið í utanverða stöngina og út. Nokkru síðar átti Drenthe þrumuskot sem fór rétt yfir markið. Maður hafði það á tilfinningunni að þetta væri að fara að detta með okkur, en svo reyndist ekki vera.
Arsenal grýlan lifir því enn góðu lífi og leikar enduðu 0-1 fyrir Arsenal sem fékk klárlega betri færin en það má ekki gleyma því að það voru tvö mörk skoruð í leiknum, annað ranglega dæmt af vegna „réttstöðu“. Annar leikurinn í röð hjá okkur þar sem við byrjum illa, fáum á okkur mark og dómarinn/línuvörður gerir afdrifarík mistök. Það verður þó ekki tekið aftur en ég hafði lúmskt gaman af því að sjá Distin og Heitinga hafa í fullu tré við einn heitasta sóknarmann deildarinnar (Van Persian-Rug) sem var varla svipur hjá sjón. Það var um tíma sem maður velti fyrir sér hvort hann væri ennþá inn á vellinum. Hann hefur væntanlega verið jafn frústreraður og Gareth Bale á dögunum. Moyes… hann er alveg með þetta. 🙂
Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 7, Distin 6, Heitinga 6, Hibbert 6, Pienaar 7, Fellaini 7, Osman 5, Drenthe 6, Cahill 6, Jelavic 5. Varamenn: Gueye 4, Stracqualursi 3, Anichebe 4. Arsenal voru með 6 á línuna, nema markaskorarinn Vermaelen sem fékk 8 og Koscielny og Rosicky sem fengu 7. Varamenn þeirra fengu jafn slæma útreið og okkar.
Í öðrum fréttum er það helst að Rodwell er að glíma við enn ein meiðslin og þarf að fara til sérfræðings til að meta hvað hægt er að gera við þessi þrálátu meiðsli sem hann hefur verið að glíma við í vetur. Einnig hafa 5 ungliðar okkar framlengt lán sitt til loka tímabils: Luke Garbutt (hjá Cheltenham), Jake Bidwell og Adam Forshaw (Brentford), James Wallace (Tranmere) og Aristote (Toto) Nsiala (Accrington).
Comments are closed.