Everton staðfesti formlega í dag að samningaviðræður stæðu nú yfir varðandi sölu á rússneska miðjumanninum Dinyar Bilyaletdinov en vonast er til að þeim ljúki á innan við tveimur dögum.
Bily, eins og hann hefur verið kallaður, kom til okkar frá Lokomotiv í ágúst 2009 fyrir um eða yfir 9M punda og lofaði góðu á fyrsta tímabilinu, skoraði m.a. 7 mörk, þmt. glæsimark gegn Man United, en á næsta tímabili fækkaði tækifærunum með byrjunarliðinu og var hann oft fyrsti maðurinn út af þegar Moyes var ósáttur við gang leiksins. Hann skoraði 9 mörk í 77 leikjum, og átti það til að skora helst aðeins glæsimörk eins og markið gegn Úlfunum á síðasta tímabili bar vitni.
Bily spilaði reyndar oftast á vinstri kanti en ekki í sinni hefðbundinni stöðu, í holunni fyrir aftan sóknarmanninn (staða sem hefur verið eignuð Tim Cahill undanfarið). Hann fékk þó nokkur tækifæri til að spila "sína" stöðu á miðjunni en það virtist þó ekki breyta allt of miklu í frammistöðu hans og oft eins og hann væri farþegi í leikjum.
Sumir vilja einfaldlega meina að enski boltinn henti honum illa en hann líkti sjálfur enska boltanum við að lenda í þvottavél. 🙂 Bily sagðist jafnframt þurfa að fá að spila reglulega til að komast með Rússum á Evrópumeistaramótið. Þetta hefur því legið í loftinu um nokkurt skeið.
Enn á víst eftir að semja um söluverðið en fréttamiðlar hafa getið sér til um að það verði í kringum 5M punda. Vonandi verður hægt að nýta þá fjármuni í að styrkja liðið en við erum sérstaklega fáliðaðir í miðverðinum þessa dagana og skortir góðan markaskorara, en í báðum þessum stöðum erum við með menn (Distin og Saha) sem eru við efri mörk á aldri þegar litið er til hefðbundins fótboltaferils.
Í öðrum fréttum er það helst að Tim Howard bætti á laugardaginn met Neville Southall, í leikjafjölda í Úrvalsdeildinni með því að spila sinn 208. leik milli stangana. Hann kemst þó varla með tærnar þar sem Southall hafði hælana í heildarleikjafjölda, því Southall spilaði 578 leiki með Everton. Geri aðrir betur!
Comments are closed.