Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Everton vs. Norwich - Everton.is

Everton vs. Norwich

Við tökum á móti Norwich á Goodison Park á morgun (lau) kl. 15:00. Þessi tvö lið hafa aðeins mætst í 24 leikjum á heimavelli okkar en við höfum unnið helming þeirra (12), 6 sinnum gert jafntefli og 6 sinnum tapað. Síðustu fjóra leiki í röð á heimavelli okkar (ef bæði FA bikar og deild eru talin með) höfum við unnið með samanlagrði markatölu 11-2 en það þarf að fara aftur til tímabilsins 93/4 til að finna síðasta tap okkar á heimavelli gegn Norwich. Norwich eru þremur stigum á undan okkur í 10. sæti (við í 12.) en við getum komist upp í 9. sæti ef við sigrum með 2 mörkum eða fleirum (og úrslit í öðrum leikjum verða hagstæð). Þetta verður þó erfiður róður, ef marka má undanfarna tvo leiki, því við höfum átt í erfiðleikum með að skapa okkur almennileg færi á meðan annar sóknarmaður Norwich hefur skorað 5 mörk í 7 leikjum (Holt) og hinn 5 í 6 leikjum (Morison). Vörnin þeirra hefur þó fengið á sig töluvert af mörkum á útivelli, þannig að vonandi náum við að læða inn nokkrum.

Flestir stuðningsmenn vonast líklega eftir því að Drenthe verði orðinn nógu góður til að spila eftir að hafa meiðst á fæti um daginn en hann gaf okkur (fyrir meiðslin) aukið bit í sóknarleiknum, nokkuð sem hefur sárlega vantað í fjarveru hans. Spurning hvort Rodwell og Osman verði orðnir nógu góðir en Moyes er vongóður með þá. Anichebe er frá, eftir sem áður (allavega fram að áramótum var sagt). Hjá Norwich er de Laet frá, sem og fyrrum sóknarmaður okkar, James Vaughan. Þess má svo geta að fyrrum markvörður okkar, John Ruddy, leikur líklega í markinu hjá þeim.

Það hafa verið margar jákvæðir fréttir um klúbbinn í vikunni. Þess er ekki langt að bíða að Landon Donovan sjáist í Everton treyju aftur, eins og fram hefur komið. Einnig skrifaði Ross Barkley undir langtímasamning við félagið, fjögurra og hálfs árs samningur til sumars 2016, aðeins nokkrum dögum eftir 18 ára afmælisdaginn sinn. Það er mikill léttir að hann sé búinn að skrifa undir, enda er hann líklega einn efnilegast leikmaðurinn sem hefur komið upp í gegnum unglingastarfið á undanförnum árum og hefur verið orðaður við mörg stórlið í fréttum. Barkley spilaði sinn fyrsta U21 árs leik með Englandi á dögunum og var fyrirliði (og skoraði jöfnunarmarkið) í sigurleik í vikunni í Youth Cup gegn Crystal Palace.

Fréttir hermdu einnig að Cliftonville hefðu samþykkt tilboð Everton og Swansea upp á 100þ pund í sóknarmanninn Rory Donnelan, sem er sóknarmaður sem þykir mikið efni og hefur verið í fantaformi í írsku 2. deildinni. Hann leikur einnig með U21 árs liði Norður Íra. Enn er þó eftir að semja um laun og slíkt við leikmanninn.

Og í lokin má geta þess að Jagielka var valinn leikmaður nóvembermánaðar, eftir að hafa skorað mikilvægt mark gegn Úlfunum og verið valinn í enska landsliðið.

Comments are closed.