Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Bolton – Everton 0-2 - Everton.is

Bolton – Everton 0-2

Sama lið byrjaði leikinn og í sigurleiknum á móti Wolves, fyrir utan Drenthe sem var ekki í hópnum sökum meiðsla (Bily kom inn á í hans stað) en auk Drenthe voru Distin og Neville einnig meiddir. Sama gilti um Rodwell en Moyes sagðist vonast til þess að Rodwell geti byrjað að æfa aftur í næstu viku.

Leikurinn fór rólega af stað en fyrstu 20 mínúturnar átti hvort lið eitt skot sem rataði á markið. Bolton átti fyrst skot yfir en Jagielka átti fyrsta almennilega færið með skoti, sem hann fékk eftir sendingu úr aukaspyrnu Baines af hægri kanti, en Jaaskelainen, markvörður Bolton, varði vel. Við náðum svolítilli pressu á Bolton og fengum 3 hornspyrnur í röð en ekkert kom úr því.

Klasnic átti svo skot utan við vítateig (hálf-færi) sem Howard sló í burtu. Á 20. mínútu gerðist það svo að Wheater fær boltann í vörninni en fyrsta snertingin er slæm og hann missir boltann of langt frá sér. Bily var fyrri í boltann en Wheater fer þá (með takkana á undan sér) beint í sköflunginn á Bily, sem hefði annars verið kominn einn á móti varnarmanni með Saha ekki langt undan. Rautt spjald á Wheater og lítið yfir því að kvarta, Bolton einum færri.

Moyes sagði eftir leikinn að pressan á að standa sig hefði aukist nokkuð á Everton við rauða spjaldið hjá Bolton og það væri eins og við hefðum farið að flýta okkur svolítið of mikið. Bily átti ágætis færi en skaut yfir slána þegar hann hefði átt að láta boltann fara því þá hefði Osman líklega náð betra skoti. Johnny átti skot að marki úr aukaspyrnu og Cahill átti skalla en markvörður Bolton var vel á verði. Restin af fyrri hálfleik rann svo sitt skeið á enda eftir hverja Everton sóknina á fætur annarri en án þess að skapa almennilegt marktækifæri. Því var markalaust í hálfleik.

Í seinni hálfleik small þetta betur saman og það tók ekki nema 4 mínútur fyrir Osman að gefa fallega sendingu á Bily sem átti flotta fyrirgjöf á Fellaini sem skoraði og varð þar með markahæstur á tímabilinu ásamt SJÖ (!) öðrum leikmönnum Everton sem einnig hafa skorað tvö mörk (að Arteta meðtöldum). 

Jaaskelainen hélt áfram að verjast vel í seinni hálfleik, fyrst skot frá Coleman og svo annan skalla frá Cahill en okkur virtist ekki ætlað að skora annað mark og um tíma leit meira að segja út fyrir í seinni hálfleik að Bolton væri að komast inn í leikinn aftur í um 15 mínútna kafla þar sem þeir náðu upp pressu og áttu skot sem Howard varði glæsilega og hélt forystunni fyrir okkur.

Vellios kom svo inn á fyrir Saha á 74. mínútu og var ekki búinn að vera inn á í nema fjórar mínútur þegar hann skoraði mark (með sinni annarri snertingu) og þar með orðinn markahæstur í liðinu með 3 mörk. Markið kom þegar Baines sendi fyrir markið af vinstri kanti og til Cahill sem var á fjærstönginni og sendi boltann aftur fyrir markið þar sem Vellios átti ekki í erfiðleikum með að skora. Annar sigurinn í röð því staðreynd og stigin þrjú kærkomin eftir erfiða törn undanfarið.

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Heitinga 7, Jagielka 7, Baines 9, Hibbert 6, Coleman 8, Fellaini 7, Osman 7, Bily 8, Cahill 7, Saha 5. Varamenn: Barkley 7, Vellios 7, Gueye 0 (einhver mistök þar á ferð). Leikmenn Bolton fengu aðallega fimmur og sexur nema markvörður þeirra, sem fékk 8, varnarmaðurinn Gary Cahill (7) og Wheater sem fékk 3 (m.a. fyrir rauða spjaldið).

Comments are closed.