Everton liðið var óbreytt frá byrjunarliðinu gegn Aston Villa sem þýddi að Neville var áfram á bekknum, ásamt Drenthe og Stracqualursi. Uppstillingin því 4-5-1 með Baines, Distin, Jagielka og Hibbert í vörninni, Bily á vinstri kantinum, Fellaini og Rodwell á miðjunni, Coleman á hægri kantinum, Cahill einn frammi en Osman fyrir aftan hann. Athygli vakti að Saha komst ekki einu sinni á bekkinn að þessu sinni, einhverra hluta vegna, þrátt fyrir að vera leikfær. Vonandi kemur hann þá í staðinn grimmur inn í bikarleikinn í vikunni.
Leikurinn þróaðist ágætlega til að byrja með og við náðum fljótt undirtökunum og sköpuðum okkur færi á meðan ekkert var að gerast hjá Wigan — ekki neitt. Rodwell átti skotfæri og Coleman síðar skalla en ekkert kom úr því. Cahill fékk svo skot frá Fellaini í sig og þar fram eftir götunum. Það vantaði því að klára færin og okkur var refsað því þá ná Wigan menn færi (sínu fyrsta?) eftir um hálftíma leik, þar sem Di Santos ýtir Osman, Osman stoppar — heldur greinilega að dómarinn sé að fara að dæma á Di Santos sem hleypur bara í staðinn inn í teig, skýtur boltanum í Hibbert, sem kemur aðvífandi, boltinn breytir við það um stefnu og fer í jörðina og svo upp í fjær hornið fram hjá Howard. 0-1 fyrir Wigan — algjörlega gegn gangi leiksins.
Það tók samt ekki nema um 100 sekúndur að jafna þegar við fengum horn og Cahill stekkur manna hæst (eins og svo oft áður) og þrumar skallabolta í slána og niður þar sem Jagielka er vel vakandi og skallar boltann í netið (sjá mynd) og jafnaði leikinn.
Eftir þetta dalaði leikurinn verulega, sérstaklega í seinni hálfleik og sá sem lýsti leiknum orðaði það ágætlega, að Everton væri "dragged down to Wigan’s level of slow play and sloppy passing". Get ekki orðað það betur. Í leiknum gegn Aston Villa sýndu flestir ef ekki allir sínar bestu hliðar en á heildina litið spiluðu flestir undir getu í þessum leik og útlit fyrir að þetta yrði þriðji slaki jafnteflisleikurinn við Wigan í röð. Vellios, Drenthe og Stracqualursi komu inn á fyrir Coleman, Bily og Cahill en það virtist ekki ætla að hafa tilætluð áhrif og oft sem menn tóku rangar ákvarðanir við markið og sendu þegar ætti að skjóta eða öfugt.
Þetta breyttist þó skyndilega þegar Hibbert sendi frábæra sendingu inn á teiginn undir lok leiksins þar sem Vellios stökk upp og skallaði boltann í netið á 84. mínútu. 2-1 fyrir Everton. Í næstu sókn Wigan skall hurð nærri hælum þegar þeir skutu í slána og niður og boltinn lendir hjá Wigan manni sem nær ekki að nýta frákastið því Hibbo kastar sér fyrir skotið. Rétt undir lokin tók Drenthe svo sprettinn eftir útspark frá Howard og fékk þessa fínu stungusendingu frá Straqualursi og komst einn inn fyrir og lagði boltann vel framhjá markverði Wigan á 98. mínútu.
3-1 sigur í höfn, þrátt fyrir slakan leik — en ekki laust við að maður ræki upp stór augu þegar stjóri Wigan sagðist ekki hafa fengið það sem þeir ættu skilið í leiknum. Ég get ekki betur séð en að 1 stig hefði verið full rausnarlegt. Það er annars fínt að landa 3 stigum fyrir þá erfiðu törn sem nú er fyrir höndum í deildinni: Man C úti, Liverpool heima, Chelsea úti, Fulham úti og Man U heima. En fyrst er þó bikarleikur við West Brom í miðri viku en þeir töpuðu fyrir Swansea 3-0 á útivelli. Með sigrinum færðumst við upp í 8. sæti í deildinni með 7 stig eftir 4 leiki.
Ef þið viljið sjá mörkin, smellið þá hér (gætuð þurft að vera snögg því þetta verður líklega tekið niður von bráðar).
Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Baines 7, Distin 7, Jagielka 7, Hibbert 7, Bily 6, Rodwell 7, Fellaini 6, Coleman 7, Osman 8, Cahill 7. Varamenn: Drenthe 7, Vellios 7, Stracqualursi 6. Hjá Wigan var þetta mest megnis sexur og sjöur nema Di Santo með 8.
Comments are closed.