Ég get nú ekki annað sagt en að ég finni örlítið til með leikmönnum og stuðningsmönnum Blackburn. Á 10. mínútu áttu þeir skot í innanverða stöngina sem að öllu jöfnu hefði farið inn en skoppaði í staðinn framhjá markinu. Howard ver svo víti á 46. mín og hálftíma síðar fá þeir annað sem fór forgörðum hjá þeim (á 77. mínútu) þegar þeir skutu í stöngina. Í lokin átti varamaður hjá Blackburn (Goodwillie) svo skot í stöng og skapaði usla upp við mark Everton undir lokin. Við fáum svo víti þegar komið er tveimur mínútum fram yfir venjulegan leiktíma og Arteta skorar úr því, eiginlega síðasta skot að marki í leiknum. Það var einfaldlega eins og Blackburn væri ekki ætlað að vinna leikinn. Og til að bæta gráu ofan á svart missa þeir tvo leikmenn út af í meiðsli.
Við áttum svo sem okkar færi, sérstaklega eitt á 73. mínútu þegar Anichebe gaf flotta sendingu inn í teiginn á Fellaini sem var óvaldaður en náði ekki nógu góðu skot að marki og boltinn fór yfir. En leikmenn Blackburn voru samt betri og áttu mun betri færi. En það er þó ekki eins og við höfum ekki oft verið í nákvæmlega sömu stöðu og þeir í dag, ná ekki að nýta sér yfirburðina og fá á sig "suckerpunch" sem reynist sigurmarkið.
Vörnin og markvörður stóðu sig mjög vel í leiknum en miðjan (og sóknin sérstaklega) virkaði bitlaus og minna um jákvæða hluti þar. Kærkomin þrjú stig samt sem áður. Það er þó ekki laust við að maður ræki upp stór augu þegar ég sá BBC segja að vítið sem við fengum í lokin hafi eitthvað orkað tvímælis. Mér finnst það fjarstæða, kannski réttara að skoða þátt Mauro Formica sem skv. Moyes fiskaði báðar vítaspyrnur Blackburn með leikaraskap. Kannski var réttlætinu bara fullnægt.
Hér er svo vídeó sem sýnir hluta af því sem gerðist í leiknum (þeas. ef þið eruð snögg — vídeóið verður líklega tekið niður bráðlega).
Howard var algjörlega maður leiksins að mínu mati. Sky Sports var þó ekki sammála: Howard 8, Baines 9, Heitinga 6, Jagielka 4, Distin 7, Neville 7, Fellaini 5, Arteta 6, Barkley 5, Osman 7, Anicebe 4. Varamenn: Bily 5, Cahill 7, Beckford 5. Hjá Blackburn fengu Samba og Formica 8, aðrir voru lægri.
Svo að lokum má geta þess að við drógumst á móti úrvalsdeildarliðinu West Brom á heimavelli í 3. umferð Carling Cup.
Comments are closed.