Á morgun (laugardag kl. 14:00) höldum við til Ewood Park þar sem við mætum Blackburn. Þeir hafa byrjað tímabilið afleitlega með því að tapa fyrstu tveimur leikjum sínum (gegn Úlfunum 1-2 á heimavelli í fyrsta leik tímabilsins og svo gegn Aston Villa 3-1 á útivelli) og mæta því örugglega grimmir til leiks. Á síðasta tímabili mættum við þeim á heimavelli þeirra í upphafsleik tímabilsins þar sem Tim Howard gerði sig sekan um slæm mistök þegar hann missti boltann inni í vítateignum sem leiddi til þess að Blackburn skoraði sigurmarkið. Þetta reyndist vera í fyrsta skipti í 7 leikjum sem þeim tókst að vinna okkur á eigin heimavelli í Úrvalsdeildinni og setti tóninn fyrir restina af tímabilinu hjá okkur. Það væri því ágætur tími núna að hefna þess og hefja sigurgönguna í deildinni á nýju tímabili.
Hjá okkur hafa engin ný meiðsli (svo vitað sé) komið upp eftir sigurleikinn á móti Sheffield United og Bily er kominn aftur úr banni þó hann byrji líklega á bekknum. Líklegt er að Cahill, Beckford (sem voru tæpir fyrir síðasta leik) eigi allir séns en Coleman og Gueye eru áfram báðir meiddir. Hjá Blackburn er óvíst með varnarmanninn Ryan Nelsen en fyrirliðinn Chris Samba er líklega kominn aftur úr meiðslum en hann hefur ekkert spilað með Blackburn á tímabilinu. Saha ætti að ná að spila allavega hluta leiksins, enda kom hann við sögu gegn Sheffield United.
Í öðrum fréttum er það helst að samningaviðræður við Fellaini standa nú yfir og ganga vel, að sögn. Vonandi að hann skrifi undir bráðlega. Dregið verður svo í 3. umferð deildarbikarsins á morgun klukkan ca. 11:15 og verða leikirnir spilaðir í vikunni sem hefst 19. september.
Comments are closed.