Mynd: Everton FC.
Það er stutt í næsta leik þar sem Everton á fyrsta leik helgarinnar, hádegisleik (11:45) á laugardeginum á útivelli við Southampton. Með jafntefli myndi Everton taka fjórða sætið af Arsenal — allavega um stundarsakir þar sem Arsenal eiga ekki leik fyrr en á mánudagskvöld (heima við Newcastle). Sigur er þó það sem við viljum gjarnan sjá þó ekki nema til að setja almennilega pressu á Arsenal. Martinez sagði í viðtali að markmiðið væri að vinna síðustu þrjá leikina sem eftir væru enda væri Everton með 69 stig í augnablikinu en í ljósi sögunnar (síðasta áratuginn rúman) þyrfti um 72-75 stig til að komast í Champions League.
Maður getur varla beðið eftir næsta leik eftir að Everton afgreiddi Man United á heimavelli í síðasta leik — og leit um leið ferskari út í leiknum en United sem höfðu þó haft 11 daga til að hvíla liðið á meðan Everton var að spila þriðja leik sinn á átta dögum.
Coleman var eftir leikinn valinn — ekki bara maður leiksins af klúbbnum — heldur einnig í lið tímabilsins að mati Goal tímaritsins en hann er sá varnarmaður sem hefur skapað liði sínu flest mörk, 6 mörk og tvær stoðsendingar. Ekki slæmt fyrir leikmann sem kostaði 60 þúsund pund á sínum tíma!
Það setur nokkuð strik í reikninginn í baráttunni um fjórða sætið að á meðan Arsenal er að fá lykilmenn aftur til baka að Everton er að missa nokkuð af sínum lykilmönnum í meiðsli. Distin missir til dæmis líklega af leiknum og spurning hvað hann verður lengi frá — jafnvel út tímabilið. Mirallas verður pottþétt frá vegna vandamáls í nára, 5-6 vikur að metið er og missir því af lokum tímabils en væntanlega ekki af HM. Að sögn Martinez verður þó endurkomu Jagielka ekki flýtt vegna meiðsla Distin.
Þær gleðifregnir bárust þó að Oviedo hefur haldið áfram undraverðum bata sínum af því að hafa tví-fótbrotnað fyrir aðeins um 12 vikum síðan en hann er byrjaður að hlaupa aftur og hefur sett markið á að vera orðinn heill fyrir HM í sumar, sem var nokkuð sem litlar líkur voru taldar á þegar fótbrotið átti sér stað.
Líkleg uppstilling fyrir Southampton leikinn: Howard, Baines, Alcaraz, Stones, Coleman, Barry, McCarthy, Deulofeu, McGeady, Barkley, Lukaku. Hjá Southampton eru Kelvin Davis, Maya Yoshida og Jay Rodriguez meiddir, en sá síðastnefndi er markahæstur í liði þeirra.
Þær fréttir bárust einnig að til stæði að freista þess að fá gömlu kempuna Joe Royle til starfa í akademíu Everton en hann ætti að geta miðlað af töluverðri reynslu sinni með Everton eftir að hafa leikið 275 leiki fyrir Everton (og skorað 119 mörk) og stýrt Everton til sigurs í FA bikarnum árið 1995.
Af ungliðunum er það að frétta að John Lundstram framlengdi lán sitt með Leyton Orient fram til loka tímabils. Einnig lögðu Everton U18 lið Sunderland U18 á útivelli með tveimur mörkum gegn engu en mörk Everton í leiknum skoruðu þeir Dyson og Donohue. Everton U18 eiga nú — eftir 10 leiki án taps í röð — smá séns á efsta sætinu í norðurriðli þar sem nú trónir lið Manchester City U18. Everton liðið er þremur stigum á eftir City þegar aðeins tveir leikir eru eftir en undankeppnin telur 31 leik. Bæði lið hafa þegar tryggt sér sæti í úrslitakeppninni þar sem nokkuð langt er í næsta lið fyrir neðan (Liverpool U18 vantar fimmtán stig til að komast upp fyrir Everton — en á aðeins tvo leiki eftir og eru því úr leik). Í hinum riðlinum eru Tottenham U18 nokkuð öruggir áfram og West Ham U18 líklegir en Fulham U18 eiga enn í harðri baráttu við þá þar sem þeir eiga tvo leiki til góða.
Southampton á laugardaginn. Hver er ykkar spá um úrslit og/eða skoðun á liðsuppstillingunni?
Fer ekki að verða sjálfraðað í liðið sökum meiðsla. Nú verðum við bara að vera bjartsýnir á síðustu leikina 1-3 Coleman, lukaku með 2
Þetta verður erfiður leikir. Southampton hafa verið öflugir í vetur, þó heldur hafi dregið af þeim eftir sem liðið hefur á tímabilið. Vonandi að áhugaleysi hái þeim í leiknum enda ekki að miklu að keppa fyrir þá. Er samt hræddur við þennan leik. Spái jafntefli 2-2, Alcaraz og Naismith með mörkin.
Er sammála Hólmari. Þetta verður mjög erfiður leikur hjá okkar mönnum. Ég vona nú samt að við vinnum leikinn svo við getum elt Arsenal. Ég held hann fari 2-3 fyrir Everton, mörkin skora Barkley Coleman og Lukaku. Við segjum áfram Everton og tökum leikinn.
Held því miður að þetta fari 2-2 og spái að Naismith Róbertsson geri bæði mörkin fyrir okkur, vera svo duglegir að mæta á ÖLVER á morgun tímanlega kv Baddi.
Þetta verður flottur leikur það læðist að mér sá grunur að við sigrum Southampton en ég vil ekki setja tölur en ég sé samt stórar tölur……. 😉
kær kveðja,
Ari
ps. það er svo gaman að segja told you so…
Spái 3:1 fyrir Everton. Lukaku, Barkley og Baines með mörkin. Hræðilegt að missa Mirallas og Distin en ég treysti alveg Alcaraz að fylla skarð Distin en ég hef efasemdir um Gready fylli skarð Mirallas. Hvað er að frétta af Pineer? Naismith er miklu betri fyrir miðju með Lukaku alls ekki hafa hann á kantinum mín skoðun. Eins gott að Spánverjinn ungi taki leikinn í sínar hendur spái honum mann leiksins.
Pienaar meiddist á hné um það leyti þegar Everton byrjaði á sigur-„rönninu“ sem — fyrir utan Palace leikinn — virðist engan enda ætla að taka. 🙂 Martinez sagði þó í síðasta viðtali að hann hefur ekki gefið upp vonina að fá að njóta krafta Pienaars fyrir lok tímabils (og sama mætti segja um fleiri á sjúkralistanum) en mér finnst einhvern veginn ólíklegt að við sjáum Pienaar fyrr en í sumar. Aldrei að vita þó.
Uppstillingin komin:
http://everton.is/?p=7252