Mynd: Everton FC.
Uppstillingin var eftirfarandi: Howard, Oviedo, Distin, Jagielka, Coleman, Deulofeu og Pienaar á köntunum, Barry og Osman líklega á miðjunni, Barkley fyrir aftan Lukaku frammi. Bekkurinn: Robles, Heitinga, Jelavic, Mirallas, Naismith, Stones, Alcaraz.
Fyrri hálfleikur:
Leikurinn fór nokkuð rólega af stað. Everton mikið meira með boltann eins og við var að búast og sóttu helst niður vinstri kantinn. Fulham vörðust með 10 leikmenn í eða rétt við vítateig. með Berbatov hálf einmanna frammi á miðjupunktinum. Ekki kom eins mikið út úr hægri kanti Everton og þeim vinstri, allavega til að byrja með þar sem Deulofeu var svolítið lengi að ná sér almennilega í gang.
Everton fékk ágætis færi (tvö í sömu sókn) á 14. mínútu þegar Jagielka skallaði rétt framhjá markinu en Osman var næstum búinn að ná að pota honum inn líka.
Það kom þó ekki að sök því Everton skoraði á 18. mínútu eftir snögga sókn. Oviedo á hliðarlínu vinstra megin fann Pienaar við vítateigshornið og hann framlengdi á Osman sem var við „D-ið“. Osman var ekkert að tvínóna við þetta, staðráðinn í að sýna að hann eigi að vera í byrjunarliðinu, tók smá gabbhreyfingu, steig skrefið til vinstri og losaði sig þannig við varnarmanninn og skaut framhjá Stecklenburg í markinu! 1-0 Everton!
Og það var eins og markið kveikti undir Deulofeu, sem lék vinstri bakvörð Fulham sundur og saman á 20. mínútu en skotið rétt framhjá stönginni.
Barry átti skalla stuttu síðar sem fór í Lukaku og breytti um stefnu og Stecklenburg þurfti að taka á honum stóra sínum til að verja það í horn. Þar hefði staðan átt að vera 2-0.
Deulofeu átti skot sem fór hátt yfir og stungu sem var aðeins of framarlega fyrir Lukaku en Everton menn voru greinilega staðráðnir í að bæta við — lítið að gerast hjá Fulham í sókninni.
Coleman átti glæsilegt skot stuttu síðar sem var vel varið í horn og Osman með skot rétt framhjá. Lukaku náði skot á mark eftir fyrirgjöf frá Deulofeu en varið í horn. Nóg af skotum og færum hjá Everton til að komast vel framúr.
En, staðan 1-0 í hálfleik og Everton með töluverða yfirburði. Fulham varla komist í sókn í fyrri hálfleik enda Everton með boltann 63% leiks (Fulham 37%) og mest á vallarhelmingi Fulham og náði fjórum skotum á markið.
Ég missti af völdum köflum úr seinni hálfleik, sérstaklega byrjun og loks hans, þar sem ehemm… útsendingin var eitthvað að stríða manni… en það var þó greinilegt að síðari hálfleikur var mun slakari en sá fyrri og leikmenn virtust mæta illa stemmdir í hann — kannski bara litið svo á að það væri formsatriði að klára tuttugasta og fyrsta sigurleikinn í röð í deild gegn Fulham á Goodison Park.
Fulham fengu tvö frábær tækifæri í upphafi seinni hálfleiks til að jafna metin, fyrst Scott Parker sem átti skot eftir að boltinn hafði borist til hans vegna misskilnings í vörn Everton (Osman að þvælast fyrir Jagielka). Howard bjargaði þó Everton meistaralega þar. En aðeins tveimur mínútum síðar áttu Fulham enn betra færi. Þeir náðu skoti að marki sem Howard varði en boltinn barst beint til sóknarmanns Fulham sem stóð fyrir framan opið markið en lúðraði boltanum hátt upp í stúku (Howard á jörðinni — ekki haft tíma til að standa upp).
Eftir þetta var útsendingin stopul. Oviedo átti skot á 56. mínútu, sá ég, sem breytti um stefnu og varnarmaður út við stöng skallaði í horn. Markvörðurinn þeirra strandaður.
Svo kom fimm mínútna skelfilegur kafli. Fyrst var Deulofeu borinn út af meiddur á 61. mínútu (sýndist hann togna upp úr engu, en ekki viss — Mirallas inn á) og svo gaf Barry víti á 65. þegar hann fór aftan í sóknarmanninn í tilraun sinni til að ná til boltans. Berbatov skoraði örugglega úr vítinu, staðan 1-1 og margir leikmenn Everton örugglega farnir að naga sig í handarkrikann 🙂 á þeim tímapunkti eftir að hafa næstum verið komnir 2-0 eða 3-0 yfir í fyrri hálfleik.
Það breyttist þó með þremur mörkum frá Everton: Fyrst var það Coleman á 72. mínútu en boltinn barst til hans fyrir opnu marki eftir nett samspil gegnum vörnina (hjá Pienaar og Lukaku) og Coleman ekki í nokkrum vandræðum með að skora.
Næstur var Barry sem var fljótur að hugsa þegar boltinn barst til hans fyrir opnu marki upp úr horni og hann skallaði inn. Spurning hvort Lukaku hafi snert boltann með hendi í undirbúningnum — sá það ekki. Allavega: 3-1 fyrir Everton eftir 84. mínútur.
Pienaar út af fyrir Stones á 86. mínútu, líklega til að þétta vörnina og landa sigrinum, en allar áhyggjur óþarfar hvað það varðar því Mirallas innsiglaði sigurinn með fjórða markinu. Skot af löngu færi á 91. mínútu sem markvörður náði ekki að halda og boltinn í netið.
Lokastaðan 4-1.
Hálf undarlegt að sjá Everton dóminera fyrri hálfleik og skora bara eitt mark en eiga svo slakan leik og skora þrjú. En svona er þetta stundum. Everton þar með komið upp fyrir Liverpool og sitja nú í fjórða sæti. Flott að ná þremur stigum í umferð þar sem nágrannar okkar í deildinni eigast við, City tók þrjú stig af Arsenal og liðin fyrir neðan okkur, Newcastle og Southampton gerðu jafntefli og Tottenham og Liverpool eigast við á morgun.
Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Oviedo 7, Distin 6, Jagielka 7, Coleman 7, Pienaar 8, Osman 7, Barry 6, Deulofeu 8, Barkley 7, Lukaku 6. Varamenn: Mirallas 7, Stones 6. Fulham menn með 6 á línuna, fyrir utan þrjár sjöur og varnarmaðurinn Hughes með 8.
Og góðar fréttir af ungliðunum okkar líka (U18) en þeir unnu Stoke U18 1-0 með marki frá Courtney Duffus:
http://www.evertonfc.com/match/report/1314/everton-u18s-v-stoke-city-u18s
Og Liverpool maðurinn Jamie Carragher farinn að spá því að Gerrard sé að falla í skuggann af Barkley…
http://www.dailymail.co.uk/sport/football/article-2523397/JAMIE-CARRAGHER-Robertos-Everton-good-Liverpool.html
(og á nokkur vel valin orð um Martinez líka — ágætis lesning).
Var að vinna sá ekki leikinn. Alltaf bjargar umsögnin á everton.is svoleiðis aðstæðum…..
Takk fyrir mig 🙂
Flottur sigur í dag, vorum daprir í 30 mínútur í upphafi síðari hálfleiks en skoruðum 4 gegn 1 sem telst gott miðað við að hafa ekki spilað okkar besta bolta.
Rosalega langar mig að fara að lesa yfir eldri fréttir þar sem nokkrir aðilar hér vildu losna við Coleman sem átti ekki svo góða hálfa leiktíð eftir meiðslin fyrir um tveimur árum.
Þessi drengur er orðinn skuggalega góður og ekki síst varnarlega, hann er orðinn alveg frábær varnarlega. Held líka að Stones eigi eftir að verða góður hjá okkur og gaman að sjá Martinez gefa honum nokkrar mínútur í leikjum svona við og við.
Osman kom flottur inn og margir með fínasta leik.
Finnst Howard hafa staðið sig frábærlega í vetur og oft bjargað okkur þegar við höfum átt slæma kafla í leikjum vetrarins.
Hefði reyndar viljað sjá Jelavic fá séns í 10-15 mínútur því það er ekki gott mál þegar Lukaku meiðist eða fer í bann því þá höfum við bara ískalda sóknarmenn til að koma í staðinn, nema við notum Mirallas eða Deulofeu.
Veit reyndar að margir eru ekki hrifnir af Jelavic en ég held að hann eigi helling inni og hafi verið með second season syndrome sem er svo algengt. Hættan er þó á að hann vilji fara frá Everton um áramótin til að fá að komast í séns með Króötum á HM næsta sumar.
Eigum skemmtilega leiki á næstunni sem við ættum að eiga góðan séns á að ná stigum úr. Nú er bara að Liverpool misstígi sig aðeins til að jafna þetta á toppnum.
Hver hefði spáð því að Everton væri um miðjan desember aðeins 4 stigum frá efsta sæti og eina liðið sem bara hefur tapað 1 leik og næstu lið tapað 3 leikjum og að vera 9 stigum ofan við United. Þetta er skrítið sport, hmm.
http://visir.is/everton-upp-fyrir-liverpool-%7C-urslit-dagsins/article/2013131219469
Það er gott að vinna leiki sem eru kannski ekki vel spilaðir en stigin eru 3 og verða ekki tekin af okkur. Ég ætla að vona að Deulofeu sé ekki lengi frá en svona hamstrin meiðsli virðast samnt alltaf vera 3-6 vikur. Nú fer jólatörnin af stað 4 leikir á 11 dögum er ekki krafan bara 12 stig og ekkert kjaftæði
Drengurinn er með 98% heppnaðar sendingar í leiknum og maður leiksins, þetta er viðundur
http://www.squawka.com/news/2013/12/14/relentless-everton-star-completes-98-of-his-passes-as-toffees-crush-fulham/2013121443861?
Að lokum Jólakveðja frá Everton, hehe:
http://metro.co.uk/2013/12/14/everton-players-and-staff-release-hilarious-music-video-to-wish-fans-merry-christmas-4230933/?
Mjög svo gaman að sjá hvar við erum í deildinni á þessum tímapunkti. í 4 sæti, 4 stigum á eftir 1 sæti og svo erum við 4 stigum á undan Newcastle sem eru í 6 sæti. Og ef við spáum í það hvaða leikir eru framundan hjá okkur. Ef við teljum leikinn í dag með að þá eru þetta 7 leikir í röð á móti liðum sem eru um miðja deild eða í neðri hlutanum. Ef við erum ekki í dauða séns núna á að gera góða hluti í deildinni í ár að þá er það aldrei.
Borgar sig ekki vera of bjartsýnn. Næsti leikur gegn Swansea er mjög erfiður eru miklu betri en staða þeirra segir til. Samt er þetta besta lið Everton síðan þeir voru meistarar allavega skemmtilegasta ekki spurning. Allir leikmenn sem Martinez fékk hafa staðið fyrir sínu og vel það nema þessir 2 frá Wigan sem hafa ekkert spilað nema Kone í nokkrar mínutur. Það sem ég óttast mest núna ef fleiri meiðast t.d. Jakielka hver á að fylla skarð hans Heitinga. Alcarez, Stones eða Duffy allir kaldir. Þurfum að taka á þessu tókst með að fylla skarð Baines. Þurfum sóknarmann sem getur skorað Alfreð hefur ekki náð sér á strik með íslenska landsliðinu en verið frábær í hollensku deildinni passar hann í ensku það er spurning. Erfitt að halda sama dampi alla leiktíðina með sömu leikmennina að mestu leiti. Annars er ég sæmilega bjartsýnn að Everton nái 4 sætinu geri mér ekki meiri vonir en það það yrði frábært.
Talandi um Swansea. Rakst á þetta:
http://www.bbc.com/sport/0/football/25391722
Sést vel hvað leikmenn eru hungraðir í að standa sig. Mikill metnaður kominn í liðið, þó það komi stundum smá púst!
Hvernig var það, var ekki verið að byðja okkur að spá hvernig stigataflan yrði um jól, einhverntíman í upphafi leiktíðar?
… Væri gaman að sjá hvernig menn spáðu!
Spáin er hér:
http://everton.is/?p=5193
🙂
Flottur sigur hjá okkar mönnum,eigum góða möguleika á að ná eitthvað að fjórum efstu sætum í deildinni og ef allt gengur upp að vinna deildinna miðað við spilamennsku liðsins fyrri hluta vetrar.
Þetta var mjög sterkur sigur hjá okkur. Við vorum miklu betri í fyrri hálfleik og hefðum léttilega geta verið búnir að skora 2-3 mörk. Hinsvegar í seinni hálfleik þá byrjuðum við ekki nógu vel, 20-30 mín. vorum við ekki nógu öflugir, en þó voru Fulham ekki að skapa sér mörg færi, þeir áttu í raun eitt gott færi á þessum tíma sem hefði geta orðið mark. Svo fannst mér þetta víti vera mjög soft, ég á eftir að skoða það betur en mér fannst Barry sparka í gegnum klofið á Fulham manninum og í boltan og svo flæktust lappirnar saman. Dómarinn var líka mjög lengi að dæma vítið. Hinsvegar komum við sterkir til baka við þessu mótlæti og settum 3 mjög góð mörk og enduðum á þægilegum 4-1 sigri.
Nú höfum við unnið Fulham í 21 heimaleik í röð í deildinni sem er met. Við erum ósigraðir á heimavelli í síðustu 17 leikjum, en það hefur ekki gerst síðan við urðum meistara 86/87 tímabilið. Svo við erum á meistara skriði 😉 Við töpuðum einungis einum heimaleik á síðustu leiktíð, sem var einmitt 1-2 tap gegn Chelsea sem var mjög ósanngjarnt tap. Ég tók saman tölfærði og sá að við höfum bara tapað 1 heimaleik af síðustu 31 í deildinni sem er frábær árangur. Þar af 21 sigurleikur, 9 jafntefli og 1 tap.
Ég held að það sé nokkuð ljóst að ef við fækkum aðeins jafnteflum þá eigum við góðan séns á topp 4. En það er hellingur eftir af tímabilinu en ég held að ef við höldum lykilmönnum heilum og hugsanlega styrkjum okkur aðeins í janúar þá eru allir vegir færir fyrir okkur. Enda höfum við sýnt þessum svokölluðu stórliðum að við getum tekið stig af öllum liðum í deildinni og loksins eru sérfræðingar farnir að tala um Everton sem alvöru lið í þessari toppbaráttur.
Áfram Everton!
Takk, en nei takk!!!http://www.caughtoffside.com/2013/12/15/man-united-ready-to-offer-tom-cleverley-in-deal-to-sign-everton-starlet-ross-barkley/?
Ég hef engar áhyggjur, Barkley fer ekki neitt. Hann hlýtur að sjá hvað hann hefur það gott hjá okkur.
Greining Executioner’s Bong á leiknum er flott:
http://theexecutionersbong.wordpress.com/2013/12/15/tactical-deconstruction-everton-4-1-fulham/
Hvernig er það er ekki komið nóg af írum í hópinn hjá okkur?bara pæling jólakveðja að norðann.
Er ég að missa af einhverju? Tom Cleverly er Englendingur ef þú átt við hann…
Þú ert þá líklega að missa af Aiden mcGeady eða hvað hann nú heitir þessi blessaður maður 🙂
Æ, já. Hann. Ég leiddi það nú hjá mér eins og flestar svona sögusagnir… 🙂
En ég veit annars ekki – erum við með of mikið af Írum? Miðað við hvernig Coleman og McCarthy eru að spila myndi ég nú bara segja nei… 🙂
Er ekki sama hvaðan gott kemur,bara að það komi.
alveg sammála ykkur, frændur okkar Írar eru velkomnir í liðið ef þeir bæta það 🙂
Er Gunnþór eitthvað á móti rauðhærðum 🙂
Nei alls ekki ég er gríðarlega ánægður með þá sem eru að spila með okkur núna ,en ef Aiden myndi bætast við er komin annsi hátt prósentuhlutfall af írska landsliðinnu i okkar hóp með fullri virðingu fyrir því,eru þeir ekki fimm nú þegar,
En Finnur held að það sé meira slúður að Clevery sé að koma til okkar,Barkley ætlar að spila í meistaradeildinni með okkur á næsta ári.Eruð þið ekki sammála því.
Ég hef heyrt marga vitleysuna — en Barkley fyrir Cleverly… Hvað eru menn að drekka þarna hjá CaughtOffside? 🙂
Sammála það er eitthvað sterkara en við þekkjum, og erum við með pínu reynslu í þessu Finnur.
Ég hef ekki snert neitt nema messuvínið frá því ég fermdist. Þar á undan, aftur á móti… 😉
Hefur þú séð eitthvað um þennan Aiden virðist vera týpa en ég er ekki sannfærður,sterkur orðrómur um að hann sé að semja við Everton.
Hann er samningsbundinn Spartak Moskvu til ársbyrjunar 2015.
veit en hann vill losna frá Rússlandi útaf því að fjölskyldan var ekki að finna sig þar og Spartak eru að leyfa honum að fara ef það kemur tilboð í hann.
Aiden McGeady er nú Skoskur piltur þó hann hafi ákveðið að spila fyrir Írska landsliðið (afi og amma eru Írar).
Ástæðan virðist vera sú að þegar hann var gjaldgengur í u-16 landslið þá átti hann skv. Skoskum reglum ekki möguleika á að spila fyrir u-16 Skota nema að vera að spila með Skosku skólaliði. Hann ákvað því að spila með Írska U-16 og hélt áfram í næstu U-flokka þar til hann kom á international level og var þá boðið að spila með Skoska landsliðinu. Hann hafnaði því þar sem hann hafði spilað með yngri flokkum Írska landsliðsins og vildi bara halda áfram þar. Merkilegt finnst mér.