Þvílíkur endir á tímabilinu! 32 mörk skoruð í síðustu umferðinni og þar með samtals 1066 mörk á tímabilinu öllu, sem hefur aldrei gerst áður á 38 leikja tímabili.
Lokaleikur okkar á tímabilinu var við Newcastle og ljóst var að með sigri myndum við tryggja okkur 7. sætið, með Liverpool og Fulham á hælunum. Völlurinn leit vel út í sólskininu en það var greinilega nokkuð vindasamt á vellinum.
Maður var kátur að sjá leikmenn eins og Baines og Gibson aftur í liðinu eftir meiðsli. Uppstillingin: Howard, Baines, Heitinga, Jagielka, Hibbert. Pienaar á vinstri kanti, Gibson og Neville á miðjunni, Osman á hægri kanti. Fellaini fyrir aftan Jelavic frammi.
Everton liðið lék frábærlega í fyrri hálfleik, var mikið meira með boltann en Newcastle og gerði nóg til að skora 4-5 mörk. Newcastle liðið virkaði stirt á móti léttleikandi Everton liði sem oft á tíðum sýndi frábær tilþrif í sendingum manna á milli og var sífellt að leita að smugum í vörn Newcastle. Gaman að sjá leikmenn Everton leika svona fullir sjálfstraust. Newcastle aftur á móti virkuðu taugaveiklaðir og áttu ekkert skot á markið í fyrri hálfleik.
Á 16. mínútu fær Fellaini að hlaupa óáreittur með boltann í átt að vítateig Newcastle hægri megin og sendir á Pienaar sem er fyrir utan teig vinstra megin. Pienaar ákveður bara að leggja boltann fyrir sig og skjóta á markið en boltinn breytir um stefnu af Williamson í vörn Newcastle og boltinn í netið uppi vinstra megin. 1-0 Everton!
Everton liðið virkaði hættulegt í öllum sóknum og mörgum sinnum skall hurð nærri hælum hjá Newcastle. Sérstaklega var gaman að fylgjast með Pienaar í samspili við Baines og Fellaini, svo nokkrir séu nefndir, alltaf leitandi að færum.
Baines sendi fyrir markið á Jelavic en sá síðarnefndi rangstæður. Pienaar átti þrumuskot í vinstri stöngina neðanverða eftir sendingu fyrir markið frá endalínu frá annaðhvort Osman/Heitinga. Newcastle heppnir að vera ekki 2-0 undir. Everton með algjöra yfirburði í leiknum.
Cabaye hjá Newcastle er á 25. mínútu eða svo ósáttur við að einn boltastrákurinn væri ekki nógu fljótur að afhenda boltann og hrindir stráknum í sætið sitt. Mikið stórmenni þar á ferð, greinilega (Cabaye). Allt brjálað á pöllunum. Cabyae átti að mínu mati spjald skilið en slapp við það, einhverra hluta vegna.
Það kom þó ekki að sök, því Jelavic fékk frábæra sendingu inn fyrir vörn Newcastle, tekur boltann á bringuna (mögulega fór boltinn í höndina við öxl líka — sá það ekki nógu vel), leggur hann fyrir sig (frábær fyrsta snerting) og nær föstu skoti sem Krul í markinu ver vel. Jelavic er þó fyrstur í frákastið, þykist ætla að skjóta með vinstri (platar Krul) en skiptir svo yfir á hægri og skorar. 2-0 fyrir Everton.
Arsenal að gera jafntefli við West Brom á þeim tíma og Tottenham að vinna sinn leik svo að Champions League markmið Newcastle um það bil að hverfa sjónum.
En Everton menn voru ekki hættir. Baines á fyrirgjöf sem Krul nær að verja við fæturna á Fellaini. Tiote (á gulu spjaldi) klippir niður Pienaar þar sem Pienaar fer framhjá honum, en Tiote slapp við annað gult spjald. Gibson á flott skot rétt utan við teig en boltinn rétt framhjá stönginni.
Gutierrez átti upp úr þessu ágætt færi en hitti ekki markið. Besta færi Newcastle í fyrri hálfleik. Smá injury-scare hjá Fellaini, sem þurfti að fara út af um tíma til að fá smá meðferð hjá liðslækninum. Gibson átti svo annað skot sem Krul ver en skotið svo fast að hann náði ekki að halda því. Jelavic að sjálfsögðu mættur að reyna að taka frákastið en Krul nær að halda boltanum í 2. tilraun.
Skot frá Cisse í utanverðum teignum rétt fyrir hálfleik hitti ekki á markið. Sýndist hann skjóta í samherja og út af.
Í hálfleik skokkar Cabaye til boltastráksins og afsakaði hegðun sína. Gott mál. Everton algjörlega ráðið lögum og lofum, verið miklu meira með boltann en Newcastle og litu út fyrir að vita meira hvað ætti að gera við boltann líka. Hefði viljað sjá fleiri mörk en þessi tvö sem skoruð voru í fyrri hálfleik, en maður kvartar svo sem ekki yfir því að vera tveimur yfir. Everton með boltann um 60% hálfleiks og átti 5 skot sem hittu á mark Newcastle. Newcastle átti ekkert skot sem rataði á rammann, eins og fram hefur komið.
Pardew, stjóri Newcastle, hefur greinilega lesið yfir sínum mönnum sem efldust nokkuð í seinni hálfleik og voru meira með boltann. Tvöföld skipting hjá þeim yfir í 4-3-3, Perch og Santon út af fyrir Taylor og Marveaux. Fyrsta færið var líka þeirra, Papa Cisse í fínu færi en flýtIr sér of mikið og skýtur framhjá. Cisse var ekki hættur en hann átti síðar skalla sem fer í Fellaini og út af í horn.
Arsenal nú komið yfir á móti West Brom og róðurinn því enn þyngri fyrir Newcastle að komast í Champions League.
Jelavic aftur í færi á 55. mínútu kominn einn upp völlinn en skot Jelavic framhjá. Aðeins að lifna yfir okkar mönnum sem voru enn að átta sig á breytingu á liðsskipulagi Newcastle. Gibson átti skot, en Krul ver. Gibson greinilega staðráðinn í að skora í leiknum. Stuttu síðar meiddist Howard þegar hann rennur í útsparki, en hélt þó áfram eftir að hafa fengið aðhlynningu utan vallar um tíma. Jagielka tekur við útspörkum eftir þetta.
Stuttu síðar brýtur varnarmaður Newcastle á Jelavic með því að augljóslega halda honum niðri (hangandi utan um hálsinn á honum) en dómarinn þorði greinilega ekki að dæma víti. Það kom þó ekki að sök því aðeins tveimur mínútum síðar (65. mín) bætti Everton við þriðja markinu. Gibson átti flotta fyrirgjöf úr aukaspyrnu fyrir mark Newcastle og þar stekkur Heitinga upp einn og algjörlega óvaldaður og skallar boltann í netið. Miðverðir Newcastle algjörlega úti á þekju! 3-0 Everton. Fyrsta deildarmarkið hjá Heitinga á tímabilinu (fyrra mark hans var í bikarnum). Frábær stemming á pöllunum, allir Everton aðdáendurnir að syngja sem einn. Heitinga út af fyrir Distin og allir á Goodison Park stóðu upp og klöppuðu fyrir leikmönnum ársins (Distin leikmaður tímabils að mati leikmanna en Heitinga að mati klúbbsins).
Á þessum tíma var City að lenda marki undir manni þrátt fyrir að Joey Barton, leikmaður QPR, hafi látið reka sig út af Joey-Barton-style. „Þvílíkur dagur!“ sagði einhver á BBC vefnum, „Hvað ætli gerist næst?! Er Hibbert að fara að skora?!“.
Svarið kom um hæl: „Rólegur!!“. En tveimur mínútum síðar var nákvæmlega það búið að gerast! Bara verst að það var í eigið net þegar misskilningur kom upp milli hans og Howard en Hibbo ætlaði að skalla aftur en boltinn endar í netinu framhjá Howard. 3-1 fyrir Everton, fjórir leikmenn Everton búnir að skora mark. „Við sögðum SKJÓTTU, Hibbert. Ekki SKALLAÐU, Hibbert!“ 🙂 Þetta mark var bara Hibbo að æfa sig í að skora hið fullkomna mark, sem kemur væntanlega á næsta tímabili. „He scores when he wants“ sungu aðdáendur Everton!
Neville út af, Cahill inn á.
Á 78. mínútu sýndi Howard snilldartilþrif þegar hann slær boltann af línu eftir skalla frá Cisse upp úr horni. Everton á þeim tíma komnir betur inn í leikinn aftur eftir að hafa dalað svolítið í fyrri hluta seinni hálfleiks. Tiote hjá Newcastle braut af sér enn á ný og var tekinn út af fyrir Ameobi því það stefndi í að Tiote yrði rekinn út af.
Gibson átti sitt fjórða þrumuskot í leiknum en Krul slær boltann burtu til Cahill í vítateignum sem skýtur beint aftur á Krul.
Jelavic út af á 84. mínútu fyrir Strac. Allir staðnir á fætur á Goodison og klöppuðu fyrir frábæru framlagi síðan hann kom í janúar. 11 mörk í 10 leikjum.
Demba Ba reyndi að fiska víti með látbragði á 86. mínútu. Dómarinn ekki á þeim buxunum. Gibson með skot rétt fyrir lok leiksins en rétt framhjá. 4 mínútur í viðbótartíma en þegar honum lauk skokkar Cahill yfir til Cabaye og á greinilega eitthvað ótalað við hann því Cahill endar á því að grípa um hálsinn á Cabaye (Duncan Ferguson style) og var fyrir vikið rekinn út af. Ljótur endir á annars skemmtilegum leik og þar með tímabilinu, en það spillir ekki fyrir ánægjunni af því að enda í 7. sæti fyrir ofan Liverpool. Sérstaklega í ljósi þess að í upphafi tímabils áttu fáir von á miklu frá Everton liðinu sem missti Arteta til Arsenal korter fyrir lok gluggans og liðið var ekki til stórræðna fyrri hluta tímabils.
Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Baines 8, Heitinga 7, Jagielka 7, Hibbert 6, Pienaar 7, Neville 6, Gibson 7, Osman 7, Fellaini 9, Jelavic 8. Varamenn Distin 6, Cahill 4, Stracqualursi 6. Einkunnir Newcastle manna voru einhverjar þær slökustu sem ég hef séð hjá andstæðingum Everton á tímabilinu. Tveir leikmenn með fjóra í einkunn, sjö með fimmur og aðeins markvörðurinn Krul (með 7) og Cisse (með 6) sem stóðu upp úr.
Flottur leikur hjá okkar mönnum og unun að horfa á Baines, Pienaar, Fellaini og Jelavic í sóknunum. Þó oft á tíðum hafi verið erfitt að horfa á fyrri hluta tímabils þá hugsaði maður oft að það vantaði bara herslumuninn, einhvern frammi til að klára sóknirnar og nú virðist Everton vera búið að finna rétta manninn í verkið (Jelavic). Kaup á Pienaar hljóta að vera forgangsverkefni fyrir næsta tímabil og ég trúi ekki öðru en að hann sé ákafur í að koma aftur eftir afar dapurt tímabil með Tottenham. Pienaar var duglegur að skipta um kant og skapa usla í vörn Newcastle og Fellaini var hlaupandi út um allan völl, sífelldur þyrnir í síðu Newcastle. Baines var frábær í sendingunum og átti oft hættulegar fyrirgjafir eða náði að koma boltanum í fín færi með útsjónarsemi í sendingum. Osman og Gibson voru líflegir og báðir óheppnir að skora ekki (Gibson nokkrum sinnum). Vörnin að skila sínu að venju.
Moyes verður væntanlega með allar klær úti í leit að réttu bitunum í pússluspilið. Ég er strax farinn að hlakka til næsta tímabils! Góð byrjun á næsta tímabili gæti fært liðinu sæti í Evrópukeppninni sem við eigum að stefna að á hverju ári.
Að lokum vil ég óska Manchester City til hamingju með titilinn. Gaman að sjá að það eru ekki alltaf þeir sömu að vinna ár eftir ár. Kannski eru hér kaflaskil í sögu Manchester liðanna því þeir bláu hafa verið öflugir í ár á meðan rauðir hafa ekki verið allt of sannfærandi á tímabilinu. Það má reyndar segja það sama um önnur rauð lið í ár, því Arsenal hafa verið brokkgengir eftir að hafa misst Nasri og Fabregas (þó Arteta hafi aðeins rétt skipið þeirra við) og Liverpool hafa einfaldlega verið í tómu tjóni allt tímabilið — virðast vera að breytast í bikarlið. Liverpool stuðningsmenn virðast farnir að krefjast þess nú á hverju ári að helmingnum af liðinu þeirra verði skipt út og nýir og betri keyptir í staðinn. Ekki grátum við það, svo sem. Vona bara að Dalglish og hans útsendarar fái að eyða þeim peningunum.
Mér finnst ekki mikið þurfa að bæta við okkar lið, miðað við hvernig við höfum verið að spila. Ég tók saman árangurinn eftir að Jelavic kom til liðs við okkur en við værum í Champions League baráttunni ef við getum haldið sama dampi á næsta ári. Hlakka til að vita hvort einhverjir bætist við í sumar en mér myndi nægja að fá Pienaar aftur til okkar og kannski einn eða tvo lánsmenn/free transfer. Það verður gaman næsta haust þegar boltinn byrjar að rúlla aftur.
Megið þið annars hafa það gott í sumar! Ég þakka lesendum öllum samfylgdina á tímabilinu
Comments are closed.