Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Norwich – Everton 2-1 - Everton.is

Norwich – Everton 2-1

Mynd: Everton FC.

Everton mætti Norwich í dag á heimavelli þeirra síðarnefndu og leikurinn spilaðist eiginlega eins og leikirnir flestir við lið fyrir neðan okkur á tímabilinu hafa spilast. Everton betra liðið, meira með boltann, mun beittari í sóknartilburðum, kemst yfir og fær þó nokkur tækifæri til að gera út um leikinn. Everton átti að fá allavega tvö víti (en fékk ekki) og er algjörlega fyrirmunað að bæta við mörkum. Andstæðingnum vex ásmegin og lauma svo inn marki á lokamínútum. Þessi leikur var svo sérstaklega frústrerandi þar sem Norwich laumaði inn tveimur mörkum á síðustu mínútunum þannig að í stað þess að missa niður þrjú stig í eitt sá Everton á eftir öllum þremur stigunum í leiknum.

Fyrstu tæpar 40 mínúturnar var staðan jöfn, 0-0, sem gæti gefið til kynna (fyrir þá sem ekki horfðu á leikinn) að þetta væri hundleiðinlegur leikur (eins og leikir gegn Norwich eru oft). En svo var þó ekki, eins og enski þulurinn benti á, því boltinn barst markanna á milli og þó nokkuð um færi hjá báðum liðum.

Coleman kom aftur í liðið eftir nokkra fjarveru og var það gleðiefni en Mirallas, sá sem maður vonaðist eftir að væri honum til aðstoðar á hægri kantinum var á bekknum. Uppstillingin því: Howard, Baines, Jagielka, Distin, Coleman, Pienaar, Gibson, Osman, Naismith, Fellaini, Jelavic. Varamenn: Mucha, Heitinga, Oviedo, Mirallas, Hitzlsperger, Neville og Duffy. Anichebe greinilega fjarri góðu gamni.

Norwich átti ágætis færi á 5. mínútu vinstra megin í teignum en Distin náði að tækla og blokkera skotið. Boltinn endaði í sveig ofan á markinu og fór pínulítið um mann. Aðeins mínútu síðar átti Coleman svo fyrirgjöf frá hægri í vítateig Norwich sem fer í varnarmann Norwich og markvörður þarf að slá frá marki til að verjast sjálfsmarki varnarmanns. Á hinum endanum átti Norwich svo flott skot á 18. mínútu en boltinn fór í bakið á þeirra eigin manni (Grant Holt) áður en reyndi á Howard. Fellaini átti tvö skot með stuttu millibili: fyrst í varnarmann Norwich en seinna skotið hátt upp í stúku. Það voru mörg moment í leiknum þar sem maður ranghvolfdi augunum yfir slökum skotum Everton manna á mark sem og hornspyrnum en það sem skorti á skotvissina var bætt upp með skallatækni hjá minnsta manni vallarins, Osman, á 38. mínútu þegar hann fékk frían skalla inn í teig eftir fyrirgjöf frá Baines (sem fékk boltnan frá Pienaar — en ekki hvað?) og gerði Osman vel og skoraði flott skallamark.

0-1 í hálfleik og Everton áttu forskotið skilið. Mun meira með boltann og alltaf líklegra liðið til að skora heldur en Norwich. Everton leit vel út í fyrri hálfleik og létt yfir mannskapnum í salnum sem var að horfa, sérstaklega eftir að Everton komst yfir. Leikurinn var aðeins daufari í seinni hálfleik, allavega til að byrja með. Tvisvar í leiknum sá maður leikmann Norwich halda utan um leikmann Everton inni í eigin teig þegar boltinn barst (minnir að það hafi verið Fellaini í bæði skiptin) og enski þulurinn hafði það á orði að þetta væri víti og ætti ekki að sjást — og minntist svo á að það yrði að fara að breyta reglunum þannig að ef varnarmaður heldur utan um sóknarmann þá eigi að dæma víti þó boltinn sé ekki í leik. Ég get ekki verið annað en sammála en þetta var greinilega taktíkin hjá Norwich, sem og að tækla fast allan leikinn en oft fékk maður fyrir hjartað að sjá sumar tæklingarnar hjá leikmönnum Norwich þar sem Everton maður lá eftir. Dómarinn, Lee Mason, var þó ragur við að sýna spjöldin, jafnvel þegar miðjumaður Norwich var með takkana á lofti og tæklaði í lærið á Fellaini svo að blæddi verulega úr. Dæmdi ekki einu sinni aukaspyrnu. Einu spjöldin sem hann sýndi voru fyrir Grant Holt fyrir að toga aftan í Coleman sem fíflaði hann á kantinum og á Baines fyrir að standa kyrr og láta leikmann Norwich hlaupa á sig.

Eins og svo oft áður á tímabilinu, þá horfði maður upp á Everton með eins stigs forskot slaka á klónni og leyfa andstæðingunum að komast meira og meira inn í leikinn og jafna svo með suckerpunch marki. Í þetta skiptið gerðist það á 84 mínútu þegar Norwich tóku aukaspyrnu (einu sinni kunni Everton að verjast föstum leikatriðum) en Kamara fékk frían skalla á markið þegar Fellaini átti að vera að dekka hann. Minn maður Fellaini er frábær skallamaður en hann hefur sýnt það allt of oft á síðustu tveimur tímabilum að hann er alls ekki nógu góður að fylgja sóknarmönnum andstæðingsins eftir og ræna af þeim skallafæri í föstum leikatriðum. Staðan orðin 1-1 og yfirburðir Everton orðnir að engu.

En svo kom rothöggið. Eftirlitsdómarinn bætti þremur mínútum við leikinn en Lee Mason hefur haldið að hann væri að leika á Old Trafford því hann leyfði leiknum að ganga nokkuð lengur (þó ekki hafi komið til frekari tafa) og á lokasekúndunni böðlar Grant Holt boltanum í netið hjá Everton, eins og honum er einum lagið og þar með stálu Norwich öllum þremur stigunum. Varla tími til að taka miðjuna og því 2-1 sigur Norwich staðreynd. Ósanngjarnt þegar litið er til þess að Everton stjórnaði leiknum nokkuð vel og hefði átt að vera búið að gera út um leikinn löngu áður en Norwich jafnaði. Ekkert nýtt þar, svo sem.

Hvar stendur Everton nú varðandi Evrópusæti hlýtur maður að spyrja sig. Ekki hafði ég mikla trú á þremur stigum gegn United á útivelli og því batt maður nokkrar vonir við það að nú væri þetta loksins að smella í gang aftur og hægt væri að ná í (helst tvo) sigurleiki — gegn Norwich og Reading (sem eru næstir í deild) til að setja pressu á Arsenal og Tottenham fyrir ofan okkur. Sérstaklega í ljósi þess að það eru nokkrir erfiðir leikir framundan á næstunni (Arsenal úti, City heima, Tottenham úti) og Everton ætlar sér greinilega að velja erfiðu leiðina (eins og venjulega) til að reyna að ná 4. sætinu. Maður veit þó aldrei hvað gerist — Everton á það til að bregðast manni þegar gatan virðist greiðfær og koma manni á óvart þegar allt virðist ómögulegt. Það þarf að stoppa lekann á síðasta korterinu ef það á að vera möguleiki en sú von fer dvínandi.

Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Baines 7, Distin 6, Jagielka 6, Coleman 8, Pienaar 6, Osman 6, Gibson 6, Naismith 6, Fellaini 6, Jelavic 6. Varamennirnir Oviedo og Mirallas fengu 6. Einkunnir byrjunaliðs Norwich voru svipaðar: Fimm sjöur, restin með 6 nema ein fimma. Varamaðurinn Kamara (sem jafnaði) með níu.

Það var þó frábært ekki bara að sjá Coleman aftur í liðinu, heldur líka að sjá framlagið hjá honum en hann var besti leikmaður Everton í leiknum og átti frábæran leik í vörn og sókn — átti nokkrar „landsliðs-tæklingar“ sem drápu sóknir Norwich í fæðingu og maður hélt að hefðu komið frá Jagielka þangað til maður sá endursýningu og svo var hann líflegur frammi líka og átti það til að fífla varnarmenn Norwich.

Oldham næst í bikarnum. Forgangsatriði að vinna hann.

 

9 Athugasemdir

  1. Gunnþór skrifar:

    Er bannað að skora fleiri en eitt mark í leik? Nú verður moyes að fara að koma með yfirlýsingu hvort hann ætlar sér að verða áfram eða ekki,þetta er farið að hafa allveruleg áhrif á hausinn á leikmönnum.

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Djöfuls klúður enn einu sinni. Skil ekki af hverju Mirallas byrjaði á bekknum, hvað þá að taka Jelavic út af fyrir hann. Hefði tekið Osman eða Naismith en auðvitað átti Mirallas að byrja inná.
    4. sætið klárlega farið núna og það 5. örugglega líka. Okkar möguleikar á að komast í Evrópukeppni felast nú í að vinna bikarinn, komast í úrslitaleikinn gegn liði sem verður í meistaradeildinni eða ná 6. sætinu og vonast til að liðin sem keppa til úrslita í bikarnum verði bæði í meistaradeildinni næsta tímabil.

  3. Elvar Örn skrifar:

    Moyes klúðraði skiptingunum algjörlega.
    Miðað við byrjunarlið þá átti Mirallas að koma inn fyrir Naismith og Oviedo í stað Baines. Ef hann vildi Jelavic útaf, þá Vellios í staðinn.
    Drífa sig að skrifa undir samning Moyes ef ekki á illa að fara.

  4. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Held ekki að Moyes sé að fara að skrifa undir neinn samning hjá okkur Elvar, því ætti hann að gera það? Það er ekkert að fara að breytast hjá Everton. Það verða ennþá sömu metnaðarlausu drullusokkarnir sem eiga félagið. Þeir verða ennþá sömu nánasirnar þó að þeir séu allir miljarðamæringar. Moyes eða hver sem tekur við af honum mun ekki fá neina peninga til leikmannakaupa nema að selja fyrst.
    Kenwright mun halda áfram að bulla um að það sé enginn betri en hann til að selja klúbbin, og hvað Everton sé frábært félag og að hann sé einn af okkur og bla bla bla. Og því miður verða alltaf allt of margir sem trúa öllu sem hann segir. Við losnum ekki við hann fyrr en hann geispar golunni því miður.

    Það versta við úrslitin í dag er að þau koma ekki einu sinni á óvart.
    Þetta er búið að vera svona allt tímabilið. Liðið sækir og sækir, stjórnar leiknum, skorar eitt mark (sjaldan fleiri þar sem okkar menn gætu ekki skorað í hóruhúsi) og fær svo á sig mark eða mörk í lokin.

    Það sem mér hefur alltaf fundist mest pirrandi við Moyes er þessi árátta að nota ekki varamennina fyrr en seint í leikjum og yfirleitt notar hann þá bara til að bregðast við innáskiptingum andstæðinganna.
    Það er mjög sjaldan sem hann skiptir inná til að reyna að breyta gangi mála nema þá að við séum að tapa, en þá er það oftast of seint.

    Ég vona að Moyes verði áfram hjá okkur og mig hryllir hreinlega við tilhugsuninni um hver tekur við. Það verður örugglega Gary Megson eða einhver álíka.

  5. Ari G skrifar:

    Búinn að fá nóg hvernig detta eigendum í hug að Everton geti keppt við hin liðin án þess að eyða neinu. Moyes er snillingur en hann fer sennilega í sumar enda hefur hann metnað með aumingja sem eiga félagið. Getum gleymt öllu um Meistaradeildina. Hef engan áhuga á ruslkeppninni UEFA eina núna sem skiptir máli er að vinna bikarkeppnina og nota ungu strákanna í UEFA næsta vetur.

  6. Halli skrifar:

    Það lítur út fyrir að Jelavic gæti ekki bjargað lífi sínu með því að skora mark þessar vikurnar. En þetta að vinna ekki svna leiki er að verða mjög pirrandi ég sá ekki leikinn sem betur fer en leikskipulagið er ekki alveg að virka núna

  7. Finnur skrifar:

    Var að horfa á útdráttinn úr leiknum á Match of the Day. Meira að segja Liverpool leikmaðurinn fyrrverandi viðurkenndi að Everton hefði átt að vinna enda hefði það verið betra liðið eins og tölfræðin sýndi í lokin. Útdrátturinn sýnir auk þess vel brotin þrjú sem Lee Mason dómari kaus að líta framhjá: Fyrst takkarnir í hnéð á Fellaini svo blæddi úr sem og bjarnargripið sem varnarmenn Norwich beittu í eigin vítateig á bæði Fellaini og Jagielka til að koma í veg fyrir að þeir næðu að skalla að marki. Víti og ekkert annað — þ.e. ef Lee Mason hefði verið vandanum vaxinn.

    Norwich voru mjög fastir fyrir í tæklingum og greinileg taktík hjá þeim að vera alveg brjálaðir í hvert einasta skipti sem Mason flautaði á þá og voru dyggilega studdir af áhorfendum. Það greinilega hafði áhrif á Mason dómara. Svona virkar þetta bara, því miður.

    Kannski er Everton fyrir bestu að eiga svona marga leiki við liðin fyrir ofan sig því það gengur oft betur á móti þeim liðum en minni liðunum (sigur á móti United og Tottenham, og jafntefli á móti Arsenal og City). 😉

  8. Finnur skrifar:

    Executioner’s Bong með greiningu sína á leiknum:
    http://theexecutionersbong.wordpress.com/2013/02/24/norwich-2-1-everton-tactical-deconstruction/
    Athyglisverð lesning að vanda.