Við eigum leik við Wigan á útivelli á morgun (lau) kl. 15:00. Það verður að segjast að það hefur aldeilis orðið viðsnúningur á viðhorfi stuðningsmanna í kjölfar nýlegra félagaskipta (að ekki sé minnst á hægstæð úrslit í síðustu tveimur leikjum). Félagaskiptaglugginn, sem nýbúið er að loka, var klárlega skemmtilegasti og mest spennandi félagaskiptaglugginn í töluverðan tíma en að auki reyndist þetta einfaldlega einn ánægjulegasti sólarhringur tímabilsins og virkaði einstaklega hvetjandi fyrir framhaldið. Ekki skemmdi náttúrulega fyrir að við toppuðum daginn með því að leggja liðið í efsta sæti sem reyndist 150. sigurleikur Moyes í úrvalsdeildinni en aðeins Ferguson, Wenger og Redknapp hafa náð því sem þjálfarar.
Útlitið virkar því bjart fyrir framhaldið hjá okkar mönnum, en sama er ekki hægt að segja um Wigan sem verma nú neðsta sæti úrvalsdeildarinnar með aðeins 15 stig eftir 23 leiki (við í 10. sæti með 29 stig). Þeir hafa ekki unnið í síðustu 9 leikjum, alveg síðan þeir unnu West Brom 1-2 á útivelli 10. desember, en þeir gerðu tvö jafntefli strax í kjölfarið og hafa síðan tapað 6 af 7 leikjum eftir það (þar af síðustu 5 leikjum í röð). Og ef þið haldið að heimaleikjaformið okkar hafi verið slæmt á tímabilinu þá er það ekkert miðað við Wigan sem hafa ekki unnið heima síðan í ágúst. Við aftur á móti erum taplausir í fjórum leikjum og unnið síðustu tvo.
Við höfum ekki leikið marga leiki gegn Wigan í gegnum tíðina því liðin hafa aðeins mæst 14 sinnum frá upphafi en Everton hefur unnið 8 af þeim leikjum (Wigan aðeins 2). Fyrri leikur liðanna fór 3-1 á Goodison þar sem Jagielka skoraði með skalla eftir að Wigan hafði komist yfir gegn gangi leiksins, og Vellios og Drenthe bættu svo hvor um sig við marki. Wigan hefur aðeins einu sinni í 6 leikjum náð að vinna okkur á eigin heimavelli; Everton hefur aftur á móti unnið helming þeirra leikja (2 jafntefli).
Hjá Wigan eru varnarmaðrinn Alcaraz og sóknarmaðurinn Franco Di Santo líklega meiddir og Hugo Rodallega tekur líklega stöðu þess síðarnefnda. Meiðslalistinn hjá okkur er langur og óbreyttur, að öllum líkindum (Distin, Jagielka, Osman, Rodwell, Seamus) en það verður spennandi að sjá hver uppstillingin verður. Það verður að teljast líklegt að nýju mennirnir fái í mesta lagi (eftir sigurinn á City) að verma bekkinn og koma inn á í síðari hálfleik en ég ætla að skjóta á að Gueye fái séns á vinstri kanti fram yfir Drenthe því mér fannst Gueye virka betur í þarsíðasta leik (Fulham) heldur en Drenthe í þeim síðasta (City). Á móti kemur að ekkert lið gefur jafn margar vítaspyrnur og aukaspyrnur og Wigan, sem er eiginlega ástæða til að velja Drenthe… Svo er spurning hvað verður um Hibbert sem var hreint út sagt stórkostlegur í miðverðinum. Hvað á að gera við svona menn sem brillera gegn efsta liðinu þegar þeir spila ekki stöðuna sína. Fær Hibbert að halda áfram þar eða tekur hann stöðu Neville og Duffy fer í miðvörðinn aftur? Ég held ég leyfi mér að spá: Howard, Baines, Heitinga, Hibbert, Neville, Gueye, Fellaini, Gibson, Donovan, Cahill, Stracqualursi. Count Stracula hlýtur að fá annan séns eftir City leikinn en Saha verður náttúrulega ekki með, enda farinn til Tottenham. Eða eins og einhver orðaði það: The King is dead. Long live the Count! 🙂
Ég þekkti loks mína menn í leiknum á móti City, sem sýndu góðan baráttuanda og gáfust aldrei upp og uppskáru eftir því. Nú er bara að vona að þetta tímabil endi með stæl eins og það síðasta, helst með góðu gengi í bikarnum að auki.
Comments are closed.