Þá er búið að draga í 5. umferð FA bikarsins (16 liða úrslitum) og fengum við heimaleik gegn sigurvegaranum úr viðureign Blackpool og Sheffield Wednesday (sem þurfa að endurtaka leik sinn í fjórðu umferð). Að öllum líkindum verður okkar leikur spilaður 18 febrúar, en viku áður leikum við deildarleik gegn Chelsea heima en tveimur vikum síðar við QPR á útivelli.
Blackpool þekkjum við ágætlega, en við spiluðum við þá tvisvar á síðasta tímabili, báðir leikirnir fjörugir og skemmtilegir; heimaleikinn unnum við 5-3 og gerðum 2-2 jafntefli úti. Þeir voru bara eitt tímabil í úrvalsdeildinni en duttu strax niður í Championship (2. deild) þar sem þeir eru nú í 8. sæti en tveimur sætum ofar kæmust þeir í umspil að tímabili loknu. Sheffield Wednesday er í þriðju deild (sem þeir af e-m orsökum kalla fyrstu deild) í 4. sæti (umspilssæti um eitt laust sæti í Championship).
Blackpool og Sheffield Wednesday gerðu 1-1 jafntefli í gær á heimavelli Blackpool í 4. umferð FA bikarsins en Sheffield Wednesday leiddi snemma í seinni hálfleik. Það var ekki fyrr en rétt áður en dómarinn flautaði leikinn af sem Blackpool fékk dæmt víti sem Phillips skoraði úr og tryggði þeim endurtekinn leik í Sheffield.
Drátturinn í heild sinni lítur annars svona út (deild og núverandi staða innan deildar í sviga):
Norwich (1:9) mætir Leicester (2:13)
Stevenage (3:6) mætir Tottenham (1:3)
Crawley (4:3) mætir Stoke (1:8)
Chelsea (1:4) mætir Birmingham (2:7)
Everton (1:14) mætir Blackpool (2:8) eða Sheffield Wednesday (3:4)
Millwall (2:20) eða Southampton (2:2) mætir Bolton (1:17)
Sunderland (1:10) eða Middlesborough (2:5) mætir Arsenal (1:5)
Liverpool (1:7) mætir Brighton (2:10)
Eins og sjá má hér að ofan mæta öll úrvalsdeildarliðin liðum úr neðri deild nema Sunderland og Arsenal sem gætu mæst (ef Sunderland vinnur Middlesborough). Það verða því ekkert nema úrvalsdeildarlið í næstu umferð (8 liða úrslitum) nema óvænt úrslit eigi sér stað en það getur allt gerst í bikarnum eins og kunnugt er.
Ef liðunum er raðað upp í röð eftir sæti í deild er þetta niðurstaðan (ath: stjörnumerkt lið þarf að endurtaka leik sinn í 4. umferð og gæti því mögulega dottið út áður en að 5. umferð kemur):
Tottenham (1:3)
Chelsea (1:4)
Arsenal (1:5)
Liverpool (1:7)
Stoke (1:8)
Norwich (1:9)
Sunderland (1:10)*
Everton (1:14)
Bolton (1:17)
Southampton (2:2)
Middlesborough (2:5)*
Birmingham (2:7)
Blackpool (2:8)*
Brighton (2:10)
Leicester (2:13)
Millwall (2:20)*
Sheffield Wednesday (3:4)*
Stevenage (3:6)
Crawley (4:3)
Í öðrum fréttum er það helst að búið er að staðfesta söluna á Bily til Spartak. Kunnum við honum bestu þakkir fyrir veitta þjónustu og óskum honum góðs gengis í framtíðinni með sínu nýja liði.
Comments are closed.