Það er svo sem ekki mikið um þennan leik að segja þar sem hann var ekki sýndur í sjónvarpinu og því varð maður að láta sér nægja það sem maður fann skrifað um leikinn á netinu og hlusta á lýsingu BBC.
Moyes setti Neville inn fyrir Hibbert, Bily fyrir Osman og Saha fyrir Vellios. Öllu afdrifaríkara reyndist þó skipting á Heitinga fyrir Jagielka í vörninni og ekki síður varamarkvörðurinn Mucha fyrir Howard en bæði Mucha og Heitinga gerðu sig seka um skelfileg mistök í leiknum. Fyrst Heitinga á 16. mínútu þegar hann gaf víti þar sem Mucha kastaði sér í vitlaust horn en Anelka skaut fram hjá. Síðan var komið að Mucha á 38. mínútu þegar hann glutraði boltanum inn fyrir línu eftir slakt skot frá Kalou og gaf Chelsea mark. 0-1 í hálfleik.
Varamarkvörður Chelsea, Turnbull, var reyndar lítið skárri en hann felldi Saha inni í teig og lét reka sig út af á 57. mínútu. Einhverjum fannst rauða spjaldið heldur hart og margir Everton stuðningsmenn hefðu gjarnan viljað sjá hann spila áfram því, eins og BBC þulirnir sögðu, "það hlýtur að vera tímaspursmál hvenær hann hættir að sleppa við að þola refsingu fyrir öll þessi mistök". En, rautt fékk hann og í staðinn kom Cech inn á í markið og hans fyrsta verk var að verja vítið frá Baines (á mynd má sjá Baines taka vítið) og síðan skot upp úr frákastinu og fór svo að verja eins og berserkur.
Við rauða spjaldið breyttist þó leikurinn töluvert, Chelsea pökkuðu í vörn og Everton lögðust í þunga sókn og fengu fullt af færum en Cech hélt Chelsea inn í leiknum. Drenthe fékk svo gult spjald fyrir brot (eða voru það mótmælin eftir á?) á 74. mínútu sem átti eftir að reynast afskaplega afdrifaríkt.
Everton markið sem lá í loftinu kom loks á 83. mínútu þegar Saha skoraði (enn og aftur gegn Chelsea) og þá leit þetta aldeilis vel út því Chelsea menn voru í nauðvörn allan tímann og komust varla fram yfir miðju. Everton tókst þó ekki að skora aftur fyrir leikslok né í fyrri hluta framlengingar en það fyrsta sem Drenthe gerir í seinni hluta framlengingar er að brjóta af sér og fá þar með sitt seinna spjald og þar með rautt. Verulega sorglegt því hann var hættulegasti maðurinn inni á vellinum og var virkilega farinn að sýna í þessum síðustu tveimur leikjum hvers hann er megnugur.
Við þetta jafnaðist leikurinn aftur og Chelsea fór aftur að fá hættulegar sóknir og í einni slíkri náði Sturridge loks að skora á 115. mínútu. Og við þar sat, vonin um gott gengi í deildarbikarnum úti. Þetta var hins vegar hinn fjörugasti leikur, fullt af færum en við fórum illa að ráði okkar í mörg skipti fyrir framan markið og hefðum átt að klára þennan leik með 2-3 mörkum í seinni hálfleik.
Sky gefur ekki einkunnir fyrir bikarleikina þannig að engar einkunnir fylgja.
Comments are closed.