Manchester United tekur á móti okkar mönnum á Old Trafford á laugardaginn kl. 11:45. Við erum enn á góðri siglingu í formtöflunni (í 2. sæti með 14 stig af 18 mögulegum úr síðustu 6 leikjum, 2 sætum ofar en Manchester United með 10 stig af 18 mögulegum). Við höfum unnið 5 af 7 síðustu leikjum og enn er til staðar veik von um að ná Evrópusæti.
Til þess að það verði að veruleika þarf þrennt að gerast: Í fyrsta lagi þarf Manchester City að vinna Stoke í úrslitum FA bikarsins þann 14. maí og lenda ekki ofar en í 5. sæti í deildinni. Ef það gerist er eins gott að okkar menn standi sig því að 6. sætið er þá Evrópusæti sem kæmi væntanlega í hlut Liverpool ef við náum ekki hægstæðari úrslitum í síðustu leikjum tímabilsins. Næstu leikir okkar (eftir þennan leik) eru: Wigan (úti), Man City (heima), West Brom (úti) og Chelsea (heima). Liverpool, til samanburðar, á eftir: Birmingham (heima), Newcastle (heima), Fulham (úti), Tottenham (heima) og Aston Villa (úti).
Eins og sjá má verður þetta erfið prófraun fyrir okkur, sérstaklega í ljósi þess að við höfum ekki unnið í 19 ár á Old Trafford en við höfum í gegnum tíðina ekki unnið nema 21% leikja á þeirra heimavelli (23% jafntefli). Þeir hafa þó eitthvað verið að hiksta undanfarið en þeir töpuðu f. Manchester City í bikarnum og náðu aðeins jafntefli á móti Newcastle í deildinni. Okkar síðustu leikir gegn þeim hafa gengið ágætlega, við gerðum 3-3 jafntefli heima við þá (sjá mynd þar sem Arteta fagnar einu markinu) og höfum aðeins tapað tvisvar gegn þeim í síðustu 6 leikjum (og aðeins einu sinni í síðustu fimm leikjum okkar við lið í efstu 6 sætunum á tímabilinu).
Hjá okkur eru Fellaini, Saha og Baxter meiddir og óvíst með Arteta sem reif lærvöða fyrir nokkrum vikum en var nýlega sagður eiga séns í þennan leik. Jafnframt er spurningamerki við Cahill og Heitinga. Hjá þeim er Scholes í banni eftir enn eina glórulausa tæklingu, Fletcher veikur og Hargreaves, Lindegaard og Rafel meiddir. Spurningamerki við Berbatov og Ferdinand, en sá síðarnefndi var sagður eiga séns á að spila.
Af leikmannamálum er það að frétta að Shane Duffy er kominn aftur úr láni hjá Burnley. Nokkrir orðrómar hafa jafnframt verið um leikmannakaup nýlega, misfjarstæðukenndir eins og venjulega: Guy Moussi (aftur), Diego Perotti (aftur), Hugo Rodallega og við einnig sagðir hafa misst af Michael Silberbauer. Moussi verður þó að teljast líklegastur (eins og áður hefur komið fram hér) því hann er með lausan samning bráðum.
Comments are closed.