Mynd: Everton FC.
Borgarslagurinn stóri er á morgun, sunnudag kl. 13:30 (ATH: ekki 12:30 eins og áður var sagt), þegar Everton tekur á móti Liverpool í ljónagryfjunni Goodison Park. 17 leiki hefur Everton leikið í röð á heimavelli og aðeins tapað einum, eins og ég kom inn á í síðustu færslu — og reyndar aðeins tapað einum af síðustu 17 leikjum í deild (bæði heima og úti), ef út í það er farið. Liðið hefur leikið frábærlega frá upphafi tímabils, haldið boltanum vel og látið hann ganga, spilað léttleikandi sóknarbolta þar sem sköpunargleðin hefur verið ríkjandi og Everton alla jafna yfirspilað andstæðingana sem liðið mætir. Það var engin tilviljun að Man United laut í lægra haldi í upphafsleiknum og það var unun að horfa á boltann sem spilaður var í leikjum þar á eftir, eins og Aston Villa og Swansea (með sinn Barcelona eftirhermu-stíl). Everton hefur vaðið í færum og skorað fjölda marka en á dögunum var talað um að ekkert lið í helstu deildum Evrópu hefði átt fleiri skot á markið í fyrstu 6 leikjum en Everton og enginn leikmaður í Evrópu skapaði fleiri sénsa (né jafn marga sénsa á jafn stuttum tíma) og okkar maður Leighton Baines. Sjá tölfræðina.
Mynd: eplindex.com.
Mótherjar okkar manna, Liverpool, eru í sínu árlegu tómu tjóni sem virðast vera fastir liðir eins og venjulega þessi síðustu árin en þeir hafa með endalausu róti á mannskap og stjórum og skelfilegum innkaupum farið hallandi fæti ekki bara gagnvart þeim sem hafa verulega peninga milli handanna heldur líka gagnvart Everton liðinu, sem nýtir sína fjármuni afskaplega vel. Liverpool er, eins og í fyrra með nýjan stjóra í brúnni, að reyna að losa sig við rándýra misheppnaða one-season-wonder leikmenn og kröfur aðdáenda þeirra (sem flestir eru í Noregi) verða háværari á hverju árinu að nú þurfi eigendurnir verulega að spýta í lófana og hósta upp tugmilljónum punda (aftur) í almennilegan striker, almennilegan kantmann, almennilegan miðjumann, almennilegan slúttara. Þetta var hlægilegt í fyrra en er farið að verða aumkunnarvert í ár enda verður liðið þeirra lélegra með hverju árinu sem líður. Á hverju ári er afsökunin ‘við erum að byggja nýtt lið til framtíðar’ dregin fram en árangurinn lætur alltaf á sér standa. Everton hefur tekið stórstígum framförum frá því að Moyes tók við og hefur undanfarin ár bætt sig örlítið með hverju ári, þannig að nú er talað um að Everton eigi möguleika á Champions League sæti enda hefur byrjunin sýnt það.
Það er þó alveg sama í hversu lélegu formi Liverpool eru fyrir leikinn við Everton því þeir virðast þessi síðustu ár eingöngu ná’onum upp gegn Everton og þetta verður því erfiður leikur. Öll þessi orka sem þeir leggja í leikina gegn Everton sýnir sig greinilega í slökum árangri þeirra í deild bæði fyrir og eftir derby leikina, því fyrir útileikinn við Everton á síðasta tímabili töpuðu þeir fjórum deildarleikjum í röð og eftir Everton leikinn unnu þeir aðeins einn af næstu fimm leikjum. Fyrir FA bikarleikinn við Everton unnu þeir aðeins einn af sínum fjórum deildarleikjum og aðeins einn af næstu 6 leikjum á eftir. Ef Liverpool vinnur (ólíklegan) sigur á morgun yrði það í fyrsta skipti síðan 2011 sem þeir vinna tvo deildarleiki í röð, fyrsta skiptið sem Brendan Rodgers hefur betur gegn Moyes og aðeins í annað skipti sem stjóri vinnur sinn fyrsta Merseyside derby leik.
Talandi um Rodgers þá hélt ég að ég væri kominn í tímavél í morgun. Fyrir FA bikarleik þessara tveggja liða á síðasta tímabili var Dalglish strax farinn að væla hvað dómararnir séu alltaf ósanngjarnir við Liverpool að flauta ekki alltaf þegar Luiz Suarez lætur sig falla. Nákvæmlega sama vælið var haft eftir Rodgers í dag. Liverpool leggur greinilega upp með það fyrir leiki gegn Everton að væla í dómurunum. Það sem ég sagði fyrir FA bikarleikinn á ennþá við í dag: „Eins og Guðni Ágústs hefði orðað það: Þar sem tveir Liverpool menn koma saman, þar eru samsæriskenningar“. Moyes benti á að ef menn ætla að tala um að eiga eitthvað inni hjá dómaranum þá væri kannski hægt að skoða Newcastle leik okkar, þar sem tvö lögleg mörk voru dæmd af, rangstöðumarkið sem Wigan skoraði gegn Everton og fáránlega rauða spjaldið sem Pienaar fékk í síðasta leik fyrir það eitt að mótherjinn sparkaði í hann. Eða fáránlegur leikaraskapur Suarez í heimaleik Liverpool gegn okkur, þar sem hann fiskaði Rodwell út af. Moyes benti réttilega á að Suarez er vel þekktur fyrir leikaraskap og að slíkt gæti haft hamlandi áhrif fyrir nýliðun meðal áhorfenda á enska boltann. Ég veit ekki hvort ég myndi ganga svo langt að taka undir það en gæti trúað að þetta hafi áhrif á nýliðun meðal stuðningsmanna Liverpool. Allavega veit ég það af eigin reynslu að þegar ég horfi á leiki þar sem ég styð hvorugt liðið þá fer ég ósjálfrátt að halda með liðinu sem svindlarar á borð við Suarez sviku spjald út úr. Moyes hefur frá upphafi lagt upp hjá sínum mönnum að reyna að standa af sér tæklingar og vera ekki með neinn leikaraskap og er það mjög virðingarvert, þó það þýði að andstæðingar fái kannski síður rauð spjöld og gefi síður víti. Ég myndi vilja sjá fleiri stjóra liða í efsta hlutanum taka það upp — og sama gildir reyndar líka um stjóra miðjumoðsliða á borð við Liverpool. Everton er ekki klúbbur sem svindlar til að vinna leiki.
David Moyes sagði að Fellaini væri byrjaður að æfa og ætti góðan séns í leikinn á sunnudag. Gibson mun ekki ná leiknum en reynslumesti derby-leikmaðurinn okkar, Tony Hibbert, á séns í leikinn, sem er gott, því maður vill sjá reynslubolta í derby leikjunum. Svona leikir, þar sem spennan stigmagnast og pressan eykst til muna tapast oft á reynsluleysi einstaka leikmanna. Það er gott að hugsa til þess að hópurinn okkar hefur verið stöðugur, ekki mikið um hrókeringar undanfarið og hópurinn spilað lengi saman langflestir þannig að leikmenn þekkja hvern annan mjög vel. Þeir sem komu inn nýir, eins og Mirallas og Jelavic, þekkja auk þess svona derby leiki vel því Jelavic og Naismith komu úr Rangers-Celtics umhverfinu og Mirallas frá Olympiakos, en hann lenti í derby leik gegn Panathinaikos þar sem Mirallas og félagar komust yfir en þurftu að hlaupa til að bjarga lífi sínu undan áhorfendum sem hentu eldsprengjum í áttina að þeim.
Líkleg uppstilling: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Hibbo. Miðjan: Osman, Neville. Vinstri kantur: Mirallas. Hægri kantur: Coleman/Naismith. Fellaini í holunni fyrir aftan Jelavic. Ég vil ekki sjá Anichebe á kantinum eins og í síðasta leik, ég vil hafa hann á bekknum (hann er okkar supersub) og koma inn á í lokinn og setja eitt í viðbót við hin. Maður gæti líka hugsað sér að hafa Osman á vinstri kantinum og Fellaini á miðjunni, Mirallas kannski í holunni eða Naismith. Það verður reyndar að viðurkennast að það er erfitt að velja liðið þar sem möguleikarnir eru svo margir, sem er kannski vitnisburður um það hversu góð kaup Moyes hefur verið að gera, en hann kaupir varla leikmann í dag nema hann geti sinnt allavega tveimur stöðum á vellinu með sóma.
En, látum þetta nægja í bili. Spennan er að magnast. Everton sýndi í fyrra að liðið er betra en Liverpool og er að sýna það aftur með byrjuninni á tímabilinu. Nú þarf að sýna það á morgun líka. Ekki missa af þessum leik. Sjáumst á Ölveri. Koma svo bláir!!!!
Í öðrum fréttum er það helst að Jake Bidwell, annar bráðefnilegi vinstri bakvörður Everton og unglingalandsliðsmaður Englands, framlengdi lán sitt hjá Brentford um mánuð í viðbót. Þetta verður því þriðji mánuður hans með þeim.
Leikurinn er 13:30, skipt yfir í vetrartímann í nótt.
Heyrðu, takk kærlega fyrir þá ábendingu, Teddi. Þetta mun vera rétt. tíminn breytist í nótt en ekki aðfararnótt mánudags, eins og ég hélt.
Já og spáin er 1-1 og alls óvíst hvort ég hafi taugar í að horfa 😉 😉
Hvernig mæting verður á Ölver og hvenær?
Mæting… eigum við að segja hálftíma fyrir leik (kl. 13?). Erfitt að segja með fjöldann en ég reikna með ágætis mætingu, þessir leikir trekkja yfirleitt að.
Howard
Jags heitinga. Distin
Coleman. Neville. Beinsy
Marillas. Fellaini. Osman
Jela
Hvað mundi ykkur finnast um þessa uppstillingu
Það má alveg prófa eitthvað nýtt, bara kannski ekki í þessum leik… 🙂