Ekki var leikið í úrvaldsdeildinni um síðustu helgi og því tvær vikur liðnar frá síðasta leik og ýmislegt búið að gerast. Hér er yfirlit yfir það helsta:
Nokkrir landsleikir áttu sér stað í hléinu og ber helst að nefna að Tim Howard var í miklu stuði í markinu gegn Argentínu, var valinn maður leiks og hélt Bandaríkjunum á floti gegn Lionel Messi og félögum í leik sem endaði 1-1.
Bæði Leighton Baines og Phil Jagielka voru í byrjunarliðinu í vináttuleik Englands á móti Ghana á Wembley sem fór 1-1. Báðir leikmenn þóttu standa sig ágætlega samkvæmt pressunni, Baines kannski eitthvað betur en sagt var að Jagielka hefði ekki fundið sig almennilega. Dagblaðið The Mirror sagði reyndar að Capello hefði látið Jagielka spila í stöðu vinstri bakvarðar þó hann sé ekki örvfættur, þannig að kannski það hafi haft eitthvað að segja. Hvað um það. Leikurinn þótti fjörugur en Englendingar fengu á sig mark í blálokin þegar Gyan fór illa með Jolean Lescott.
Meiðsli settu aldeilis strik í reikninginn undanfarið hjá nokkuð mörgum (andvarp!) en Seamus Coleman og Rodwell hættu báðir við að spila með sínum landsliðum vegna meiðsla. Saha er svo að fara í uppskurð eftir að hafa meiðst á ökkla gegn Fulham og verður því ekki meira með á tímabilinu. Svo má einnig geta þess að Jose Baxter meiddist líka. Þetta bætist svo ofan á þá sem þegar voru á sjúkralista (Arteta, Fellaini, Cahill, … er ég ekki að gleyma einhverjum?). Arteta er búinn að hvílast á Spáni en er á leiðinni aftur til Liverpool og verður þá metið hvort hann geti náð að spila eitthvað af leikjum í lok tímabils.
En, aftur að jákvæðu punktunum. Leon Osman (hægra megin á mynd) var valinn Everton leikmaður mars mánaðar og er vel að því kominn en hann átti fantagóðan mánuð: átti eina stoðsendingu í leiknum gegn Sunderland (2-0 sigur) og aðra gegn Fulham (2-1 sigur) og skoraði svo mark á móti Newcastle (2-1 sigur). Hann situr nú í öðru sæti yfir næst-hæsta fjölda stoðsendinga sem gáfu mark á tímabilinu (á eftir Baines, að sjálfsögðu).
Tony Hibbert (vinstra megin á mynd) fagnaði því að hafa verið 20 ár hjá félaginu (geri aðrir betur!!) en hann kom upp gegnum unglingastarfið og spilaði sinn fyrsta leik með aðalliðinu fyrir 10 árum síðan (í 2-0 sigri gegn West Ham) og er enn með ör þess til staðfestingar. Ágætis grein um hann hér.
Johnny Heitinga komst svo í fréttirnar eftir að haft var eftir honum að hann væri besti miðvörðurinn hjá Everton og væri eitthvað ósáttur við að fá ekki að spila. Svo var það dregið til baka og viðtalið við hollensku pressuna var sagt vera slitið úr samhengi af bresku pressunni. Hvað um það. Einbeita sér bara að boltanum og að komast í aðalliðið.
Einnig var rætt um að fjársterkir aðilar hefðu áhuga á að kaupa Everton. Spurning hvort nokkuð sé til í því.
Og að lokum má geta þess að sóknarmaðurinn Vellios sem við keyptum á dögunum er búinn að vera í banastuði með varaliðinu, lagði upp bæði mörk varaliðs Everton gegn Liverpool og setti sjálfur inn mark þrjá leiki í röð. Vonandi fáum við að sjá hann bráðlega með aðalliðinu.
Comments are closed.